Fara í innihald

Pólitískar áherslur

Menning og listir hafa ómetanlegt gildi og því ber að efla forsendur fyrir listum og menningu sem eiga að vera aðgengilegar öllum í samfélögum okkar. Miklar breytingar hafa átt sér stað bæði á Norðurlöndum og heiminum öllum frá því að síðasta samstarfsáætlun í menningarmálum var samþykkt árið 2020. Nýrri samstarfsáætlun er ætlað að vera liður í því að mæta sameiginlegum áskorunum og skapa samlegðaráhrif með aðgerðum þvert á fagsvið.
Norðurlönd eru í fararbroddi á heimsvísu á sviði menningarlegra og skapandi greina. Áfangaskýrsla um Framtíðarsýn okkar 2030 sýnir þó að dregið hefur úr innflutningi menningarafurða frá öðrum norrænum löndum. Norrænt samstarf mun mæta þessu með auknum hreyfanleika og kynningu á norrænum listum og menningu alþjóðlega. Samkeppnishæft, sýnilegt og skapandi menningarsamstarf á að styrkja atvinnutækifæri norrænna menningaraðila á Norðurlöndum sem og utan þeirra, stuðla að þróun og nýsköpun og vekja athygli á norrænum listamönnum og menningaraðilum á alþjóðavettvangi. Samstarf við listamenn og menningaraðila á grannsvæðum Norðurlanda, meðal annars í Eystrasaltsríkjunum, á Norðurskautssvæðinu og í Úkraínu, á að stuðla að hæfniþróun og uppbyggingu tengslaneta.
Á tímum þegar aðstæður og forsendur þeirra sem starfa við menningu og fjölmiðla breytast vegna stafrænnar þróunar, áhrifa stóru tæknifyrirtækjanna og gervigreindar eiga Norðurlönd að vinna í sameiningu að þeim áskorunum og tækifærum sem stafræn þróun hefur í för með sér. Um þessar áskoranir var meðal annars fjallað í tillögum norrænnar hugveitu um áhrif tæknirisanna á lýðræðislega umræðu. Samstarf í tæknimálum á að stuðla að því að því að Norðurlönd verði samþætt tækni- og lýðræðissvæði.
Norrænt samstarf í menningarmálum miðast við að allir hafi jöfn tækifæri til þess að taka þátt. Rannsóknir sýna að kyn, félagshagfræðileg staða, menntunarstig og landfræðileg staðsetning hafa áhrif á þátttöku í menningarlífi, einnig hjá börnum og ungu fólki.
Kulturanalys Norden, 2023, Delaktighet i kulturlivet i Norden
Lista- og menningarlíf, sem einkennist af jafnrétti, er laust við mismunun og er öllum aðgengilegt, styrkir samþættingu á Norðurlöndum.
Heimsfaraldur kórónuveiru hafði mikil áhrif á norrænt menningarlíf. Skilyrði listamanna og menningaraðila til þess að skapa, iðka og miðla list og menningu voru mjög skert.
Kulturanalys Norden, 2023, Kultursektorn efter covid-19-pandemin
Meðal annars sýna rannsóknir að tekjur fréttamiðla drógust saman á sama tíma og áhugi almennings á fréttum jókst. Einnig má sjá tengsl á milli almennrar ólgu í samtímanum og breyttra venja þegar kemur að menningu og fjölmiðlum. Þess vegna mun öflugt og þróttmikið samstarf á sviði menningar- og fjölmiðlamála gera Norðurlönd betur í stakk búin að takast á við krísur og samfélagsbreytingar.
Norræna ráðherranefndin um menningarmál hefur samþykkt markmið og undirmarkmið fyrir tímabilið 2025–2030. Hinar pólitísku áherslur vísa veginn í öllu norrænu samstarfi á sviði menningarmála. Fagsviðið mun útfæra verkefni og aðgerðir í samræmi við markmiðin.

Tero_Saarinen_Kullervo14_hi-res.jpg
Samkeppnishæft, sýnilegt og skapandi menningarsamstarf á að styrkja atvinnutækifæri norrænna menningaraðila á Norðurlöndum sem og utan þeirra, stuðla að þróun og nýsköpun og vekja athygli á norrænum listamönnum og menningaraðilum á alþjóðavettvangi.