Framkvæmd samstarfsins
Skoða ber norrænt samstarf á sviði jafnréttismála og hinsegin málefna í samhengi við önnur stefnumarkandi skjöl Norrænu ráðherranefndarinnar, þar á meðal Framtíðarsýn okkar 2030, og haga skal starfinu í samræmi við stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu sjálfbærrar þróunar, jafnréttis og sjónarmiða barna og málefna ungmenna.
Norræna ráðherranefndin gerir Norðurlandaráði árlega grein fyrir starfi sínu að jafnréttismálum og samþættingu jafnréttissjónarmiða við norrænt samstarf í heild sinni.
Einnig er unnið þvert á fagsviðin að jafnrétti kynjanna og jöfnum réttindum til handa hinsegin fólki með sérstaka áherslu á frumbyggja, fólk úr minnihlutahópum af erlendum uppruna og fatlað fólk.
Samstarfið á að byggjast á þekkingu og staðreyndum og meðal annars snúast um miðlun reynslu og umræðu með því að skapa samnorræna vettvanga, að miðla góðum dæmum, með upplýsingaherferðum, viðhorfsbreytingum, samnorrænum rannsóknum á sviðinu og skiptum á upplýsingum um löggjafarstarf landanna.
Önnur fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar skulu koma að vinnunni eftir því sem við á.