Fara í innihald

Markmið 4: Öllum íbúum Norðurlanda á að gefast tækifæri til að móta eigið líf án þess að staðalmyndir og væntingar sem tengjast kynferði, kynvitund og kynhneigð haldi aftur af þeim

Á Norðurlöndum er frelsi allra íbúa til þess að lifa lífi sínu í samræmi við drauma sína og þrár talið mikils virði. Engu að síður hafa staðalmyndir og væntingar í tengslum við kyn neikvæð áhrif á íbúa norrænu landanna. Þessar staðalmyndir og væntingar geta til dæmis hamlað ungu fólki í að velja sér það nám og starfsvettvang sem hugur þess stendur til. Þá geta kynjaðar og staðlaðar væntingar um útlit valdið vanlíðan.
Karlar og drengir verða einnig fyrir neikvæðum áhrifum. Staðlaðar hugmyndir um karlmennsku geta til dæmis hindrað karla sem glíma við vandamál í því að leita sér aðstoðar og stuðnings og þrýstingur um að standa undir hefðbundnum hugmyndum um karlmennsku getur haft neikvæð áhrif á samband við maka og börn og valdið andlegri vanlíðan. Þrátt fyrir það hafa karlar í sögulegu samhengi verið í minnihluta og hlotið minni athygli í jafnréttisvinnunni. 
Í verstu tilvikum geta hefðbundnar staðalímyndir um kynin haft í för með sér neikvætt félagslegt taumhald og sæmdartengda kúgun sem einkum konur og stúlkur verða fyrir en einnig ungir karlmenn.
Staðlaðar kynjamyndir og væntingar hamla einnig mörgu hinsegin fólki bæði í fjölskyldulífi og í sambandi þess við opinber yfirvöld þar sem staðalímyndir um gagnkynhneigð og sískynjun hafa hamlandi áhrif og valda jaðarsetningu, t.d. með tilliti til þess að stofna fjölskyldu.
michael-tucker-ODJU84nrfh8-unsplash.jpg
Á Norðurlöndum er frelsi allra íbúa til þess að lifa lífi sínu í samræmi við drauma sína og þrár talið mikils virði.

Undirmarkmið 4.1: Vinnan að jafnréttismálum á að stuðla að breiðari skilningi á kyni, kvenleika og karlmennsku.

Undirmarkmið 4.2: Vinna skal gegn sæmdartengdu ofbeldi og kúgun og neikvæðu félagslegu taumhaldi á grundvelli staðalímynda um kyn og kynhneigð.

Undirmarkmið 4.3: Ýta skal undir breiðari skilning í samfélaginu á kynhneigð og kynvitund til þess að auðvelda hinsegin fólki þátttöku í samfélaginu, þar með talið að stofna fjölskyldu.