Áætlun þessi fjallar um áherslumál okkar og sameiginleg markmið fyrir formennskuárið 2025. Formennska Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni ásamt Álandseyjum lýsir einlægum áhuga okkar á norrænu samstarfi. Auk þess er hún hlekkur í þeirri keðju sem norrænu löndin mynda þegar þau taka við formennskukeflinu hvert af öðru.
Samningsbundið samstarf norrænu ríkisstjórnanna leiðir til margs konar hagræðis fyrir Norðurlandabúa. Samstarfið eins og það er nú er engan veginn sjálfgefið heldur er það árangurinn af áratugalangri sögulegri atburðarás þar sem Norræna ráðherranefndin, sem var sett á fót árið 1971, gegnir lykilhlutverki. Um þessar mundir er brýnt að við varðveitum og þróum þessa dýrmætu hefð samstarfs og samvinnu sem grundvallast á gagnkvæmu trausti.
Á undanförnum árum hefur mikilvægi norræns samstarfs aukist enn og þarf að vekja athygli á raunverulegum árangri þess í opinberri umræðu á Norðurlöndum. Hvernig og hversu ört sem veröldin veltist verða norrænu löndin sameiginlega að finna sjálfbær svör við aðsteðjandi vanda og ávallt mæla fyrir norrænum sjónarmiðum, ekki síst á alþjóðavettvangi. Sameinuð stöndum við sterkar að vígi.