Norrænu löndin hafa í gegnum tíðina verið í fararbroddi þegar kemur að því að stuðla að jöfnu fyrirsvari og kynjaskiptingu í stjórnmálum. Engu að síður hallar enn á konur þegar litið er til stjórnunarstaða í samfélaginu, í stjórnmálum og atvinnulífinu, og margar konur veigra sér við því að taka þátt í samfélagslegum umræðum á samfélagsmiðlum eða í stjórnmálum af ótta við kynbundna áreitni.
Allir íbúar Norðurlanda njóta góðs af jafnrétti því það er bæði einstaklingum og samfélaginu í heild sinni til framdráttar að öll, óháð kyni, leggi sitt af mörkum eftir bestu getu. Áframhaldandi stuðningur almennings við jafnrétti sem norrænt grunngildi er því forsenda þess að hægt verði að leysa jafnréttistengd úrlausnarefni framtíðarinnar.
Til þess að hanna góðar lausnir á úrlausnarefnum á sviði jafnréttismála í norrænu löndunum þarf að taka tillit til þátta á borð við aldur, fötlun og uppruna.
Á tímum mikilla umbreytinga og örrar tækniþróunar verða jafnrétti og jöfn réttindi að vera grundvallargildi í norrænum samfélögum. Þetta er sérlega mikilvægt með hliðsjón af aukinni stafrænni væðingu norrænna samfélaga og hraðri þróun á sviði gervigreindar sem gæti valdið miklum breytingum á norrænum vinnumörkuðum, svo dæmi sé tekið.
Ef norrænu löndin eiga áfram að vera samkeppnishæf á sviði stafrænnar væðingar og tækni verður geirinn að laða til sín fjölbreytt starfsfólk. Að sama skapi er það mikilvægt að konur hafi áhrif og aðgang að störfum í þessum vaxandi geira. Jafnframt getur geirinn ýtt undir jafnrétti og fjölbreytileika með því að gera gervigreind þannig úr garði að hún leiðrétti fyrirframgefinn kynjahalla fremur en að viðhalda honum.
Til þess að leysa áskoranir framtíðarinnar er nauðsynlegt að allir íbúar Norðurlanda dafni og búi við sem bestar forsendur til þess að leggja sitt af mörkum til samfélagsþróunarinnar. Í því felst að öll geti verið þau sjálf og hafi tilkall til virðingar og reisnar. Því miður veigrar margt hinsegin fólk sér við að lifa opið af ótta við viðbrögð umhverfisins og það verður oftar en annað fólk fyrir mismunun og hatursglæpum.