Græn Norðurlönd
Listir, menning og þekking á menningararfinum hjálpa okkur að átta okkur á, skilja og takast á við loftslagsbreytingar, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og mengun í sjó og á landi. Listir og menning styðja við umskipti yfir í sjálfbærari lífsstíl. Norrænar aðgerðir á sviði menningarmála eiga að stuðla að því að fjarlægja hindranir í vegi grænna umskipta og greiða fyrir miðlun reynslu og nýjum aðferðum í þágu framsýnni og loftslagsvænni framleiðslu, miðlunar og dreifingar listar og menningar. Hinar menningarlegu og skapandi greinar gegna mikilvægu hlutverki í þessu sambandi. Kastljós menningarsamstarfsins á að beinast að viðkvæmum menningararfi í samræmi við alþjóðlega samninga.