Fara í innihald

Pólitískar áherslur

Pólitískar áherslur samstarfsáætlunarinnar eru byggðar á sameiginlegum áskorunum Norðurlanda og þeim þáttum þar sem norrænu löndin geta í sameiningu komið með lausnir og skapað norrænan virðisauka.  
Forsendur til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir eru góðar á Norðurlöndum. Í norrænu löndunum er hátt menntunarstig og gott framboð á leikskólum, skólum og námi. Löndin fjárfesta háu hlutfalli af vergri landsframleiðslu í rannsóknum og menntamálum og á Norðurlöndum eru æðri menntastofnanir sem gera vel á alþjóðlegum samanburðarlistum og almennt ríkir gott traust í garð rannsókna og þekkingar. Öll norrænu löndin eru virkir þátttakendur í evrópsku rannsóknasamstarfi, búa yfir öflugu fagumhverfi á heimsmælikvarða og skora hátt þegar kemur að nýsköpun. Á Norðurlöndum er ríkuleg tungumálafjölbreytni og samnorrænn tungumálaskilningur veitir Norðurlöndum samkeppnisforskot í samanburði við önnur svæði.  
Á sama tíma verður að taka tillit til ýmissa sjónarmiða þegar kemur að menntun og rannsóknum. Annars vegar er það hlutverk menntunar og rannsókna að ýta undir virði þekkingar, kunnáttu einstaklinga, skoðanamyndun og félagsmótun. Á hinn bóginn er menntun í auknum mæli ætlað að koma til móts við þarfir samfélagsins þegar kemur að hæfu vinnuafli, eiga erindi við samfélagið og nýtast til þess að finna lausnir við þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni.  
Heildarmyndin er því flókin og undirstrikar þörfina á menntun og þekkingu og kallar á nýja hugsun. Almennt er gæðastig menntunar í norrænu löndunum hátt og yfir meðaltalinu í Evrópusambandinu miðað við alþjóðlegar rannsóknir á grunnfærni. Bæði tölfræði og alþjóðlegar rannsóknir sýna þó að grunnfærni er á niðurleið á Norðurlöndum og utanaðkomandi þættir á borð við félagslegan, tungumála- og menningarlegan bakgrunn og samfélagsmiðla hafa í vaxandi mæli áhrif á menntun. Greina má mun á milli stúlkna og drengja þegar kemur að námsárangri, samsömun (tilhørighet) í skólanum og námsvali og hefur þróunarmynstrið verið í átt til aukins félagslegs ójöfnuðar, aukinnar vanlíðunar, skólaforðunar og brottfalls barna og ungmenna. Börnum og ungmennum í viðkvæmri stöðu með fjölþættan vanda fer fjölgandi á Norðurlöndum.  
Ný tækni og stafræn þróun setur einnig mark sitt í auknum mæli á mennta- og rannsóknakerfið. Afleiðingar þessa eru óljósar en einnig geta falist í þessu tækifæri. Stafræn tækni, þar með talin gervigreind, getur haft áhrif á lykilaðila og ferli lýðræðisins en einnig stuðlað að nýjungum og nýsköpun. Mikil þörf mun verða á því að setja nauðsynlega ramma og finna út að hve miklu leyti tæknin verður notuð í mennta- og rannsóknakerfinu. 
Atvinnulíf framtíðarinnar mun einkennast af grænum umskiptum og stafrænni þróun, nýjum starfsgreinum og starfsaðferðum.  Menntun mun því áfram vera mikilvæg, bæði þegar kemur að því að uppfæra færni íbúa og að fá fleiri til þess að taka þátt í atvinnulífinu. Á Norðurlöndum er þó of mikil kynjaskipting bæði í menntakerfinu og á vinnumarkaði og auknar áskoranir tengjast því að margir lenda utan við menntakerfið og vinnumarkaðinn ásamt því að brottfall eykst, einkum í iðngreinum. Jafnvel þótt hlutfall ungs fólks sem ekki lýkur námi eða kemst út á vinnumarkaðinn sé lægra á Norðurlöndum en að meðaltali í OECD nær allt of stór hluti fólks ekki að fullnýta hæfileika sína. Spár benda jafnframt til þess að Norðurlönd muni standa frammi fyrir miklum áskorunum þegar kemur að því að manna þær starfsstéttir sem þörf verður á í framtíðinni, svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk, fólk með tölvukunnáttu og verkfræðinga. Það mun þýða að starfsstéttir sem nauðsynlegar eru til þess að halda uppi velferðarstiginu og tryggja þau umskipti sem við þurfum verða of fáliðaðar.  
Rannsóknir verða sífellt mikilvægari hluti af samfélagsþróuninni og eru lykillinn að því að vel takist til við nýsköpun, grænu umskiptin og stafræna þróun. Öflugt fagumhverfi er í norrænu löndunum og græn umskipti, málefni hafsins, velferðar- og heilbrigðismál og málefni norðurslóða eru allt dæmi um mikilvæg málefni sem norrænu löndin vinna nú þegar saman að. Um leið er mikil samkeppni um fjárveitingar til rannsókna enda um marga rannsóknaraðila að ræða. Geópólitísk togstreita eykur þörfina á þekkingu og kunnáttu um alþjóðlegt þekkingarsamstarf. Talnagögn sýna einnig fram á önnur úrlausnarefni á borð við skort á starfsöryggi þeirra sem leggja stund á rannsóknir og kynjaskiptingu innan fræðasamfélagsins. 
Norrænt samstarf á sviði menntamála, rannsókna og tungumála skiptir sköpum til þess að við getum byggt upp lýðræðisleg og viðnámsþolin samfélög sem einkennast af þekkingu, samstöðu og gagnkvæmu trausti og til þess að Norðurlönd geti eftir sem áður verið eitt af samþættustu svæðum heims.
Eitt af því sem skapar norrænu samstarfi sérstöðu er hinn sameiginlegi skandinavíski tungumálaskilningur. Sterk tengsl eru á milli tungumálanna og menningar og hefða og þau leika mikilvægt hlutverk í sjálfsmyndarsköpun. Rannsóknir sýna að þó skandinavískur tungumálaskilningur er misjafn eða á niðurleið og að norrænu tungumálin eiga undir högg að sækja, m.a. vegna alþjóðavæðingar og fólksflutninga og mikillar þróunar á sviði stafrænnar þróunar, m.a. vexti gervigreindar. Þetta er áskorun en felur jafnframt í sér tækifæri til þess að efla sameiginlegan áhuga og þekkingu á norrænni stefnumótun í tengslum við tungumál til ársins 2030. Tungumál frumbyggja og önnur mál með eigin sögu og stöðu auðga tungumálafjölbreytni á Norðurlöndum. Saman skipta tungumálin sköpum, bæði þegar kemur að því að efla sjálfsmynd og hreyfanleika og sem eitt mikilvægasta tækið við samþættingu norrænu landanna.
Áskoranir af þessu tagi einskorðast ekki við Norðurlönd. Norrænu löndin eiga hins vegar margt sameiginlegt og búa að áralangri og sterkri hefð fyrir samvinnu. Þess vegna hentar samstarfið innan Norrænu ráðherranefndarinnar sérlega vel til þess að miðla reynslu og finna sameiginlegar lausnir á flóknum vandamálum með árangursríkari hætti en hægt er á öðrum alþjóðlegum vettvangi. Það gefur Norðurlöndum einnig tækifæri til að verða pólitískt og faglegt forystusvæði.

Markmið og undirmarkmið

Ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir hefur samþykkt markmið og undirmarkmið fyrir starfið á tímabilinu 2025–2030. Pólitísku áherslurnar setja ramma utan um aðgerðir innan þessa málaflokks í norrænu samstarfi. Þetta felur í sér að markmiðin eru lögð til grundvallar verkefnum sem sviðið hrindir af stað.