Fara í innihald

Formáli

Samstarf norrænna ráðherra um listir, menningarmál og fjölmiðla er kjarnasvið innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Á Norðurlöndum stöndum við sterkar saman ef við störfum saman að menningarmálum þvert á landamæri. Á tímum mikilla innri og ytri breytinga á samfélögum og umheiminum kemur í ljós að frjálst og lifandi menningarlíf og frjálsir fjölmiðlar skipta höfuðmáli til að viðhalda samtakamætti, von og lífsgæðum. 
Grundvöllur samstarfs Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál liggur í sameiginlegri sögu okkar og samtali þvert á landamæri, á milli aðila í menningargeiranum, fyrirtækja og stofnana. Meginreglan um armslengd á milli stjórnmálanna og menningarlífsins er vegvísir og undirstrikar mikilvægi samnorrænna áætlana, bygginga og stofnana. Sá norræni stuðningur sem deilt er til menningarlífsins opnar meðal annars möguleika á tengslamyndun, miðlun reynslu og sameiginlegum verkum. Verkefni sem leggja áherslu á þverfaglegan virðisauka skal setja í forgang.
Samstarfsáætlunin leggur línurnar fyrir hið norræna samstarf um menningarmál fyrir tímabilið 2025–2030. Líkt og í fyrri samstarfsáætlun fyrir árin 2021–2024 er fjallað um pólitísk markmið og áherslur sem ætlað er að stuðla að aukinni menningarlegri sjálfbærni og þar með stuðla að framtíðasýn Norrænu ráðherranefndarinnar til ársins 2030 að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.
Ráðherranefndin um menningarmál mun á næstu árum leggja mikla áherslu á að viðhalda viðnámsþolnu lýðræðissamfélagi. Vinnan við inngildandi menningarlíf sem er öllum opið er sett í forgang, ekki síst til að efla börn og ungmenni og velferð þeirra. Atburðir síðustu ára hafa sýnt fram á að áframhaldandi stuðningur við frjálsa listræna tjáningu og aukinn viðbúnaður til verndar menningararfinum er svið sem krefst bæði umræðu og sameiginlegra aðgerða. Samvinnan á síðasta áætlunartímabili varðandi rangupplýsingar og áhrif tæknirisanna á lýðræðislega umræðu sem og hlutverk menningar og fjölmiðla við hin grænu umskipti hefur skilað áþreifanlegum árangri sem við getum byggt enn frekar á. Saman getum við á Norðurlöndum stuðlað að því að efla hlutverk menningarinnar á alþjóðavísu og byggt sjálfbær og viðnámsþolin samfélög.
forord_2.jpg
Parisa Liljestrand, menningarmálaráðherra Svíþjóðar og Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar
Aðilar úr menningar- og fjölmiðlageiranum á Norðurlöndum, fulltrúar borgarasamfélagsins og fræðasamfélagsins, auk Norðurlandaráðs, hafa lagt fram tillögur varðandi áskoranir og samstarfssvið innan samstarfsáætlunarinnar. Norrænu menningarstofnanirnar og samstarfsaðilar menningarsviðsins sem fá fjárveitingu frá Norrænu ráðherranefndinni hafa einnig lagt fram tillögur í ferlinu.
Parisa Liljestrand.png
Parisa Liljestrand
menningarmálaráðherra Svíþjóðar
665489ca9dd46_GS underskrift KE 2023_svart.png
Karen Ellemann
framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar