Fara í innihald

Pólitískar áherslur

Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála á að leggja sitt af mörkum til aukinnar þekkingar og lausna á mikilvægum sameiginlegum og þverfaglegum samfélagslegum áskorunum í norrænu löndunum. Til þess að ná markmiðum um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd þarf lausnir sem byggjast á svæðisbundnum styrkleikum og aðlögunarhæfni byggðarlaga og efla traust og samstarf á milli allra svæða Norðurlanda. Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála skal stuðla að sjálfbæru, svæðisbundnu þróunarstarfi sem styrkir efnahagslega, umhverfislega og félagslega þróun, eykur viðnámsþol og aðlögunarhæfni svæðanna og ýtir undir norræna samþættingu og samheldni þvert á landamæri Norðurlanda og á Norður-Atlantshafssvæðinu. 
Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála skal stuðla að því að gera svæðið enn eftirsóknarverðara til að búa á, sækja nám og vinnu og stunda atvinnustarfsemi á. Þær áskoranir sem norræn byggðarlög standa frammi fyrir eru orðnar flóknari og teygja sig í auknum mæli yfir landamæri. Þær geta krafist lausnamiðaðrar nálgunar þvert á mörg stjórnsýslustig og  landamæri og atvinnusóknarsvæði. Sameiginleg áætlanagerð í byggðahagfræðilegum, félags-, loftslags- og umhverfislegum málefnum varðandi innviðauppbyggingu, sem skapi forsendur fyrir sjálfbærum hagvexti, aukinni samkeppnishæfni og árangursríkum umskiptum í norrænu atvinnulífi er þess vegna mikilvæg.
Þeirri nýju stöðu sem upp er komin í heimsmálunum fylgja jafnframt auknar kröfur hvað varðar öryggismál, viðbúnað og birgðaöryggi á öllum Norðurlöndum. Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála á að stuðla að því að styrkja getu Norðurlanda til þess að takast á við margvíslega erfiðleika og krísur. Þróun á, nálægð við og jafnt aðgengi að opinberri og einkarekinni þjónustu, jafnt í daglegu lífi sem á krísutímum, skiptir miklu máli fyrir viðnámsþolin og aðlögunarhæf byggðarlög.
Kastljósinu er beint að þeim sviðum þar sem norrænu löndin geta í sameiningu – með samstarfi, sameiginlegum aðgerðum, miðlun reynslu og þekkingaröflun – stuðlað að grænni, samkeppnishæfari og félagslega sjálfbærari Norðurlöndum.

Græn Norðurlönd

Grænu umskiptin eru lykilþáttur í því að ná markmiðum norrænu landanna í umhverfis- og loftslagsmálum, sem og markmiðinu um græn Norðurlönd. Umskiptunum fylgja bæði tækifæri og áskoranir. Forsendur til þróunar og til þess að njóta góðs af jákvæðum áhrifum umskiptanna eru misjafnar eftir svæðum á Norðurlöndum. Hraði hinna grænu umskipta og þörfin á jafnvægi á nýtingu lands í mismunandi tilgangi, svo sem til matvæla- og orkuframleiðslu, til atvinnustarfsemi eða búsetu, eða til náttúruverndar. Þetta kallar á aukna yfirsýn, forgangsröðun og mat á hagsmunum við skipulagningu byggða og samfélaga. Einnig er mikilvægt að tekið sé tillit til þarfa og réttinda norrænna frumbyggja við græn umskipti.
Norrænt samstarf í byggða- og skipulagsmálum getur lagt sitt af mörkum til þess að umskipti norrænu landanna á sviði loftslags- og orkumála fari fram í samræmi við sjálfbærar svæðisbundnar og staðbundnar lausnir þannig að græn umskipti skili ávinningi fyrir norræn byggðarlög.

Samkeppnishæf Norðurlönd

Samkeppnishæf Norðurlönd krefjast svæða sem einkennast af nýsköpun, aðlögunar- og þróunarhæfni og samkeppnishæfu atvinnulífi. Mikilvægur þáttur í því að leysa þetta felst í aðgerðum sem eru aðlagaðar að mismunandi staðbundnum og svæðisbundnum aðstæðum og samkeppnisstöðu. Það er mikilvægt að norrænt samstarf í byggða- og skipulagsmálum styðji við og hvetji til aðgerða sem efla atvinnulífið svo svæðin geti nýtt tækifæri sín til snjallrar og sjálfbærrar þróunar. 
Til að skapa samkeppnishæf Norðurlönd þar sem félagslegt jafnvægi ríkir er mikilvægt að tryggja eftirsóknarverð húsnæðis-, atvinnu- og búsetuskilyrði alls staðar á Norðurlöndum. Það kallar einnig á að til staðar sé góð umgjörð fyrir nýsköpun, þróun og atvinnuþátttöku, einkum á landsbyggðinni þar sem vegalengdir eru miklar og erfiðara getur verið að skapa eftirsóknarverð atvinnutækifæri og laða að og halda í hæft vinnuafl.
Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála getur ýtt undir samþættingu og samræmdar lausnir á öllum svæðum á Norðurlöndum til að stuðla að samkeppnishæfum Norðurlöndum.

Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Lýðfræðileg, félagsleg og hagfræðileg þróun, með vaxandi mun bæði innan og á milli svæða með tilliti til mannfjöldaþróunar, íbúasamsetningar, menntunarstigs og tekna, hefur, ásamt tækniþróun, mikil áhrif á samfélagsþróunina, jafnt svæðisbundið og á Norðurlöndum Þetta varðar bæði þær samfélagslegu áskoranir og þau tækifæri þessi þróun hefur í för með sér. Þetta getur leitt til minnkandi skatttekna og getu til að uppfylla þarfir atvinnulífsins fyrir hæft vinnuafl og aðgengi að opinberri og einkarekinni þjónustu. Í dreifbýli þar sem vegalengdir eru langar og svæði eru strjálbýlli er þetta oft stór áskorun  sérstaklega ef upp koma staðbundnar eða svæðisbundnar krísur. Á sama tíma standa önnur landsvæði á Norðurlöndum frammi fyrir erfiðleikum vegna ört vaxandi íbúafjöldi á litlum landsvæðum.
Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála getur stuðlað að því að efla félagslega sjálfbær Norðurlönd í gegnum nýskapandi norrænar lausnir á þessum mikilvægu samfélagslegu áskorunum á mismunandi svæðum á Norðurlöndum.

Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála

Fram til ársins 2030 verður því lögð áhersla á það í norrænu samstarfi um byggða- og skipulagsmál:
  • að grænu umskiptin leiði til þróunar og tækifæra fyrir fólk og fyrirtæki á öllum svæðum Norðurlanda, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli.
  • að norræn svæði séu samkeppnishæf og samþætt.
  • að örugg og góð lífsskilyrði séu bæði í þéttbýli og dreifbýli á Norðurlöndum.

Norræna ráðherranefndin um sjálfbæran hagvöxt (byggðamál) hefur ákveðið markmið og undirmarkmið fyrir starfið á tímabilinu 2025–2030. Hinar pólitísku áherslur vísa veginn í allri starfsemi innan málefnasviðsins í norrænu samstarfi. Það felur í sér að á þessum markmiðum skuli byggja aðgerðir sem skili þeim árangri og hafi þau áhrif að ná fram þeim breytingum sem stefnt er að.
Norrænt samstarf sem styður við aðgerðir sem sameiginleg áhersla er á og stuðlar að þekkingaryfirfærslu á milli norrænu ríkisstjórnanna og annarra norrænna aðila getur stuðlað að því að styrkja lands-, svæðis- og staðbundnar forsendur fyrir grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum. Þekkingaryfirfærsla og lærdómur í gegnum rannsóknir og greiningar, eftirfylgni, mat og miðlun reynslu getur eflt norrænu löndin og svæði á Norðurlöndum til að takast á við mikilvægar samfélagslegar áskoranir og nýta betur þau tækifæri sem í þeim felast og stuðla þannig að því að uppfylla markmið norrænu landanna í byggða- og skipulagsmálum.
Öflugt borgarasamfélag, framboð á atvinnu, menntun, samgöngum og opinberri þjónustu og þjónustu einkaaðila á friðartímum jafnt sem krísutímum er mikilvægur hluti þess að tryggja öryggi og stöðugleika landsvæða, borga og sveita á öllum Norðurlöndum.