Fara í innihald

Markmið 2: Norræn svæði séu sam­keppnishæf og samþætt

Forsenda samkeppnishæfra Norðurlanda er að alls staðar á Norðurlöndum séu skilyrði fyrir fyrirtæki góð og þau geti stuðlað að hagvexti, þróun og velsæld. Mikill munur getur þó verið á skilyrðum í borgum og bæjum annars vegar og dreifbýli hins vegar. Stafvæðing, notkun nýrrar tækni (til dæmis gervigreindar), aðgengi að menntun, aðgerðir sem örva atvinnulífið og opinber og einkarekin þjónusta eru atriði sem skipta sköpum þegar kemur að því að laða að nauðsynlegt og hæft vinnuafl og tryggja eftirsóknarverð lífsskilyrði. Mikilvægt er að norrænu löndin vinni saman að þessum sameiginlegu úrlausnarefnum til þess að styrkja Norðurlönd í heild og styðja við samstarf þvert á landamæri og lausnir sem eru aðlagaðar hverjum stað fyrir sig.  Norrænt samstarf um byggða- og skipulagsmál mun vinna að því að styrkja svæðis- og staðbundna samkeppnishæfni, viðnámsþrótt og samþættingu þvert á landamæri og mörk sveitarfélaga og svæða á Norðurlöndum.
aline_lessner-malmö_western_harbour-5536.jpg

Undirmarkmið 2.1: Á öllum svæðum á Norðurlöndum eiga að vera góð rammaskilyrði fyrir sjálfbæran hagvöxt, nýsköpun og viðnámsþrótt

Nýsköpun, frumkvöðlastarf og atvinnustarfsemi eru lykilþættir á grænum og samkeppnishæfum Norðurlöndum og í því að leysa þau stóru samfélagslegu viðfangsefni sem hafa áhrif á byggðarlög á Norðurlöndum. Norrænt samstarf um byggða- og skipulagsmál mun stuðla að því að skapa góð skilyrði og forsendur fyrir sjálfbæra atvinnustarfsemi, nýsköpun og viðnámsþrótti á öllum norrænum svæðum.

Undirmarkmið 2.2: Góð skilyrði séu fyrir því að laða að og halda í hæft vinnuafl öllum svæðum Norðurlanda

Það skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni Norðurlanda að fyrirtæki alls staðar á Norðurlöndum hafi gott aðgengi að hæfu vinnuafli. Hæfni og gott framboð á vinnuafli gerir möguleg þau umskipti á vinnumarkaði sem nauðsynleg eru til að ná fram sjálfbærri þróun og aukinni samkeppnishæfni. Stafrænar lausnir í mennta- og atvinnulífi geta stækkað hóp vinnuafls sem hægt er að sækja starfsfólk úr, einnig á landsbyggðinni þar sem vegalengdir eru langar, og auðveldað þróun, nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi og opinbera geiranum. Norrænt samstarf um byggða- og skipulagsmál mun leggja sitt af mörkum til þess að styðja við lausnir í tengslum við framboð á hæfu vinnuafli út frá svæðisbundnum sjónarmiðum og ólíkum aðstæðum norrænna byggðarlaga.

Undirmarkmið 2.3: Góð rammaskilyrði skulu vera fyrir samstarfi yfir landamæri og starfs­svæði

Það á að vera einfalt að búa, stunda nám, vinna, ferðast og reka fyrirtæki alls staðar á Norðurlöndum og þvert á landamæri. Landamærasvæði Norðurlanda vinna saman að því að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins, aðlaga færniframboð, greina og fjarlægja stjórnsýsluhindranir, þróa sjálfbærar og loftslagsvænar lausnir í umhverfis- og orkumálum og stuðla að sjálfbærri landnotkun ásamt þróun innviða og upplýsingagjöf þvert á landamæri. Norrænt samstarf um byggða- og skipulagsmál mun beita sér fyrir sjálfbærri svæðisþróun sem teygir sig yfir landamæri með það fyrir augum að stuðla að lífvænlegum landamærasvæðum sem stuðla að samþættum, grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum.