Árið 2019 samþykktu forsætisráðherrar norrænu landanna sameiginlega framtíðarsýn um að Norðurlönd ættu að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar mun því miðast við að uppfylla þessa framtíðarsýn með aðgerðum á þremur stefnumarkandi áherslusviðum, þ.e. grænum Norðurlöndum, samkeppnishæfum Norðurlöndum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum.
Norrænt samstarf á sviði menntamála, rannsókna og tungumála skiptir sköpum til þess að við getum byggt upp lýðræðisleg og viðnámsþolin samfélög sem einkennast af þekkingu, samstöðu og gagnkvæmu trausti og til þess að Norðurlönd geti eftir sem áður verið eitt af samþættustu svæðum heims. Á meðal þeirra áskorana sem velferðarríkið stendur frammi fyrir í öllum norrænu löndunum má nefna breytt loftslag og umhverfi, félagslegan ójöfnuð og síhækkandi meðalaldur. Jafnframt munu nýjar og óþekktar, innlendar sem alþjóðlegar áskoranir og krísur reyna á hin norrænu velferðarsamfélög.
Í gegnum skólagöngu og menntun öðlast norrænn almenningur þekkingu á forsendum lýðræðisins, gildum og leikreglum og verður fær um að taka þátt í lýðræðislegum ferlum. Grunnur að virkri þátttöku er lagður snemma. Strax á leikskólastigi er maður hluti af inngildandi félagsskap þar sem öllum gefst færi á því að tjá sig, hafa rödd og taka þátt. Rannsóknastarf og þekkingarsköpun skipta miklu máli, bæði vegna niðurstaðnanna sem fást og með því að sýna fram á gildi gagnrýninnar hugsunar og skoðanaskipta.
Menntamál, rannsóknir og tungumál eru eitt af helstu málefnasviðum Norrænu ráðherranefndarinnar sem skiptir sköpum þegar kemur að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar fyrir árið 2030 og að Norðuröld verði betur í stakk búin til þess að mæta krísum framtíðarinnar. Samstarfið nær til menntakerfisins í heild sinni, allt frá leikskóla til æðri menntunar og símenntunar, ásamt rannsóknum og tungumálum. Saman styðja menntun, rannsóknir og tungumál við lýðræði á Norðurlöndum með uppbyggingu trausts, sjálfsmyndar og samstöðu ásamt því að efla gagnrýna hugsun og skoðanaskipti.
Í samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir er fjallað um pólitískar áherslur og markmið fyrir árin 2025–2030.
Markmiðin í samstarfsáætluninni undirstrika að Norðurlönd standa sig vel á mörgum sviðum en að þörf sé á auknum aðgerðum. Til þess að umskiptin gangi vel fyrir sig verðum við að hafa metnað til þess að menntun á Norðurlöndum sé af háum gæðum, að allir öðlist góða grunnfærni og að allir upplifi leikskóla- og skólavist þar sem ýtt er undir lýðræðisþátttöku og unnið gegn félagslegri einangrun og upplýsingaóreiðu. Menntun á Norðurlöndum á að fela í sér tækifæri fyrir allan almenning, frá unga aldri og út alla ævina, og hún þarf að þróast í takt við þarfir atvinnulífsins. Við þurfum áframhaldandi samfélagslega mikilvægar rannsóknir af miklum gæðum á heimsmælikvarða auk tungumálastefnu sem skapar sjálfsmynd og styrkir samkeppnishæfni.
Norðurlandaráð, borgarasamfélagið og aðrir viðeigandi aðilar komu að gerð samstarfsáætlunarinnar. MR-U hafa borist tillögur og ábendingar frá norrænum og landsbundnum hagsmunaaðilum og samtökum. Þar á meðal eru ábendingar frá ungu fólki á Norðurlöndum, m.a. frá Ungmennamánuði Norðurlanda í nóvember 2023.
Skoða ber norrænt samstarf í samhengi við önnur stefnumarkandi skjöl Norrænu ráðherranefndarinnar, þar á meðal Framtíðarsýn okkar 2030. Eftir því sem við á skal við allar aðgerðir taka tillit til þverlægra sjónarhorna, svo sem sjálfbærrar þróunar, jafnréttis og réttinda barna og ungmenna til þess að hafa rödd og taka þátt. Einnig skal tekið tillit til sjónarmiða fötlunarmála, inngildingar og aðgengismála í starfinu.
Samstarfsáætlunin byggist á því verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar að stuðla að því að uppfylla framtíðarsýnina um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Öll Norræna ráðherranefndin vinnur að því að uppfylla framtíðarsýnina með hinum þremur stefnumarkandi áherslum.
Samstarfsáætlunin býr til umgjörð um allar aðgerðir Norrænu ráðherranefndarinnar í tengslum við menntamál og rannsóknir. Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir samþykkti samstarfsáætlunina hinn 19. ágúst 2024 og gildir hún til 31. desember 2030.