Fara í innihald

Markmið 1: Grænu umskiptin skapi skilyrði fyrir frekari þróun og ný tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki á öllum svæðum Norðurlanda, jafnt í þéttbýli sem í dreifbýli

Vinna að byggðamálum og mótun skipulags með samfélagslega áherslur, skiptir miklu máli til þess að skapa forsendur fyrir sjálfbærum grænum umskiptum. Það er mikilvægt að skipulag samfélaga á Norðurlöndum stuðli að sjálfbærum lífstíl og mannvænlegu umhverfi og hafi sem minnst áhrif á loftslag, verndi líffræðilega fjölbreytni og stuðli að mikilvægri þjónustu vistkerfisins. Byggða- og skipulagsmál í norrænu löndum eru mikilvæg verkfæri í þessu tilliti. Norrænt samstarf um byggða- og skipulagsmál á að stuðla að því að græn umskipti á Norðurlöndum hafi í för með sér þróun, tækifæri og gagnsemi fyrir byggðarlög á ólíkum svæðum, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli.
amager faelled.jpg

Undirmarkmið 1.1: Góður þekkingargrunnur og ferlar varðandi skilvirka landnýtingu  og forgangsröðun lands eiga að vera til staðar í norrænu löndunum

Grænu umskiptin krefjast þess að landi verði forgangsraðað í þágu framleiðslu á endurnýjanlegri orku, matvælaframleiðslu, skógræktar, útivistar, náttúruverndar og verndunar menningarumhverfis, auk þróunar á grænum atvinnugreinum. Landnotkun felur í sér áskoranir sem teygja sig yfir landamæri og mörk sveitarfélaga, svæða og landa og þörf er á lausnum þar sem landfræðileg tækifæri eru nýtt til fulls. Um leið þarf að líta á landnotkun sem hluta af stærri mynd og vinna gegn togstreitu á milli markmiða. Samstarfsáætlunin um byggða- og skipulagsmál mun vinna að því að bæta landnýtingu og stuðla að þróun og prófun á aðferðum og ferlum í skipulagsgerð.

Undirmarkmið 1.2: Byggðir í þéttbýli og dreifbýli eiga að hafa góðar forsendur til þess að njóta góðs af þeim tækifærum sem felast í grænum umskiptum

Norrænu löndin standa frammi fyrir margs konar samhangandi samfélagslegum áskorunum þvert á landamæri, svo sem grænum og stafrænum umskiptum, lýðfræðilegum breytingum, framboði og þróun á færu vinnuafli og þróun á færni og þenslu á samgöngum og innviðum. Mikilvægt er að styðja við aðgerðir sem stuðla að því að leysa þær áskoranir sem borgir og bæir, einkum dreifbýli, standa frammi fyrir við að njóta góðs af þeim tækifærum sem í grænum umskiptum felast. Norrænt samstarf um byggða- og skipulagsmál mun vinna að því að auka tækifæri og efla byggð og samfélög í bæði þéttbýli og dreifbýli til þess að sem flest svæði og samfélög geti notið góðs af grænu umskiptunum og nýtt sér tækifæri til snjallrar og sjálfbærrar þróunar.