Fara í innihald
Mynd: Ari-Pekka Darth. Tim Bird. Riitta Supperi/Keksi/Team Finland.

SJÁLFBÆR NORÐURLÖND

Loftslagsbreytingar, skert líffjölbreytni og mengun eru meðal stærstu áskorana mannkyns. Norðurlönd þurfa að leysa úr málunum í sameiningu með tæknihlutlausri framleiðslu á hreinni orku, kolefnishlutleysi, líffræðilegum fjölbreytileika, öflugum vistkerfum, hringrásarhagkerfi og sjálfbærum lífhagkerfum. Norðurlönd eiga að halda alþjóðlegri forystu sinni í nýsköpunarknúnum og samkeppnishæfum hreinum umskiptum.
Umbreyting í sjálfbært hagkerfi og hagvöxt á sviði umhverfismála, sem ekki byggist á óhóflegri nýtingu náttúruauðlinda og jarðefnaeldsneytis, er möguleg fyrir sakir hreinna umskipta. Sjálfbæran hagvöxt leiðir til dæmis af aukinni áherslu á hreina orku, hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins og tæknilega og efnahagslega sjálfbærum skiptum yfir í samgöngutæki sem losa minna auk varðveislu og eflingar líffræðilegrar fjölbreytni. Orkuskiptin eru háð nýrri tækni og nýsköpun samhliða aukinni raforkuframleiðslu og -þörf. Stafvæðing, færni og rannsóknir eru veigamiklir þættir í þessu sambandi.
Í hreinum umskiptum felast veruleg tækifæri fyrir landsbyggðina ekki síður en borgir og bæi á Norðurlöndum. Landsbyggðin og afskekkt svæði geta nýtt sér þróunarmöguleika umskiptanna. Forsendur þeirra kunna að markast af landnýtingu og skipulagi héraða. Hrein orka stuðlar að endurnýjun í iðnaði og nýjum fjárfestingum sem aftur hafa ný atvinnutækifæri í för með sér. Tækifæri til umskipta eru ekki þau sömu frá einu svæði til annars sem undirstrikar mikilvægi þátta á borð við byggðajafnvægi og viðurkenningu.
Lýðfræðileg þróun skapar vanda sem bæði vaxandi þéttbýliskjarnar og svæði sem glíma við fólksfækkun standa frammi fyrir. Samt eru forsendur til að lifa góðu lífi á öllum afbrigðum svæða og ýmislegt sem laðar að.  Þar sem búseturöskun hefur átt sér stað eða á afskekktum stöðum er þörf á snjallri aðlögun og kann hún að fela í sér fráhvarf frá markmiðinu um stöðuga fjölgun íbúa. Hvarvetna er nauðsynlegt að greina og efla þætti sem eru líklegir til að auka aðdráttaraflið og bæta forsendurnar fyrir góðu lífi en það stendur þeim svæðum næst sem dragast aftur úr þróuninni.
Kolefnisumsýsla (CCUS, föngun, nýting og geymsla CO2) í iðnaði mun sennilega auka gildi sitt á næstu árum ásamt kolefnisviðtökum og -birgðum skóganna.  Styðja verður við þróun og framkvæmd lausna á sviði kolefnisumsýslu í iðnaði, þar á meðal lausna sem byggjast á losun, geymslu og nýtingu á lífrænu kolefni. Þegar Finnland gegnir formennsku verður stefnt að því að efla norræna CCUS-samstarfið og þar með upplýsingaflæðið milli stjórnvalda, rannsóknarstofnana og annarra sem málið varðar.
Búist er við að hrein og stafræn umskipti á heimsvísu auki eftirspurn eftir málmgrýti og væntir atvinnugeirinn mikils af því í framtíðinni. Það er ótvírætt styrkleiki Norðurlanda að berggrunnurinn er auðugur að steinefnum og þekking á hráefninu mikil. Námu- og auðlindageirinn á Norðurlöndum er í stakk búinn til að mæta hnattrænum áskorunum og jafnframt stuðla að almennri efnahagsþróun landanna. Tillit til umhverfissjónarmiða gerir kleift að þróa og nýta sjálfbærari aðferðir bæði innan og utan Norðurlanda.
Norðurlönd hafa til mikils að vinna með því að auka sjálfbærni, viðnámsþrótt og samkeppnishæfni í matvælaframleiðslu og lífhagkerfi. Formennskan á að hefja til vegs sjálfbæra stjórn og nýtingu lífrænna náttúruauðlinda. Samvinna á þessu sviði um að laga sig að loftslagsbreytingum og draga úr loftslagsáhrifum hefur mikla þýðingu. Aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingunum veltur að miklu leyti á þróun lífrænna atvinnuvega, landbúnaðar og skógræktar, fiskveiða og lagareldis. Á formennskutímanum verða umskipti að því er varðar orkugjafa fyrir sjávarútveginn í brennidepli. Samstarf um þróun nýrra prótíngjafa leggur grunn að samkeppnishæfri og sjálfbærri framleiðslu og eykur jafnframt viðnámsþróttinn.
Norrænt samstarf keppir að heilsusamlegri og sjálfbærri neyslu matar og drykkjar með tilliti til aðstæðna í löndunum. Meðal annars snýst það um innleiðingu norrænu næringarráðlegginganna, vandaðri upplýsingagjöf til neytenda og minni matarsóun. Þessi málefni standa í nánum tengslum við bætta sjálfbærni matvælakerfa, þ.e.a.s. umhverfislega, fjárhagslega, menningarlega og félagslega sjálfbærni, sem er þungamiðjan í þeirri viðleitni að ná markmiðunum með sjálfbærri þróun.
Þróttmikið mótstöðuafl lífhagkerfis og fæðuframboðs fær æ meira vægi í norrænu samstarfi. Samkeppnishæft lífhagkerfi sem lagar sig að breytingum á loftslaginu stuðlar enn fremur að auknu almennu öryggi í samfélaginu. Norrænu löndin geta í sameiningu fundið leiðir til að viðhalda og efla sjálfbæra landbúnaðarframleiðslu andspænis hnattrænum ógnum.
Alþjóðasamstarf um umhverfis- og loftslagsmál verður áfram keppikefli í norrænu samstarfi meðan Finnland gegnir formennsku. Áskoranir á sviði umhverfis- og loftslagsmála virða oftast ekki landamæri og verður að mæta þeim með alþjóðlegri samvinnu og raunar hnattrænum samtakamætti. Norrænu löndin sinna alþjóðlegum samningaviðræðum vel og taka virkan þátt í gerð metnaðarfullra umhverfis- og loftslagssamninga. Undanfarin ár hafa þau ekki látið sitt eftir liggja í samningum um nýtt alþjóðlegt samkomulag um plast svo að dæmi sé tekið.
Green Nordic Region - colour.svg
Norðurlönd eiga að halda alþjóðlegri forystu sinni í nýsköpunarknúnum og samkeppnishæfum hreinum umskiptum.