Öryggi og góð lífsskilyrði í borgum, bæjum og í dreifbýli á Norðurlöndum felast meðal annars í aðgengi íbúa að fjölbreyttum atvinnutækifærum, bæði í einkageiranum og opinberri þjónustu ásamt því að tryggja fólki stöðuga afkomu og fyrirtækjum og sveitarfélögum tryggt rekstraröryggi og tekjustofna, í jafnvægi sem og á krísutímum. Í því felst einnig að til staðar sé gott og eftirsóknarvert búsetuumhverfi þar sem náttúran og virðing fyrir menningarlandslagi á hverjum stað er mikilvægur grundvöllur samfélagsins. Þetta er forsenda þess að geta laðað að og haldið í bæði ungt og eldra fólk í dreifbýli. Byggðastefna og skipulag í norrænu löndunum gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að styðja við sjálfbærar lausnir sem taka mið af forsendum og aðlögunarhæfni hvers svæðis fyrir sig. Norrænt samstarf um byggða- og skipulagsmál á að leggja sitt af mörkum til þess að efla getu norrænna byggða til að skapa sjálfbær og viðnámsþolin svæði sem fólk sækist eftir því að búa á, ásamt því að stuðla að skapandi lausnum í tengslum við umskipti yfir í sjálfbær og lífvænleg samfélög.