Gå til indhold

Samantekt

Borgundarhólmur, Færeyjar og Ísland standa frammi fyrir sérstökum áskorunum hvað varðar rafgeyma og rafhlöður sem verða að úrgangi. Verkefnið „Batterí í litlum norrænum samfélögum“ hefur haft það að markmiði að greina gögn, rammaskilyrði, hindranir og tækifæri til að styrkja umhverfisvæna neyslu og förgun rafhlaðna og rafgeyma á þessum þremur svæðum nú og í framtíðinni.
Á Borgundarhólmi gildir regluverk um meðhöndlun úrgangs, sem samið var af umhverfisráðuneytinu og dönsku umhverfisstofnuninni (Miljøstyrelsen). Framlengd framleiðendaábyrgð á rafhlöðum og rafgeymum hefur verið innleidd í Danmörku og er þar í umsjón Dansk Producentansvar (DPA). Sorpsamlag Borgundarhólms (Bornholms Affaldsbehandling (BOFA)) sér um alla söfnun á rafhlöðum og rafgeymum á vegum sveitarfélaganna í samræmi við framtíðarsýn svæðisstjórnarinnar um úrgangslausan Borgundarhólm 2032 og úrgangsáætlunina sem gefin var út árið 2020. Íbúar og fyrirtæki hafa aðgang að upplýsingaskrá á netinu um úrgang og rétta flokkun. Undanfarin ár hefur notuðum litlum blönduðum rafhlöðum (<100kW) og færanlegum rafgeymum (>100kW) verið safnað í auknum mæli, bæði frá heimilum og á söfnunarstöðvum, en söfnun á startrafhlöðum (sem Bornholms Produkthandel sér um) hefur verið breytileg frá ári til árs.
Greindar hafa verið þrjár meginhindranir sem standa í vegi fyrir enn umhverfisvænni neyslu og förgun rafhlaðna og rafgeyma á Borgundarhólmi: 1) skortur á pólitískri forgangsröðun og eftirliti, 2) röng flokkun og ófullnægjandi innviðir og 3) áskoranir sem varða stóra rafgeyma og frumkvæði fyrirtækja. Mælt er með því að leitast sé við að draga úr magni rafhlöðuúrgangs með því að svæðisstjórn Borgundarhólms setji kröfur varðandi kaup fyrirtækja á vegum sveitarfélaga á endurhlaðanlegum rafhlöðum í stað einnota rafhlaðna, svo og varðandi kaup á stærri rafgeymum. Til að ná betri tökum á rafhlöðuúrgangi er mælt með að skilgreina markmið um söfnun rafhlöðuúrgangs fram til ársins 2032, í samræmi við skýra framtíðarsýn fyrir rafhlöður og rafgeyma í takti við heildarsýn um úrgangslausan Borgundarhólm árið 2032. Markmiðunum ætti að fylgja eftir með áætlun sem miðar að því að hámarka flokkun á notuðum rafhlöðum, sem fæli m.a. í sér aukið eftirlit með árangri aðgerða, auk þess sem hvatt er til aukins samtals við borgara og fyrirtæki með það fyrir augum að auka meðvitund um innkaup og förgun á rafhlöðum.
Í Færeyjum bera Umhvørvismálaráð, umhverfisráðuneytið og Umhvørvisstovan (Umhverfisstofnun) ábyrgð á löggjöfinni um meðhöndlun úrgangs. Umhørvisstovan vinnur að gerð landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs, þar sem sett eru markmið um söfnun og endurvinnslu þvert á úrgangsflokka, þ.m.t. vel skilgreindar aðgerðir varðandi bílarafgeyma. Þá er gert ráð fyrir að úrgangsáætlanir sveitarfélaga komi til framkvæmda árið 2024. Öll sveitarfélög, að Þórshöfn frátalinni, hafa framselt ábyrgðina á rafhlöðusöfnun til Interkommunali Renovatiónsfelagsskapurin (IRF). Í Þórshöfn er rafhlöðum og rafgeymum hins vegar safnað og fargað af Kommunala Brennistøðin (KB). Rafhlöðum og rafgeymum er safnað frá einstökum heimilum og einnig geta íbúar, fyrirtæki o.fl. skilað rafhlöðum og rafgeymum til móttökustöðva. Allar notaðar rafhlöður og rafgeymar sem safnast eru flutt út til förgunar. Fyrirliggjandi (takmörkuð) gögn um söfnun rafhlaðna og rafgeyma sýna miklar sveiflur frá ári til árs. Vonir standa til að innan fárra ára verði útbúið betra kerfi til gagnaöflunar á þessu sviði.
Greindar hafa verið þrjár meginhindranir sem standa í vegi fyrir enn umhverfisvænni neyslu og förgun rafhlaðna og rafgeyma í Færeyjum: 1) skortur á markmiðum um söfnun og förgun, 2) skeytingarlaus hegðun og ófullnægjandi innviðir og 3) mikill kostnaður við meðhöndlun úrgangs. Til að ná betri stjórn á rafhlöðuúrgangi er mælt með að innleiða framlengda framleiðendaábyrgð á rafhlöðum og rafgeymum með tilheyrandi markmiðssetningu um söfnun rafhlöðuúrgangs. Þessu þarf að fylgja eftir með áætlun sem miðar að því að hámarka flokkun á notuðum rafhlöðum, sem fæli m.a. í sér aukið eftirlit með árangri aðgerða, auk tilheyrandi skýrslugerðar og uppfærslna. Lagt er til að samskipti við íbúa verði aukin þar sem skýr markmið verði kynnt, auk viðbótarupplýsingaefnis og leiðbeininga fyrir íbúa og rekstraraðila sem birt yrði á vef Umhvørvisstovunnar. Mælt er með því að haldnar verði vinnustofur fyrir rekstraraðila til að greina mögulega hvata til aukinnar söfnunar. Jafnframt er mælt með að settar verði kröfur um geymslu rafhlaðna og rafgeyma á móttökustöðvum sveitarfélaga, þannig að gæði efnisins sem safnast viðhaldist, sem aftur stuðlar að hærra hlutfalli endurnotkunar og endurheimtar efna.
Á Íslandi ber umhverfis-, orku-, og loftlagsráðuneytið ábyrgð á gerð laga um meðhöndlun úrgangs, en Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Löggjöf ESB um meðhöndlun úrgangs er yfirleitt innleidd beint vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Gert er ráð fyrir að innleiðing nýrrar rafhlöðureglugerðar ESB muni stuðla að bættri meðhöndlun rafhlaðna og rafgeyma, en eins og staðan er í dag eru engin verkefni eða áætlanir í gildi sem ætlað er að auka söfnun, endurnotkun og endurvinnslu rafhlaðna og rafgeyma. Frá árinu 2002 hefur Úrvinnslusjóður borið ábyrgð á framlengdri framleiðendaábyrgð á rafhlöðum og rafgeymum, þar með talið á fjárframlögum til söfnunar, förgunar, tölfræði og upplýsingaherferða. Sveitarfélögin vinna með 13 einkareknum úrgangsfyrirtækjum að söfnun og förgun úrgangsins sem um ræðir. Úr sér gengnum rafhlöðum og rafgeymum er safnað á vegum sveitarfélaga og á bensínstöðvum og síðan flutt til Belgíu, Hollands og Svíþjóðar til endurvinnslu. Tölfræði fyrir úrgangsflokkinn sýnir almenna aukningu í söfnun og endurvinnslu á flestum gerðum rafhlaðna og rafgeyma á tímabilinu 2012-2022.
Greindar hafa verið þrjár meginhindranir sem standa í vegi fyrir enn umhverfisvænni neyslu og förgun rafhlaðna og rafgeyma á Íslandi: 1) skortur á skýrum markmiðum og framtíðarsýn fyrir rafhlöðuúrgang, 2) þekkingarskortur meðal íbúa og 3) mikill kostnaður við meðhöndlun úrgangs. Til að ná betri stjórn á rafhlöðuúrgangi er mælt með að setja markmið um söfnun þessa úrgangs. Þessu þarf að fylgja eftir með áætlun sem miðar að því að hámarka flokkun á notuðum rafhlöðum, sem fæli m.a. í sér aukið eftirlit með árangri aðgerða, auk tilheyrandi skýrslugerðar og uppfærslna. Mælt er með að útbúið verði upplýsingaefni og leiðbeiningar fyrir íbúa og fyrirtæki varðandi hlutverk þeirra í meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er mælt með því að skipulögð verði hakkaþon og vinnustofur til að stuðla að nýsköpun og þróun rafhlöðuiðnaðar í anda hringrásarhagkerfisins, auk þess sem greindir verði möguleikar á fjárstuðningi til verkefna sem snúast um notaðar rafhlöður og rafgeyma.