Fara í innihald

Formáli forsætisráðherra og landstjóra

Við á Norðurlöndum erum tengd sögulegum, menningarlegum og efnahagslegum böndum. Við deilum sameiginlegu gildismati byggðu á lýðræði, jafnrétti, virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarreglum réttarríkisins. Við stöndum vörð um heimsskipan sem byggist á reglum. Grundvöllur hins norræna samstarfs eru náin tengsl íbúa okkar, bein samskipti milli samfélagsþegna og virk almannasamtök. Með framtíðarsýn forsætisráðherranna fyrir árið 2030 að leiðarljósi munu ríkisstjórn Finnlands og landstjórn Álandseyja stýra starfinu í Norrænu ráðherranefndinni í átt að því að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.
Norrænt samstarf er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr. Óvægið árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu brýtur gróflega gegn þjóðarétti. Það hefur valdið úkraínsku þjóðinni miklum þjáningum og ógnar öryggi Evrópu og heimsins alls. Norrænu löndin styðja Úkraínu á marga vegu. Með áframhaldandi samstarfi aukum við samfélagsöryggi á Norðurlöndum, meðal annars viðbúnað og viðnámsþrótt. Einnig eru margar aðrar áskoranir og erfiðleikar sem við undirbúum okkur í sameiningu fyrir að mæta eins vel og hægt er.
Í réttlátu samfélagi án aðgreiningar er ráðist gegn mismunun og ójafnræði. Á Norðurlöndum byggjum við samfélagið þannig upp að allir geti tekið þátt.
Norðurlandabúar gera sér grein fyrir kostum opinna markaða og virkrar samkeppni. Efnahagsleg staða og samkeppnishæfni Norðurlandaþjóðanna á heimsvísu ræður öllu um þróun atvinnuveganna og velferð samfélagsins. Á formennskuárinu munum við stuðla að samkeppnishæfni með því að efla samstarfið hvað varðar til dæmis nýsköpun og sjálfbærar lausnir. Stafvæðing og hágæðamenntun gegna lykilhlutverki við sköpun samkeppnisfærs efnahags sem stendur styrkum fótum í hnattvæddum heimi.
Staðan í heimsmálunum krefst aukinna aðgerða, einnig í norrænu löndunum. Efla þarf norrænt samstarfi til að auka viðbúnað enn frekar. Meiri áræðni þarf á Norðurlöndum og í Evrópu til að efla samkeppnishæfni okkar til muna. Við þurfum markvissar aðgerðir til að standa vörð um það traust sem hefur verið ein af undirstöðum farsældar og velferðar á Norðurlöndum. Saman getum við tekið stór skref fram á við.   
Finnland og Álandseyjar leiða starfið í Norrænu ráðherranefndinni í sameiningu árið 2025. Finnland er auk þess formennskuríki N5-samstarfs utanríkisráðherranna og Nordefco-samstarfs varnarmálaráðherranna. Á árinu verðum við einnig í formennsku Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (OSSE). Nú er mikilvægara en lengi áður að auka norrænt samstarf á breiðum grundvelli.   
Við hlökkum til að eiga frjótt samstarf á formennskuárinu til að byggja upp okkar sameiginlegu Norðurlönd.
Prime Minister Petteri Orpo
Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands og Katrin Sjögren, landstjóri Álandseyja. Mynd: Lauri Heikkinen