Vinnunni við framkvæmd framtíðarsýnarinnar til 2030 og stefnumarkandi áherslur hennar þrjár verður haldið áfram undir formennsku Finnlands og Álandseyja í Norrænu ráðherranefndinni árið 2025. Pólitískar áherslur hafa nú verið ákveðnar í samstarfsáætlunum allra fagsviðanna. Á árinu verður að komast gott skrið á starfið með endamarkið 2030 í huga.
Undanfarin ár hafa orðið grundvallarbreytingar á samfélögum okkar og í öryggismálum á svæðinu. Þær áskoranir sem loftslagsbreytingar og minnkaður líffræðilegur fjölbreytileiki hafa í för með sér eru sérstaklega veigamiklar. Við vitum ekki hvenær næsti heimsfaraldur skellur á. Undirróðurstarfsemi verður sífellt algengari.
Norrænu löndin skera sig úr í alþjóðlegum samanburði sem samfélög jafnréttis og inngildingar. Ríkt fjölmiðlafrelsi og tjáningarfrelsi í löndunum okkar, ásamt fjölmiðlalæsi íbúanna og traustu réttarríki, merkir að forsendur eru góðar til þess að standast utanaðkomandi áhrif. Innan Norrænu ráðherranefndarinnar er starfandi mörg fagsvið og því er hún vel til þess fallin að vinna að almannavörnum og almennu öryggi. Finnland og Álandseyjar vilja á formennskuárinu stuðla að því að Norðurlönd í heild séu eins vel undirbúin fyrir möguleg áföll og mögulegt er.
Við munum vekja athygli á áherslu Norrænu ráðherranefndarinnar á þemað „Börn og ungmenni“ og vonumst til að þátttakan verði einnig mikil og marghliða í framtíðinni.
Undirbúningsstigi fyrir endurnýjun vinnunnar gegn stjórnsýsluhindrunum er nú lokið og nú er komið að því að vinna áfram af krafti, bæði innanlands og á norrænum vettvangi, að því að auðvelt sé að búa, læra, starfa og reka fyrirtæki í öðru norrænu landi.
Samstarfið á milli grannsvæðanna eykst stöðugt. Það er ánægulegt að Eystrasaltsríkin taka sífellt meiri þátt í norræna samstarfinu. Um leið heldur alþjóðlegt kynningarstarf áfram, sérstaklega með sameiginlegum verkefnum sendiráðanna víða um heim.
Drifkrafturinn hefur sjaldan verið meiri í norræna samstarfinu. Þetta á ekki aðeins við um hin hefðbundnu stóru samstarfssvið menningar og menntunar, heldur víðara samhengi. Viljinn til að gera meira hefur dreifst yfir á öll svið. Um leið er mikilvægt að taka ekki norræna samstarfinu sem sjálfsögðu. Formennskan vill sjá kröftugra og metnaðarfyllra samstarf sem skapar norrænar lausnir, nýja þekkingu sem eftirspurn er eftir og vettvang fyrir norræna samlegð. Norrænt notagildi og norrænn virðisauki eiga að nýtast okkur öllum. Norðurlöndin okkar eru sameinuð og sterk, og opin okkur öllum.
Árið 2025 göngum við inn í síðasta og mikilvægasta framkvæmdarhluta fyrir framtíðarsýnina 2030. Öll norræna fjölskyldan vinnur að sama markmiði. Með einbeittu og markvissu samstarfi náum við árangri og getum unnið að forgangsverkefnum okkar.
Norræn samstarfskveðja!