Að mati hugveitunnar skortir sameiginlegt yfirlit yfir hæfnijafnvægi á Norðurlöndum, jafnt í dag sem til framtíðar. Við vitum að mikil vöntun verður á faglærðu fólki en við vitum ekki nógu mikið um það nákvæmlega á hvaða sviði faglært fólk mun vanta, né hvaða hæfni það þarf að búa yfir og hvaða kröfur verða um endurmenntun innan ólíkra greina.
Hugveitan telur að þörf sé á kerfi til að tryggja að mikilvægir aðilar séu upplýstir um hæfnijafnvægi innan hvers lands og á Norðurlöndum í heild til að unnt sé að grípa til nauðsynlegra ráða í tæka tíð til að tryggja vinnuafl til framtíðar.
Það er því ekki nóg að rannsaka hversu mörgum bifvélavirkjum er þörf á. Það skiptir líka máli að uppfæra þekkingu og færni þeirra bifvélavirkja sem fyrir eru með símenntun svo hún sé í takti við tímann. Stöðugt þarf að viðhalda og uppfæra slíkt yfirlit.
Í því sambandi bendir hugveitan meðal annars á rafhlöðuframleiðslu á Norðurlöndum sem gott dæmi um vandann. Til að geta haldið í við samfélagsþróunina þurfum við að framleiða nýjar vörur og við þurfum að taka tillit til virðiskeðjunnar í heild sinni, frá framleiðslu til endurnýtingar, með áherslu á hringrásarhagkerfið. Það kallar á aukinn fjölda fræðimanna en enn meiri fjölda faglærðra til að vinna að þróun nýrra vara og markaða. Í þessu tilliti er við hæfi að skoða hve vel starfsmiðað nám er í stakk búið til að takast á við þetta í dag.
