Jafnrétti hefur í sögulegu ljósi leikið lykilhlutverk í þróun hinna öflugu norrænu velferðarsamfélaga. Mikil atvinnuþátttaka jafnt karla sem kvenna, auk góðra aðgerða í jafnréttismálum, hefur skilað því að á norrænum vinnumörkuðum ríkir einna mest jafnrétti í heiminum.
Þrátt fyrir það er enn til staðar bæði lóðrétt og lárétt kynjaskipting í menntakerfum og á vinnumörkuðum á Norðurlöndum þar sem karlar eru í meirihluta í stjórnunarstöðum og konur og karlar eru ýmist í miklum minni- eða meirihluta í hefðbundnum karla- og kvennastörfum. Þá er launamunur enn einkennandi fyrir norræna vinnumarkaði auk þess sem algengara er að konur vinni hlutastörf en karlar. Jafnframt hvíla ólaunuð umönnunar- og heimilisstörf enn að of miklu leyti á herðum kvenna og það eru enn konur sem nýta langstærstan hluta fæðingarorlofs.
Mikilvægt er að beina sjónum að hinum grænu umskiptum norrænna samfélaga og vinnumarkaða þar sem hætta er á að núverandi ójöfnuður aukist enn verði ekki markvisst unnið að því að umskiptin eigi sér stað með réttlátum og jafnréttismiðuðum hætti. Kynjaskipting vinnumarkaðarins má ekki verða hindrun í vegi grænna umskipta því þörf er á öllum hæfum einstaklingum til þess að finna góðar lausnir.
Löggjöf á Norðurlöndum veitir hinsegin fólki góða vernd gegn mismunun, jafnt á vinnumarkaði sem utan hans, og mörg norræn fyrirtæki vinna markvisst starf í þágu inngildingar og fjölbreytileika. Engu að síður upplifir margt hinsegin fólk fordóma, mismunun og áreitni innan menntakerfisins og á vinnumarkaði. Þetta hefur í för með að tækifæri og vellíðan í vinnu skerðist ásamt því að hinsegin fólk, einkum ungt, er sett í viðkvæmari efnahagslega stöðu og trans einstaklingar fá lægri tekjur en sískynja einstaklingar.