Fara í innihald
Mynd: Harri Tarvainen/Visit Finland. Business Finland. Eeva Anundi/ Business Finland.

ÁHERSLA Á SAMFÉLAGSÖRYGGI OG Á BÖRN OG UNGMENNI

Finnland hyggst hafa vakandi auga á samfélagsöryggi, þar með talið viðbúnaði á viðsjárverðum tímum, viðnámsþrótti og málefnum barna og ungmenna.
Á formennskuárinu vekjum við athygli á þörfinni á að efla viðnámsþrótt Norðurlanda og stuðla að altækum og umfangsmiklum viðbúnaði við háska af ýmsum toga og fjölþátta ógnum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland skulu fá tækifæri til að taka þátt í þessari vinnu Norðurlandaþjóðirnar þurfa markvisst að þjálfa sig í að vera þrautgóðar og snarráðar á raunastund og efla allsherjarvarnir í sameiningu án þess að undanskilja neitt málefnasvið. Norrænt samstarf ríkisstjórnanna innan mismunandi ráðherranefnda er tilvalinn vettvangur fyrir þetta framtak. Norðurlönd eiga að standa sterk meðal Evrópuríkja og geta brugðist fljótt og vel við hættum á borð við náttúruhamfarir, farsóttir og skipulagða brotastarfsemi. Á vettvangi Evrópusambandsins vinna Finnar að framgangi tillögu sinnar um að móta stefnu að viðbúnaðarbandalagi.
Í síbreytilegu umhverfi er mikilvægt að stjórnvöld tryggi hnökralausa samfellu í grunnvirkni samfélagsins, bregðist við röskun af völdum netógna og treysti aðfangaöryggið sem og viðbúnaðinn ef neyðarástand skapast. Hvert norrænt land fyrir sig hefur gert áætlanir um samstarf innanlands sem felur í sér að viðkomandi aðilar greini og skiptist á upplýsingum um öryggismál og skipuleggi, æfi og vinni saman. Kórónuveirufaraldurinn sýndi svo að ekki verður um villst að öll svið samfélagsins verði að starfa saman þegar vá kveður að dyrum, meðal annars til að treysta mótstöðuafl almennings, samfélagsþátttöku og endurreisn eða bata. Seigla samfélagsins í Finnlandi til að þola mótlæti byggist á viðbraðgsáætlun um almennt öryggi, þ.e. getunni til að standa vörð um lífsnauðsynlegar grunnstoðir hvað sem á dynur en það krefst þess að stjórnvöld geti unnið saman án vandræða. Finnar eru reiðubúnir að deila með öðrum þjóðum þekkingu sinni og lærdómi um almenn öryggis- og varnarmál.
Bæta þarf norrænu samstarfi við þessar innlendu aðgerðir. Á formennskutímanum er ætlunin að efla viðbúnað og viðnám á öllum starfssviðum ráðherranefndarinnar, hvort sem um er að ræða hæfniþróun, grundvallarkannanir, rannsóknir eða skref í átt að sameiginlegum viðbúnaði, til dæmis áhættumati. Finnland leggur áherslu á mikilvægi þess að fá skýra heildarmynd svo að efla megi viðbúnaðinn og þróa samstarfið áfram. Starfsemin í Norrænu ráðherranefndinni á þátt í að gera Norðurlönd eins öflug, viðbúin og viðnámsþolin og kostur er.
_børn.png
Undir formennsku Finnlands og Álandseyja verður sértök áhersla lögð á samfélagsöryggi, aukinn varnarviðbúnað og viðnámsþrótt og málefni barna og ungmenna.

NORRÆNA SAMSTARFIÐ Samfélagsöryggi, þar á meðal stríðsviðbúnaður og seigla; Grunnstoðir

Billede1.jpg
Traust er nauðsynlegt til að leysa vandamál og koma í veg fyrir þau. Menntun og menningarframboð eykur þekkingu og færni í að búa í breytilegu samfélagi. Velferð fólks, heilbrigði þess og atorka, forvarnir gegn jaðarsetningu og samfélag sem heldur í heiðri lýðræðis- og jafnræðisreglur stuðlar allt að félagslegum stöðugleika og réttlætiskennd. Störf fyrir almannasamtök, kirkjur og önnur trúfélög eða félagsskap af öðrum toga mótar félagslegar viðmiðunarreglur sem mynda traust og leiða til réttláts samfélags fyrir alla.
Aðfangaöryggið myndar grunn að almennu öryggi samfélagsins. Finnland hyggst efla samstarfið um norrænan viðbúnað og aðfangaöryggi. Fæðuöryggið og traust orkuframboð er snar þáttur í aðfangaörygginu. Finnland mun taka þátt í myndun norræns tengslanets um aðfangaöryggi. Til að byrja með þyrfti tengslanetið að ákveða hvers konar viðbúnað og hvaða málaflokka á sviði aðfangaöryggis í norrænu löndunum væri heppilegt væri að taka upp í norrænt samstarf og því til viðbótar að semja framkvæmdaáætlun.
Finnland hyggst ásamt Álandseyjum leggja áherslu á réttindi barna og ungmenna, velferð og inngildingu á Norðurlöndum. Fylgja ber eftir verkefnum ráðherranefndarinnar í þágu barna og ungmenna með kerfisbundnum hætti.  Réttindi barna á að vernda með því að hafa það sem þeim er fyrir bestu í öndvegi en í því felst einnig að börn og ungmenni fái aukna hlutdeild í samfélaginu. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem er leiðarljós í starfsemi ráðherranefndarinnar, er með eindæmum ýtarlegur, yfirgripsmikill og nákvæmur. Börn eiga heimtingu á þeirri vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og af því leiðir að fullorðnu fólki ber annars vegar að tryggja að réttindi barna séu innleidd í raun og veru og hins vegar að réttindin séu ekki virt að vettugi.