Fara í innihald

Starfsaðferð

Skipulag sviðsins

Norræna ráðherranefndin um jafnrétti og hinsegin málefni (MR-JÄM)

Norræna ráðherranefndin um jafnrétti og hinsegin málefni (MR-JÄM) er skipuð þeim norrænu ráðherrum sem fara með ábyrgð á jafnréttismálum og jöfnum réttindum til handa hinsegin fólki og leiðir hún norrænt samstarf á þessu sviði. Ráðherrarnir funda að minnsta kosti einu sinni á ári þar sem þeir ræða mál sem eru efst á baugi og taka sameiginlegar ákvarðanir á sviðum þar sem samstarf landanna skilar meiri árangri en þegar þau vinna hvert í sínu horni, öðru nafni norræn nytsemi.

Norræni jafnréttissjóðurinn og Norræni LGBTI-sjóðurinn

Til þess að koma á norrænu samstarfi á milli samtaka, atvinnulífsins og borgarasamfélagsins veitir Norræna ráðherranefndin um jafnrétti og hinsegin málefni árlega fé til Norræna jafnréttissjóðsins og Norræna LGBTI-sjóðsins en þar er hægt að sækja um styrki til að fjármagna verkefni sem efla norrænt samstarf og norræna nytsemi á sviði jafnréttismála og hinsegin málefna.
plattform-fatherhood-8412.jpg

Embættismannanefndin um jafnrétti og hinsegin málefni (EK-JÄM)

Embættismannanefndin er skipuð fulltrúum allra Norðurlandanna auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands og fundar hún yfirleitt þrisvar á ári. Nefndin leiðir daglegt starf, undirbýr ráðherrafundi og fylgir ákvörðunum ráðherranna eftir. Hvert land getur tilnefnt tvo fulltrúa sem búa yfir sérstakri þekkingu á sviði jafnréttismála eða hinsegin málefna.

Norræna upplýsingaveitan um kynjafræði (NIKK)

NIKK er samstarfsstofnun norrænu ríkisstjórnanna á sviði jafnréttismála og hinsegin málefna. NIKK tekur saman og miðlar þekkingu um pólitík og aðgerðir, staðreyndir og rannsóknir á sviði jafnréttismála og hinsegin málefna í norrænu samhengi.

Alþjóðleg ábyrgð

Með hinni norrænu framtíðarsýn um opin Norðurlönd er leitast við að efla rödd Norðurlanda í alþjóðasamfélaginu. Í norrænu samstarfi er unnið að því að styrkja alþjóðlegar skuldbindingar sem ýta undir jafnrétti kynjanna og jöfn réttindi til handa hinsegin fólki á Norðurlöndum og í heiminum.
Á hverju ári tekur Norræna ráðherranefndin um jafnrétti og hinsegin málefni þátt í fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW) til þess að vekja athygli á norrænum lausnum á sviði jafnréttismála og láta rödd Norðurlanda heyrast á alþjóðavettvangi. 
Einnig geta norrænu ríkisstjórnirnar nýtt sér norrænt samstarf á sviði jafnréttismála og hinsegin málefna til þess að samstilla og samræma afstöðu innan Evrópuráðsins og ESB með það fyrir augum að efla sameiginlega rödd Norðurlanda og kynna góðar norrænar lausnir og árangur.
Þá hefur Norræna ráðherranefndin um jafnrétti og hinsegin málefni átt í samstarfi við Eistland, Lettland og Litháen á sviði jafnréttismála frá árinu 2017 til þess að skapa tengslanet, skiptast á reynslu og þróa í sameiningu norrænar-baltneskar lausnir.

Framkvæmd samstarfsins

Skoða ber norrænt samstarf á sviði jafnréttismála og hinsegin málefna í samhengi við önnur stefnumarkandi skjöl Norrænu ráðherranefndarinnar, þar á meðal Framtíðarsýn okkar 2030, og haga skal starfinu í samræmi við stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu sjálfbærrar þróunar, jafnréttis og sjónarmiða barna og málefna ungmenna.
Norræna ráðherranefndin gerir Norðurlandaráði árlega grein fyrir starfi sínu að jafnréttismálum og samþættingu jafnréttissjónarmiða við norrænt samstarf í heild sinni.
 
Einnig er unnið þvert á fagsviðin að jafnrétti kynjanna og jöfnum réttindum til handa hinsegin fólki með sérstaka áherslu á frumbyggja, fólk úr minnihlutahópum af erlendum uppruna og fatlað fólk.
Samstarfið á að byggjast á þekkingu og staðreyndum og meðal annars snúast um miðlun reynslu og umræðu með því að skapa samnorræna vettvanga, að miðla góðum dæmum, með upplýsingaherferðum, viðhorfsbreytingum, samnorrænum rannsóknum á sviðinu og skiptum á upplýsingum um löggjafarstarf landanna. 
Önnur fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar skulu koma að vinnunni eftir því sem við á.

Úttekt á samstarfsáætluninni

Samstarfsáætlunin gildir fyrir tímabilið 2025–2030 en er skipt niður í þriggja ára starfsáætlanir fyrir tímabilin 2025–2027 og 2028–2030.
Á miðju tímabilinu verður gerð úttekt og á grundvelli hennar kann ráðherranefndin að gera breytingar á samstarfsáætluninni ásamt því að fá tillögur að því hvernig rétt sé að útfæra starfsáætlun fyrir seinni hluta tímabilsins.
Auk þess verða gerðar milliúttektir eftir því sem framkvæmdastjóri og ráðherranefndin telja þörf á.