Fara í innihald

Markmið 1: Allir á Norðurlöndum skulu hafa aðgang að menntun af miklum gæðum, frá unga aldri til æviloka, óháð bakgrunni

Norðurlönd skulu áfram vera svæði sem er framarlega í menntamálum á alþjóðavísu árið 2030, þar sem tækifæri til menntunar eru góð og allir íbúar búa yfir grunnfærni og stafrænni færni. Menntun á að skapa öruggan ramma frá unga aldri til fullorðinsára. Rannsóknir benda til þess að fjárfestingar í gæðamenntun og snemmtækum aðgerðum með aðstoð þegar þörf er á hafi mannúðlegan og félagshagfræðilegan ávinning í för með sér og minnki þörfina á stærri og dýrari inngripum síðar á lífsleiðinni. Menntun á einnig að skapa færni og hvata til þátttöku í lýðræðinu og samfélaginu og kenna íbúum nauðsynlega tækni til að greina og sporna gegn villandi upplýsingum og taka þátt í opnum umræðum og skoðanaskiptum sem byggjast á staðreyndum. Norðurlönd verða að vinna með enn skilvirkari hætti og með meiri samstöðu að því að stuðla að inngildingu í menntakerfinu og atvinnulífi, meðal annars með því að tryggja heilbrigði og velferð fyrir alla, óháð menntunarstigi og tungumála- og menningarlegum bakgrunni, og tryggja forvarnarstarf og fræðslu frá unga aldri. 
ann-sofi_rosenkvist-primary_school_classroom-4846.jpg

Undirmarkmið 1.1: Fleiri skulu öðlast góða grunnfærni.

Undirmarkmið 1.2: Menntun skal stuðla að því að efla lýðræðisfærni, gagnrýna hugsun, stafræna hæfni og getu íbúanna til að fóta sig í nýjum miðla- og upplýsingaveruleika.

Undirmarkmið 1.3: Færri skulu lenda utan við menntakerfið og vinnumarkaðinn, meðal annars vegna snemmtækra og fyrirbyggjandi aðgerða.

Undirmarkmið 1.4: Norðurlönd skulu vinna að innihaldsríkri samkennd og bættri velferð og heilsu barna og námsmanna á öllum skólastigum.