Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála á að leggja sitt af mörkum til aukinnar þekkingar og lausna á mikilvægum sameiginlegum og þverfaglegum samfélagslegum áskorunum í norrænu löndunum. Til þess að ná markmiðum um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd þarf lausnir sem byggjast á svæðisbundnum styrkleikum og aðlögunarhæfni byggðarlaga og efla traust og samstarf á milli allra svæða Norðurlanda. Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála skal stuðla að sjálfbæru, svæðisbundnu þróunarstarfi sem styrkir efnahagslega, umhverfislega og félagslega þróun, eykur viðnámsþol og aðlögunarhæfni svæðanna og ýtir undir norræna samþættingu og samheldni þvert á landamæri Norðurlanda og á Norður-Atlantshafssvæðinu.
Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála skal stuðla að því að gera svæðið enn eftirsóknarverðara til að búa á, sækja nám og vinnu og stunda atvinnustarfsemi á. Þær áskoranir sem norræn byggðarlög standa frammi fyrir eru orðnar flóknari og teygja sig í auknum mæli yfir landamæri. Þær geta krafist lausnamiðaðrar nálgunar þvert á mörg stjórnsýslustig og landamæri og atvinnusóknarsvæði. Sameiginleg áætlanagerð í byggðahagfræðilegum, félags-, loftslags- og umhverfislegum málefnum varðandi innviðauppbyggingu, sem skapi forsendur fyrir sjálfbærum hagvexti, aukinni samkeppnishæfni og árangursríkum umskiptum í norrænu atvinnulífi er þess vegna mikilvæg.
Þeirri nýju stöðu sem upp er komin í heimsmálunum fylgja jafnframt auknar kröfur hvað varðar öryggismál, viðbúnað og birgðaöryggi á öllum Norðurlöndum. Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála á að stuðla að því að styrkja getu Norðurlanda til þess að takast á við margvíslega erfiðleika og krísur. Þróun á, nálægð við og jafnt aðgengi að opinberri og einkarekinni þjónustu, jafnt í daglegu lífi sem á krísutímum, skiptir miklu máli fyrir viðnámsþolin og aðlögunarhæf byggðarlög.