Efnahagsleg staða og samkeppnishæfni Norðurlandaþjóðanna með tilliti til annarra þjóða ræður öllu um þróun atvinnuveganna og velferð samfélagsins. Norræn fyrirtæki eiga eins og áður að hafa bolmagn og getu til að endurnýja sig og gera sig gildandi á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Samkeppnishæfni Norðurlanda byggist á þverlægu samstarfi fagsviðanna. Norrænu löndin ættu einnig að efla samstarf sitt um aukinn útflutning.
Formennskan hyggst stuðla að samkeppnishæfni norrænna fyrirtækja með því að efla samstarf á sviðum eins og nýsköpun og sjálfbærar lausnir. Norðurlönd eiga að verða enn áhugaverðari fjárfestingarkostur að því er varðar auðlindanýtin umskipti yfir í hreina orku. Heilbrigð samkeppni á Norðurlöndum hjálpar viðskiptalífinu að endurnýja sig. Norðurlandabúar gera sér grein fyrir kostunum við opna markaði og virka samkeppni. Vinna má að virkum mörkuðum með því að benda á mikilvægi samkeppni og stefna að fyrirsjáanlegum reglum sem tryggja jafna samkeppnisstöðu og leggja ekki að ástæðulausu stein í götu þeirra sem vilja hasla sér völl eða starfa á tilteknum markaði.
Þjóðir sem búa yfir færni og þekkingu skapa forsendur fyrir sjálfbærum hagvexti og styrkja félagslegt viðnám í breytilegum heimi. Án mikillar færni og getu verður engin nýsköpun sem má telja félagslega mikilvæga og sjálfbæra. Menntakerfi á Norðurlöndum þurfa að geta skilað af sér fullnægjandi færni og fólki sem stutt getur við viðkvæmar en mikilvægar grunnstoðir samfélagsins í því skyni að viðhalda öruggu framboði af vörum og þjónustu og mæta þörfum hringrásarhagkerfisins. Þess vegna þarf að sjá til þess að framboð starfsgreinanáms og æðri menntunar sé nægilegt til að svara þeirri þörf fyrir færni og þekkingu sem slíkar grunnstoðir krefjast.
Rannsóknir gegna miklu hlutverki á Norðurlöndum. Þvervísindalegar rannsóknir sem byggjast á víðtæku samstarfi margra mismunandi greina skila hagnýtum lausnum á miklum samfélagslegum áskorunum. Starfsemi og ákvarðanir ráðherranefndarinnar ættu ávallt að byggjast á rannsóknum og þekkingu sem styðst við traustar vísindalegar niðurstöður.
Finnland og Álandseyjar munu áfram leitast við að greiða fyrir frjálsri för og flæði fólks og fyrirtækja og sporna við stjórnsýsluhindrunum sem hamla hagvexti. Norrænu löndin sem ein stafræn heild án landamæragirðinga er forsenda sjálfbærs hagvaxtar og markmiða sjálfbærra Norðurlanda. Formennskan hyggst því vinna að hindrunarlausri stafrænni einingu á Norðurlöndum. Hreyfanleiki er snar liður í að auka gæði náms og kennslu og jafnframt draga úr skorti á hæfu vinnuafli. Hreyfanleiki styrkir enn fremur samstarf á sviði lista og menningar auk þess sem hann auðveldar almennum borgurum og samtökum þeirra að hleypa verkefnum af stokkunum og riða tengslanet. Á seinni árum hefur frjáls för og flæði á Norðurlöndum sem og í Evrópu orðið takmarkaðri þannig að markmið formennskunnar þarf að vera ekkert minna en afburðagóður hreyfanleiki milli norrænu landanna.
Skipta þarf yfir í hreina orku og nota endurnýjanlega orkugjafa og er það sérstakt áherslumál Finnlands og Álandseyja á formennskuárinu. Orkuöryggi á Norðurlöndum er veigamikill þáttur í efnahagslegum stöðugleika og velferð samfélagsins. Enda þótt orkumálum sé hagað með ýmsu móti í löndunum er sameiginlegt markmið þeirra að tryggja áreiðanlegt, hagkvæmt og sjálfbært framboð á orku. Fjölbreyttar orkulindir efla viðnámsþróttinn og draga úr áhættunni á að norrænu löndin verði of háð einum orkugjafa.
Löndin eru nátengd hverju öðru þegar kemur að raforkukerfum og sameiginlegum mörkuðum. Vegna slíkra tengsla milli landanna er unnt að jafna út sveiflur í framleiðslu og eftirspurn orku, hámarka auðlindanýtinguna og bæta aðfangaöryggi og viðbúnað í sambandi við það. Áreiðanlegt og órofa orkuframboð, vernd viðkvæmra grunnstoða og varnir gegn mismunandi ógnum og röskunum byggist að miklu leyti á öruggum orkuinnviðum.
Þess vegna hefur það mikla þýðingu að treysta fullnægjandi möguleika á raforkuframleiðslu, ekki síst þegar háski er í aðsigi. Sjálfbær og lítt mengandi orkuframtíð krefst tæknilegrar framþróunar og samstarfs.
Lífhagkerfið skipar veglegan sess í umbreytingu iðnaðargeirans og opnar á mikilsverð verslunar- og viðskiptatækifæri og ný atvinnutækifæri. Á grunni norræns samstarfs og sjálfbærrar auðlindastjórnunar og -nýtingar er unnt að styrkja samkeppnishæfni Norðurlanda í samanburði við önnur svæði og gera iðngreinum kleift að nýta til fulls kosti lífhagkerfisins. Með því að ýta undir samstarfstækifæri um lífgrundaðar afurðir og finna leiðir til að virkja hringrásarhagkerfið er hægt að bæta auðlindanýtinguna og stuðla að hagvexti.
Norrænu löndin eiga að vinna saman sem eitt land að stefnumörkun og lagasmíð um lífhagkerfið auk þess að auðvelda og flýta viðurkenningu og markaðssetningu lífgrundaðra afurða. Keppa þarf að snurðulausri virðiskeðju, fullnægjandi rannsóknum og aðlögunarhæfni í iðnaði. Norrænt samstarf á einnig að ýta undir sameiginlegar rannsóknir og nýsköpun og vekja áhuga fjárfesta.
Staða heimsmálanna veldur norrænu löndunum áhyggjum sem reiða sig á opna alþjóðaverslun og fjárfestingar. Standi löndin saman geta þau beitt styrk sínum sameiginlega og vegið upp á móti veikleikum iðnaðargeirans. Formennskuríkið Finnland hyggst ráðast í rannsóknarverkefni um alþjóðlegar virðiskeðjur norræns iðnaðar á völdum sviðum mikilvægra og viðkvæmra iðngreina. Þegar um er að ræða virðiskeðjur og viðbrögð við hættum verður einnig að hafa í huga loftslagsbreytingarnar og aðlögun að þeim auk versnandi ásigkomulags umhverfisins. Berskjaldaðar virðiskeðjur iðnaðarins eiga mikið undir hringrásarhagkerfinu við að efla varnir sínar.
Samgöngukerfi framtíðarinnar eru örugg, kunnáttusamlega upp byggð og sjálfbær. Þau ná til samstarfsneta, fólks- og farmflutninga og þjónustu þeirra vegna auk upplýsingamiðlunar. Í framtíðinni á að vera unnt að flytja fólk og vörur með öruggari, sjálfbærari, umhverfisvænni, skilvirkari og hagkvæmari hætti en áður. Finnland hyggst nýta formennskutíð sína til að undirbúa stefnu fyrir samgöngukerfið með áherslu á almennt öryggi. Nauðsynlegt er að horfa heildstætt á samgöngukerfið í samstarfinu.
Finna þarf leiðir til að skipta yfir í annars konar eldsneyti fyrir samgöngutæki, sér í lagi þungaumferð, með tilliti til tæknihlutleysis. Við umskiptin þarf að standa vörð um kaupmátt almennings og samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Formennskan mun standa fyrir norrænu samstarfsverkefni þar sem rannsaka á aðra kosti til að knýja þung farartæki en hefðbundið eldsneyti.
Norrænt samstarf um betrumbætur á samgöngum og skipulagi þeirra auk samskiptakerfa að ógleymdri skipulagningu og uppbyggingu á sviði varnarviðbúnaðar getur haft úrslitaþýðingu. Aðfangaöryggi ásamt undirbúningi að þróun stafrænna og hlutrænna tenginga og þjónustuframboðs verður seint ofmetið. Sama á við um samstarf og auðkenningu gagnkvæms hæðis milli sviða. Vernda þarf mikilvæga innviði svo að markaðir og almenningur verði fyrir sem minnstri röskun, hvað sem á dynur.
Siglingar og hafnir hafa úrslitaþýðingu fyrir flutninga tengda utanríkisviðskiptum norrænu landanna og aðfangaöryggið. Til dæmis fóru löndin ekki varhluta af ástandinu á Rauðahafinu 2024 og áhrif þess á alþjóðasiglingar, stækkun svokallaðs skuggaflota og stöðunni í Eystrasalti. Opnar flutningaleiðir eru lífæð norræns atvinnulífs og þar með samkeppnishæfni alls samfélagsins. Norðurlönd gæta því heildarhagsmuna sinna með því að hafa öruggar vetrarsiglingar og ísstyrkt skip í huga þegar reglur eru settar um losun frá skipum.
Hvað snertir norrænt samstarf um ferðaþjónustu mun Finnland ásamt Álandseyjum hrinda í framkvæmd samstarfsáætlun um ferðaþjónustu sem var samin 2024 og kortleggja fjárfestingarmöguleika í samstarfi við norræna starfshópinn um ferðaþjónustu, Norrænu nýsköpunarmiðstöðina og skrifstofu ráðherranefndarinnar.
Þátttaka í heimssýningunni Osaka Expo 2025 þar sem verður sameiginlegur norrænn skáli er gott dæmi um milliríkjasamstarf og upplagt tækifæri til þess að auglýsa á alþjóðavísu samkeppnishæfni Norðurlanda, norrænu löndin sem sameiginlegan fjárfestingamarkað og norræn gildi, menningu, nýsköpun og sjálfbæra þróun.
Menningarsamstarf norrænu landanna sameinar íbúana þvert á landamæri og hefur mikið að segja um velferð fólks og samfélagsþátttöku. Skapandi greinar og menningarlífið eru ekki alllítil lyftistöng fyrir samkeppnishæfni Norðurlanda og alþjóðlegt aðdráttarafl. Lista- og menningargeirinn á að fá aukinn styrk til að mæta samfélagsáskorunum.