Samstarfið innan ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir, MR-U, gengur út frá því að samstarfið um menntamál, rannsóknir og tungumál sé eitt mikilvægasta tækið til að mæta landsbundnum og alþjóðlegum áskorunum. Markmiðið er að norræna samstarfið geti stuðlað að betri skilyrðum fyrir hágæða menntun og rannsóknir.
Norðurlönd deila grundvallargildum, sterkri lýðræðishefð og sameiginlegri sögu en löndin eru þó það ólík að hægt er að gera samanburð og læra hvert af öðru. Það er einmitt með samstöðunni sem við þróumst og stöndum sterkari.
Menntun, rannsóknir og tungumál eru nauðsynleg til að bregðast við áskorunum samfélagsins, en áskoranirnar verða ekki leystar af hverju landi fyrir sig. Það er einnig mikilvægt að starfa saman að menningarmálum, aðlögunarmálum og atvinnulífi. Þetta á sérstaklega við um flóknar samfélagsáskoranir þar sem Norðurlönd geta sem heild orðið enn betri: Menntum við á snjallan hátt með það besta að leiðarljósi fyrir einstaklinga og samfélag? Getum við spáð fyrir um bestu lausnirnar og forgangsraðað með skýrum hætti? Nýtum við þau tækifæri sem er að finna í norrænu löndunum?
Þessi samstarfsáætlun varðar stefnumótun fyrir norræna samstarfið og endurspeglar áherslur norrænna ráðaherra skóla-, mennta- og rannsóknarmála fram til ársins 2030.
Samstarfsáætlunin er metnaðarfull. Hún sýnir fram á að norræna samstarfið skiptir máli og stendur traustum fæti. Hins vegar er nauðsynlegt að efla samstarfið enn frekar. Þau markmið sem við höfum sett fram endurspegla þess vegna þá ábyrgð okkar ráðherranna að skýra forgangsverkefni og leggja fram skýra stefnu fyrir öflugt samstarf. Við vonumst til að samstarfsáætlunin komi til með að efla norræna samstarfið á öllum sviðum.