Fara í innihald
Mynd: Maija Astikainen/Helsinki Marketing. Mikael Ahlfors/Keksi/Team Finland.

FÉLAGSLEGA SJÁLFBÆR NORÐURLÖND

Norrænu velferðarsamfélögin hafa í miklum mæli byggst á trausti en þróunin upp á síðkastið sýnir að ýmis spjót standa á norræna velferðarlíkaninu og félagslegri samstöðu.
Félagslega sjálfbært samfélag býr öllum íbúum sínum jafna möguleika á góðu lífi og stendur jafnframt vörð um umhverfið og auðlindirnar fyrir ófæddar kynslóðir. Í réttlátu samfélagi án aðgreiningar er ráðist af alefli gegn mismunun og ójafnræði. Heilsusamlegri og sjálfbærari matvælaneysla stuðlar einnig að bættri lýðheilsu. Ör þróun gervigreindar og hagnýting hennar felur í sér ný tækifæri fyrir alla þjóðfélagshópa, einkum þó ungt fólk. Um leið verða til áhættur eins og netógnir og útilokun ákveðinna hópa frá tækifærum sem ný tækni hefur í för með sér. Á formennskutímanum á einnig að ræða aukinn einbeitingarskort og kvíðaeinkenni barna og ungmenna í tengslum við sífellt meiri notkun stafrænna tækja.
Traust á réttarríki, lýðræði og jafnrétti er einn af hornsteinum norræns samfélags sem verður að efla og varðveita. Sterk félagsleg samstaða stuðlar að öryggi og stuðningi fyrir einstaklinga og hópa. Í slíku samfélagi er vellíðan meiri og sömuleiðis seigla gagnvart mótlæti og áskorunum.
Hvað snertir forvarnir og baráttu gegn afbrotum ungmenna og gengja og aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi þvert á landamæri hyggst formennskan einbeita sér að nánu samstarfi og gagnkvæmu upplýsingaflæði, þar á meðal um reynslu landanna. Áfram verður leitast við að upplýsa brotastarfsemi og hvaðeina sem kemur henni til leiðar og munu viðræður fara fram um frekari þróun samstarfs í fangelsismálum.
Formennskunni er enn fremur ætlað að efla mótstöðuafl lýðræðisins. Margradda samfélagi og lýðræðislegri framþróun er nauðsyn á að fólk á öllum aldri hafi tækifæri til að láta að sér kveða og taka þátt. Baráttan gegn spillingu, mikið traust og efnahagslegur stöðugleiki á Norðurlöndum rennir styrkum stoðum undir réttarríkið um leið og það bælir niður skipulagða brotastarfsemi. Af þessum sökum ættu norrænu löndin að nýta formennskuárið til að skilgreina baráttuaðferðir gegn spillingu og skiptast á upplýsingum um hyggilegt verklag.
Hærra þekkingar- og menntastig hefur áhrif á félagslega velferð. Rannsóknir seinni ára sýna að frammistaða nemenda dalar á Norðurlöndum. Kunnáttu í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum hrakar og munur á nemendahópum eykst. Á formennskutímanum viljum við efla norrænt samstarf um að leita orsakanna fyrir lakari frammistöðu á Norðurlöndum og finna leiðir til að snúa þróuninni við.
Stafvæðing og gervigreind geta haft áhrif á lykilaðila og ferla í lýðræðislegum samfélögum en einnig stuðlað að endurnýjun þeirra. Formennskan mun beina sjónum sínum að fjölmiðlalæsi og lýðræðisuppeldi. Fölskum eða villandi upplýsingum er vísvitandi beint gegn samfélaginu og lýðræðinu. Gott fjölmiðlalæsi og hæfileiki til að bera kennsl á upplýsingaóreiðu gerir fólk á öllum aldri hæfara til samfélagsþátttöku og eykur þar með viðnámsþróttinn.
Formennska Finnlands og Álandseyja hyggst efla norrænt samstarf um fötlunarmál og samþættingu þeirra. Markmiðið er að styrkja þekkingargrunninn og vekja fólk til vitundar um réttindi fatlaðs fólks og stuðla þannig að framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á mismunandi sviðum og á mismunandi stigum.
Stafræn umskipti og viðbúnaður eru mikilvæg málefni í umræðunni um réttindi fatlaðra. Séu réttindi fatlaðs fólks virt á þessum sviðum er jafnframt stuðlað að félagslega sjálfbærum Norðurlönd þar sem enginn lendir utangarðs. Samstarfið að fötlunarmálum verður enn fremur til þess að norræn vídd kemur inn í pólitískar umræður um fötlunarmál á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Þar að auki á norrænt samstarf um fötlunarmál árið 2025 að snúast um mannréttindi með skírskotun til margra mismunandi þátta, það er að segja hvernig breytur á borð við aldur og kyn hafa áhrif á stöðu fatlaðra.
Norðurlönd eru í forystu á heimsvísu þegar kemur að jafnrétti en enn er margt ógert. Á formennskuárinu verða jafnréttismál, jöfn laun, kynbundið ofbeldi og velferð þeirra sem tilheyra jaðarkynverundarhópum og kynferðislegum minnihlutahópum ofarlega á dagskrá. Finnland fylgir langtímastefnu í mannréttindamálum og beitir sér fyrir og ver réttindi kvenna, stúlkna, fatlaðra, frumbyggja, jaðarkynverundarhópa og kynferðislegra minnihlutahópa auk annarra hópa í viðkvæmri stöðu.
Á árinu 2025 verða 30 ár liðin frá því að Pekingsáttmálinn var samþykktur og sömuleiðis framkvæmdaáætlun á grunni hans en þetta eru meðal mikilvægustu skjalanna í alþjóðasamstarfi um jafnréttismál.  Á formennskuárinu verður þýðing framkvæmdaáætlunarinnar frá norrænu sjónarhorni rannsökuð og reynt að greina hvaða verkefni í henni á eftir að vinna.
Menningarlegur fjölbreytileiki, inngilding og jafnræði eru grundvallargildi norrænna þjóða. Til að mæta megi áskorunum framtíðarinnar er mikilvægt að öllum Norðurlandabúum, óháð aldri, kyni, kynhneigð, skoðun, hugsanlegri fötlun, tungumáli eða uppruna, líði vel og njóti bestu mögulegu forsendna til að taka þátt í menningarlífi og samfélagsþróun á Norðurlöndum.
Á formennskuárinu munum við athuga í sameiningu hvernig unnt er að styðja við menningu og tungumál á Norðurlöndum í sinni margvíslegu mynd, auka þátttöku og inngildingu sem og jafnrétti í menningarlífinu og tryggja gott og uppbyggilegt samstarf í framtíðinni. Jafnframt vilja Finnland og Álandseyjar að fram fari kröftugri umræður um aukinn hreyfanleika og miðlun á reynslu milli menningarlegra og listrænna aðila á Norðurlöndum annars vegar og aðila frá norðurslóðum, Eystrasaltsríkjunum og öðrum grannsvæðum hins vegar.
Finnland styður sem fyrr upplýsingaskipti um reynslu á sviði viðbúnaðar og leitar samnorrænna lausna á helstu áskorunum menningarsviðsins, einkum hvað varðar breytingar á rekstrarumhverfi, formi og uppbyggingu lista- og menningargeirans og fjármögnunarhorfur. Þá ber hátt áhrif nýrrar tækni á norræna stefnumótun í menningarmálum, þar á meðal hagnýtingu verka og samískrar menningar í innlögn nýskapandi gervigreindar.
Aðgerðum gegn misnotkun á vinnumarkaði er ætlað að tryggja að lágmarkskröfur í ráðningarsambandi séu uppfylltar og öðrum skuldbindingum fylgt fram, óháð bakgrunni launamanna. Um leið verður reynt að sjá til þess að samkeppni fyrirtækja sé réttlát og að allir hlíti sömu reglum. Formennskan tekur upp þráðinn í þessu efni með því að hvetja til ráðstafana sem eiga að koma í veg fyrir misnotkun á vinnumarkaði, einkum hvað snertir samstarf mismunandi stjórnvalda.
Sálfélagslegt vinnuumhverfi er mikilvægt viðfangsefni norræns vinnumarkaðar og einn af meginþáttum vinnueftirlits. Sífelldar breytingar eru krefjandi fyrir atvinnugreinarnar en gott starfsumhverfi grundvöllur sjálfbærs atvinnulífs. Sálfélagslegt vinnuumhverfi skipar stöðugt stærri sess í atvinnulífinu vegna breytinga sem verða á starfs- og rekstrarumhverfinu og vitsmunalegra krafna vinnunnar. Mjög margir Norðurlandabúa telja að andleg vanlíðan hafi dregið úr starfsgetu þeirra. Geðræn vandamál eru orðin venjuleg ástæða skertrar starfsgetu hvarvetna á Norðurlöndum.
Til að ná markmiðunum um gott vinnuumhverfi er nauðsynlegt að fyrirbyggja og bregðast við sálfélagslegum áhættuþáttum á vinnustað. Með forvirkum aðgerðum í sálfélagslegu vinnuumhverfi má hafa áhrif á þrek starfsfólks til vinnu og athafna, líðan þess og möguleika á að halda áfram í starfi. Málefnið er einnig ofarlega á baugi á vettvangi ESB og eitt af stoðum félagslegra réttinda.
Tungumál sameinar fólk í samfélag og eflir traust, lýðræði og þátttöku. Norrænt málsamfélag styrkir norræna sjálfsmynd og á því þátt í að gera Norðurlönd að samþættasta svæði heims. Á formennskuárinu verður fylgt úr hlaði nýrri yfirlýsingu um norræna málstefnu sem mennta- og menningarmálaráðherrarnir samþykktu árið 2024. Á grunni hennar vill formennskan standa að fyrirhyggjusamri og árangursríkri norrænni málstefnu sem tekur breytingum í takt við tíðarandann, meðal annars vegna þróunar stafrænnar tækni, gervigreindar og alþjóðavæðingar.
Socialt Norden.png
Félagslega sjálfbært samfélag býr öllum íbúum sínum jafna möguleika á góðu lífi og stendur jafnframt vörð um umhverfið og auðlindirnar fyrir ófæddar kynslóðir.