Norræna ráðherranefndin starfar í samræmi við sameiginlega framtíðarsýn forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Í stefnunni er lögð sérstök áhersla á þrennt: Sjálfbær Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Sjálfbær þróun, jafnréttismál og réttindi barna og ungmenna eru eins og rauður þráður í starfsemi ráðherranefndarinnar.
Sameiginleg formennska Finnlands og Álandseyja markar upphafið að úrslitaáfanga framtíðarsýnarinnar til ársins 2030. Ráðherranefndirnar hafa allar látið gera samstarfsáætlanir fyrir tímabilið 2025–2030 þar sem starfseminni eru sett markmið og undirmarkmið. Auk þess á sérhvert fagsvið að vinna afmörkuð verkefni eftir starfsáætlun sem ætlað er að tryggja að árangurinn verði eins góður og nokkur kostur er.
Á meðan við gegnum formennsku stefnum við að því að koma framtíðarsýninni í verk á skilvirkan hátt og þannig að það skili norrænu notagildi. Starfsaðferðir og aðgerðir ráðherranefndarinnar eiga að vera árangursmiðaðar og samstilltar. Ríkisstjórn Finnlands styður við breytingaferlið sem stjórnsýslan á skrifstofunni fer í gegnum og leggur til að þeir starfsmenn sem ráðnir eru á norrænum kjörum hafi vald á að minnsta kosti tveimur norrænum tungumálum í ræðu og riti og sé annað þeirra eitthvert skandinavísku málanna.
Dæmin sanna að rétt var að leggja áherslu á bæði græn og stafræn umskipti til að ná markmiðunum um rekstrarsamhæf Norðurlönd og um samvinnu í nafni sjálfbærni og jafnræðis. Formennskan stuðlar að sjálfbærri og réttlátri stafvæðingu auk skilvirkrar og öruggrar upplýsingamiðlunar milli landanna. Markmiðið er að geta betur metið áhrif á loftslag og umhverfi og ráðist í árangursríkar aðgerðir, óháð tækni, til að draga úr losun. Norðurlönd og Eystrasaltsríkin geta orðið fyrirmyndir annarra um þróun yfir í stafræn samfélög. Breytingarnar, sem stefnt er að, krefjast einbeittra aðgerða sem þjóna öruggri notkun stafrænnar tækni eins og 5–7G, gervigreindar og annarra tölvulausna og tryggir réttlátan aðgang að hinu sama, hverjar sem tæknilausnirnar kunna að vera.
Stafrænt samfélag sem byggist á hagfeldni, lýðræði og jafnfræði gerir ráð fyrir ákveðinni færni á sviði tölvutækni og kunnáttu í að nota stafræn tól og þjónustur að ógleymdum greiðum aðgangi að rafrænu þjónustuframboði og búnaði. Öryggi og viðbúnaður hvað varðar tölvutækni verður æ veigameira athugunarefni þegar stafvæðingin veldur samfélagsbreytingum. Öryggi samfélagsins er háð því að almenningur kunni vel að nýta sér stafræna tækni og að netþjónustuaðilar séu við öllu búnir.
Það á að vera auðvelt að búa, stunda nám og vinnu og reka fyrirtæki þvert á landamærin á Norðurlöndum. Á formennskuárinu munum við greiða fyrir frjálsri för og flæði á Norðurlöndum og vinna að afnámi stjórnsýsluhindrana í ráðherranefndunum og í Stjórnsýsluhindranaráðinu. Þess verður gætt að ráðið fari vel af stað á endurnýjuðum skipunartíma sínum 2025–2030. Áherslan er meðal annars á framfarir í gagnkvæmri miðlun upplýsinga úr þjóðskrá og á skattasviðinu verður áfram hugað að mögulegum endurbótum í samræmi við leiðbeiningar frá fyrra formennskuári. Hagnýtt samstarf landanna er einnig landamæranefndunum kappsmál sem gegna þýðingarmiklu hlutverki við að þróa samþætt, sjálfbær og samkeppnishæf Norðurlönd.
Norrænu löndin hafa hag af því að gera Evrópusambandið betra og skilvirkara. Unnt er að hafa jákvæð áhrif á ýmis ESB-mál fyrirfram með þátttöku í hinum og þessum bandalögum aðildarríkja sem hafa sömu afstöðu. Við viljum að Norðurlönd séu aflvaki og eigi frumkvæði að því að kynna reynslu sína, staðla og lausnir með hliðsjón af forsendum og samfélagsbyggingu samstarfslandanna. Þá getum við skapað norrænt notagildi með því að innleiða ákvarðanir ESB með sambærilegum hætti í norrænu löndunum. Það er hagur norrænu landanna að hafa sameiginlega áhrif á þessi málefni.
Finnland telur brýnt að halda áfram stuðningi við Úkraínu. Norrænu ráðherranefndinni beri áfram sem hingað til að standa við bakið á Úkraínu með aðstoð við enduruppbygginguna og markvissa þróun réttarríkis og borgarasamfélags í landinu, meðal annars á sviði menntamála, og stuðningi við þá sem hljóta tímabundna vernd.