Fara í innihald

Markmið 5: Vinna skal gegn og koma skal í veg fyrir ójafnrétti þegar kemur að heilbrigði, vellíðan og lífsgæðum

Allir íbúar Norðurlanda eiga rétt á sem bestri andlegri og líkamlegri heilsu og aðgengi að heilbrigðis- og umönnunarþjónustu og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er forsenda fyrir jafnri þátttöku í samfélaginu.
Meðalaldur fer hækkandi hjá öllum kynjum á Norðurlöndum en mikill munur er á milli kynja þegar kemur að heilbrigði. Konur upplifa almennt að þær hafi lakari heilsu en karlar og einkum upplifa unga konur andlega vanlíðan. Karlar lifa skemur, fremja oftar sjálfsvíg og leita sér sjaldnar læknisaðstoðar en konur og þróa oftar með sér misnotkun af ýmsu tagi. Karlar eru oftar gerendur ofbeldis en þeir eru líka oftar þolendur tilviljanakennds ofbeldis og ofbeldis þar sem gerandi er ókunnugur. Konur eru oftar þolendur kynferðisofbeldis, kynferðislegrar áreitni og heimilisofbeldis.
Í mörgum hlutum heimsins er veist að réttinum kvenna yfir eigin líkama og öruggum fóstureyðingum. Rétturinn til að ráða yfir eigin líka og til öruggra fóstureyðinga er grundvallarskilyrði þess að ná jafnræði á milli kynjanna, hvort sem er á Norðurlöndum eða á heimsvísu.
Hinsegin fólk er einnig í viðkvæmri stöðu samanborið við aðra þjóðfélagshópa þegar litið er til heilbrigðis. Til að mynda er meira um fíkniefnaneyslu, sjálfsskaða og sjálfsvíg á meðal hinsegin fólks auk þess sem streitustig er hærra. Við það bætist að heilbrigðis- og umönnunarþjónusta miðast oft við meirihlutann.
ulf_lundin-teenager_on_a_subway-6664.jpg
Rétturinn til að ráða yfir eigin líka og til öruggra fóstureyðinga er grundvallarskilyrði þess að ná jafnræði á milli kynjanna.

Undirmarkmið 5.1: Koma skal í veg fyrir og vinna skal gegn mun á líkamlegu og andlegu heilbrigði karla og kvenna og hinsegin fólks og annarra þjóðfélagshópa.

Undirmarkmið 5.2: Koma skal til móts við kynbundin vandamál og þarfir í heilbrigðiskerfinu og breiða skal út kynjamiðaðar lausnir.

Undirmarkmið 5.3: Heilbrigðis- og umönnunar­starfsfólk á að hafa góða þekkingu á hinsegin málefnum og skilning á fjölbreytileika þegar kemur að kynvitund, kyngervi, kynhneigð og öðrum kynferðistengdum þáttum til þess að tryggja inngildandi heilbrigðisþjónustu á jafnréttisgrundvelli fyrir alla íbúa Norðurlanda.