Fara í innihald

Markmið 3: Norðurlönd eiga að vera laus við kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, kynferðislega áreitni og hatur

Kynbundið ofbeldi er brot gegn friðhelgi einstaklingsins og birtingarmynd sögulegs valdaójafnvægis á milli karla og kvenna. Kynbundið ofbeldi hefur alvarlegar neikvæðar afleiðingar fyrir viðkomandi einstakling, fjölskyldu hans, önnur náin sambönd og samfélagið.
Einkum konur, en einnig karlar, verða fyrir kynbundnu ofbeldi sem getur verið líkamlegt, andlegt og efnahagslegt ofbeldi í nánu sambandi, sæmdartengt ofbeldi, stafrænt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, nauðganir og mansal og kynferðisleg misneyting. Sé ekki gripið inn í tæka tíð getur ofbeldi í nánu sambandi í versta falli leitt til makamorðs. Karlar eru miklum meirihluta gerenda bæði andlegs og líkamlegs ofbeldis gagnvart maka. Þörf er á árangursríkum aðgerðum innan lögreglu og réttarkerfisins ásamt snemmtækum fyrirbyggjandi félagslegum aðgerðum sem bæði miðast við þolendur og gerendur.
Frá árinu 2017 hefur #MeToo-hreyfingin sett mark sitt á Norðurlönd og í kjölfarið hafa öll norrænu löndin gripið til aðgerða til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi. Samt sem áður er hvort tveggja enn vandamál hvort sem horft er til einstaklinga, stofnana eða kerfisins. Einkum konur verða fyrir kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi í opinberu rými, hvort heldur er á vinnumarkaði, í skóla eða öðru opinberu umhverfi, jafnt á netinu sem í raunheimum. Til þess að geta betur komið í veg fyrir og unnið gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi verður að nálgast málið út frá þverfaglegu sjónarhorni.
Einstaklingar sem ekki falla að hefðbundnum hugmyndum um kyn, kynvitund, kyngervi og kynhneigð verða líka fyrir kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi og á þetta við um margt hinsegin fólk. Að auki upplifa mörg einnig hatur, hótanir og ofbeldi vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyngervis eða annarra kynferðistengdra þátta sem álitnir eru víkja frá viðteknum gildum. 
transly-translation-agency-KQfxVDHGCUg-unsplash.jpg
Kynbundið ofbeldi hefur alvarlegar neikvæðar afleiðingar fyrir viðkomandi einstakling, fjölskyldu hans, önnur náin sambönd og samfélagið.

Undirmarkmið 3.1: Koma skal í veg fyrir og vinna skal og berjast gegn kynbundnu, kynferðislegu og sæmdartengdu ofbeldi og kúgunum og morðum í nánu sambandi. Styðja skal við þolendur og veita gerendum aðstoð til þess að láta af ofbeldishegðun.

Undirmarkmið 3.2: Koma skal í veg fyrir og vinna skal og berjast gegn kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni.

Undirmarkmið 3.3: Koma skal í veg fyrir og vinna skal og berjast gegn hatursglæpum og hatursorðræðu í garð hinsegin fólks.