Fara í innihald

Inngangur

Samstarfsáætlun um menningarmál lýsir þeim pólitísku markmiðum og forgangsverkefnum fyrir árin 2025–2030 sem leiða eiga til aukinnar menningarlegrar sjálfbærni á Norðurlöndum.
Samstarfsáætlunin er stýrandi skjal fyrir alla starfsemi undir ráðherranefndinni um menningarmál. Ráðherranefndin um menningarmál samþykkti samstarfsáætlunina þann 26. ágúst 2024 og gildir hún til 31. desember 2030.
Samstarfsáætluninni er ætlað að stuðla að því að uppfylla framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Öll Norræna ráðherranefndin vinnur að því að uppfylla framtíðarsýnina með hinum þremur stefnumarkandi áherslum.
Frelsi í listum og menningu, frjálsir og óháðir fjölmiðlar og meginreglan um armslengd leggja grunninn að tjáningarfrelsi, þekkingarmiðlun, lýðræðisþátttöku og skoðanaskiptum. Á tímum þegar samfélagið stendur frammi fyrir miklum áskorunum er sérlega mikilvægt að standa vörð um þessi gildi. Áframhaldandi norrænt menningarsamstarf mun auka traust á meðal almennings og efla samfélagslegan viðnámsþrótt. Samstarfið stuðlar að lýðræðislegu og opnu samfélagi og myndar tengsl á milli fólks á Norðurlöndum. Norræna tungumálasamfélagið skapar félagstilfinningu og samnorræna sjálfsmynd. Með því að standa vörð um menningararfinn eflum við þekkingu á sögunni og sköpum samstöðu.
Norræn samstaða og samþætting á að byggjast á traustu norrænu samstarfi á sviði menningar- og fjölmiðlamála. Allt frá undirritun Helsingforssamningsins árið 1962 hefur menningarsamstarfið verið einn af hornsteinum starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. Í Helsingforssamningnum er kveðið á um að norrænt samstarf skuli styðja við og styrkja menningarlega þróun, stuðla að samskiptum á sviði bókmennta, lista, tónlistar, leiklistar, kvikmyndagerðar og annarra menningarsviða og nýta samstarfstækifæri á sviði útvarps og sjónvarps.
Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð, 1996, Helsingforssamningurinn, 13. gr.
Á grundvelli þessa á norrænt samstarf á menningarsviði að efla og ýta undir samskipti á milli aðila úr menningar- og fjölmiðlageiranum á Norðurlöndum, stuðla að vexti menningarlegra og skapandi greina og auknum hreyfanleika og samtali.
Styrkjakerfi og menningarstofnanir Norrænu ráðherranefndarinnar eru burðarstoðir norræns samstarfs á sviði menningarmála og gegna mikilvægu hlutverki í tengslum við Framtíðarsýn okkar 2030. Starfsemi stofnananna og framlög styrkjakerfanna skipta miklu máli í norrænu, norræn-baltnesku og alþjóðlegu menningarlífi.
Góðar menningarupplifanir, þar sem menningararfurinn er varðveittur og fær að þróast, stuðla að samstöðu, auknum lífsgæðum og vellíðan og eru því dýrmætar fyrir alla Norðurlandabúa, einkum börn og ungt fólk. Með aukinni áherslu á fjölbreytileika, inngildingu og þátttöku á menningin að eiga erindi við öll og skipta öll máli.
Tungumál og menning frumbyggja og minnihlutahópa og málréttindi og menningarleg réttindi skulu hafa sinn sess í norrænu menningarsamstarfi. Samar og aðrir minnihlutahópar athafna sig þvert á landamæri Norðurlanda. Samstarfið þvert á landamæri er mikilvægt fyrir hina norrænu samkennd.
Stefnumótun á sviði menningarmála á að grundvallast á þekkingu og vera í takt við tímann og byggjast á gögnum sem sótt eru í rannsóknir.
Stefna Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu sjálfbærrar þróunar, jafnréttis og sjónarmiða réttinda barna og málefna ungmenna er mikilvægur grunnur sem norrænar aðgerðir á sviði menningar- og fjölmiðlamála byggjast á.

36447.jpg
Öll starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á að stuðla að því að gera að veruleika framtíðarsýn okkar um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Samstarfsáætlunin lýsir því hvernig fagsviðið ætlar að vinna með stefnumarkandi áherslurnar þrjár.