Það á að vera spennandi að búa, starfa, stunda nám og reka fyrirtæki hvar sem er á Norðurlöndum. Þeirri nýju stöðu sem upp er komin í heimsmálunum fylgja jafnframt auknar kröfur í tengslum við öryggismál, afkomu og viðbúnaðarmál. Það er lykilatriði að norrænu löndin sinni þessu í sameiningu og vinni þvert á landamæri svo að hægt sé að byggja græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd sem búa við öflugan viðnámsþrótt og aðlögunarfærni þannig að við getum gert að veruleika sameiginlega framtíðarsýn okkar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og mest samþætta svæði heims árið 2030.
Landshlutar, borgir og sveitir Norðurlanda búa við mismunandi skilyrði og getu til að þróast. Það skiptir máli að lausnir á þeim umfangsmiklu og flóknu samfélagsáskorunum sem norrænu löndin standa frammi fyrir taki mið af þessu. Það á til dæmis við um grænu og stafrænu umskiptin og lýðfræðilegar breytingar sem hafa mismunandi áhrif á hin ýmsu svæði, borgir og sveitir.
Norðurlönd eru eitt framsæknasta og samkeppnishæfasta svæði heims þar sem nýsköpunarfyrirtæki skapa hagvöxt sem mikilvægur er fyrir velmegun okkar og velferð. Hann skapar umgjörð um góða og trygga tilveru í borgum jafnt sem dreifðari byggðum.
Um leið hefur neikvæð þróun landpólitískrar stöðu og ótryggari veröld sýnt okkur fram á þörfina á að efla viðnámsþrótt Norðurlanda og aðlögunarhæfni og getu okkar til að takast á við mismunandi áskoranir, truflanir og krísur. Öflugt borgarasamfélag, framboð á atvinnu, menntun, samgöngum og opinberri þjónustu og þjónustu einkaaðila á friðartímum jafnt sem krísutímum er mikilvægur hluti þess að tryggja öryggi og stöðugleika landsvæða, borga og sveita á öllum Norðurlöndum.
Norræna ráðherranefndin um sjálfbæran hagvöxt (byggðamál) skapar umgjörð um norræna samstarfið um byggða- og skipulagsmál. Þessi samstarfsáætlun fyrir árin 2025–2030 markar stefnumál og forgangsröðun fyrir norræna samstarfið á sviði byggða- og skipulagsmála. Kastljósinu er beint að þeim sviðum þar sem norrænu löndin geta í sameiningu – með samstarfi, sameiginlegum aðgerðum, miðlun reynslu og þekkingaröflun – stuðlað að grænni, samkeppnishæfari og félagslega sjálfbærari Norðurlöndum.