Norðurlönd eru komin langt í vinnunni að jafnrétti kynjanna og réttindum til handa hinsegin fólki með jafnt löggjöf sem pólitískum aðgerðum. Enn er þó langt í land áður en öll, óháð kyni, hafa sömu tækifæri til þess að hafa áhrif og móta eigið líf og taka þátt í þróun samfélagsins á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt eru enn til staðar áskoranir sem leysa verður úr áður en hinsegin fólk á Norðurlöndum nýtur sömu réttinda og tækifæri og aðrir íbúar.
Árið 2019 samþykktu norrænu forsætisráðherrarnir sameiginlega framtíðarsýn um að árið 2030 skyldu Norðurlönd vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Starfsemi Norðurlandaráðs á því að stuðla að uppfyllingu framtíðarsýnarinnar í gegnum aðgerðir á hinum þremur stefnumarkandi áherslusviðum: grænum Norðurlöndum, samkeppnishæfum Norðurlöndum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum.
Norrænt samstarf á sviði jafnréttismála og hinsegin málefna á tímabilinu 2025–2030 á einnig að stuðla að því að Norðurlönd verði grænni, samkeppnishæfari og félagslega sjálfbærari. Jafnrétti kynjanna og jöfn réttindi fyrir hinsegin fólk eru ekki aðeins á meðal helstu gilda Norðurlanda heldur einnig forsenda þess að þessi markmið náist.
Grænu umskiptin kalla á miklar samfélagslegar breytingar á Norðurlöndum. Eigi þessar breytingar að skila árangri og verða öllum Norðurlandabúum til góðs verða þær að byggjast á jafnrétti og jöfnum réttindum.
Til þess að Norðurlönd geti áfram verið samkeppnishæf verða allir Norðurlandabúar að geta lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Einungis með því að norræn menntakerfi og vinnumarkaðir byggist á jafnrétti og jöfnum réttindum hafa allir íbúar Norðurlanda jöfn tækifæri til þess að nýta hæfileika sína.
Norðurlandabúar eru ekki allir eins en til þess að Norðurlönd geti verið félagslega sjálfbær verða jafnrétti og jöfn réttindi að liggja til grundvallar vinnunni að inngildandi samfélagi sem byggist á sterkri samstöðu og sameiginlegum gildum.
Í samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnrétti og hinsegin málefni, MR-JÄM, er pólitískum áherslum og markmiðum fyrir tímabilið 2025–2030 lýst ásamt tengingu þeirra við framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2030.
Norðurlandaráð og borgarasamfélagið á Norðurlöndum komu með tillögur varðandi markmiðin í samstarfsáætluninni.
Samstarfsáætlunin er stýrandi fyrir alla starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnrétti og hinsegin málefni.
Norræna ráðherranefndin um jafnrétti og hinsegin málefni samþykkti samstarfsáætlunina þann 30. ágúst 2024 og gildir hún til 31. desember 2030.