Í samstarfsáætlun um byggða- og skipulagsmál er pólitískum áherslum og markmiðum fyrir tímabilið 2025–2030 lýst. Samstarfsáætlunin tekur mið af því hlutverki Norrænu ráðherranefndarinnar að leggja sitt af mörkum til þess að uppfylla framtíðarsýn okkar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Allar ráðherranefndir Norrænu ráðherranefndarinnar vinna að því að uppfylla framtíðarsýnina á hinum þremur stefnumarkandi áherslusviðum.
Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála mun fram til ársins 2030 snúast um græn umskipti sem ýta undir þróun og skapa tækifæri og gagnsemi fyrir íbúa og fyrirtæki hinna ýmsu svæða Norðurlanda. Jafnframt hyggst svið byggðamála leggja áherslu á að efla samkeppnishæfni og viðnámsþrótt norrænna svæða og styðja við samstarf á landamærasvæðum. Loks hyggst svið byggðamála leggja áherslu á vinnuna við að ýta undir góð og örugg lífsskilyrði alls staðar á Norðurlöndum, jafnt í daglegu lífi sem á krísutímum.
Gert er ráð fyrir því að innleiðing þessarar samstarfsáætlunar um byggða- og skipulagsmál fari að miklu leyti fram í gegnum stuðning við sameiginlegar norrænar aðgerðir og verkefni (bæði innan fagsviðs byggðamála og þvert á önnur fagsvið) og með þekkingaröflun og miðlun reynslu á milli norrænna aðila.
Við gerð samstarfsáætlunarinnar var samráð haft við Norðurlandaráð, borgarasamfélagið og aðra hagaðila. Norðurlandaráð kom að vinnunni við markmiðasetningu í samstarfsáætluninni og samráð var haft við norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndina, síðast á þemaþingi Norðurlandaráðs í apríl 2024. Þá hafa meðal annars NORA, norrænu landamæranefndirnar, Nordregio og aðrir norrænir aðilar komið með athugasemdir við drög að samstarfsáætluninni.
Samstarfsáætlun þessi er stýrandi fyrir alla starfsemi ráðherranefndarinnar um sjálfbæran hagvöxt (byggðamál). Ráðherranefndin um sjálfbæran hagvöxt (byggðamál) samþykkti samstarfsáætlunina þann 18. júní 2024 og gildir hún til 31. desember 2030.
Norrænn virðisauki er mikilvægt viðmið þegar meta á gildi og árangur norræns samstarfs. Norrænn virðisauki er það virði sem skapast af aðgerðum umfram það virði sem skapast í löndunum sjálfum. Norrænn virðisauki getur meðal annars orðið til af aðgerðum sem skapa norrænt samstarf og tengslanet, draga úr hindrunum og sundrung, safna saman norrænni sérfræðiþekkingu og færni, raungera ónýtt tækifæri og skapa samlegðaráhrif. Norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála á að skapa umtalsverðan virðisauka fyrir Norðurlönd bæði í þéttbýli og dreifbýli.
Framkvæmd samstarfsáætlunarinnar skal fara fram í samræmi við stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um innleiðingu sjálfbærrar þróunar, jafnréttis og sjónarmiða réttinda barna og málefna ungmenna í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar