Markmið 2: Efla framboð á vinnuafli og jöfn tækifæri öllum til handa svo Norðurlönd geti brugðist betur við þörfum vinnumarkaðarins og nýtt færni alls starfsfólks
Öll hæfni skiptir máli
Íbúar Norðurlanda eru nokkuð vel menntaðir, búa við allgott jafnrétti og starfa innan ramma norræna vinnumarkaðslíkansins. Líkanið tryggir öryggi, sveigjanleika og aðlögunarhæfni sem leiðir til hás atvinnustigs og framleiðni. Norðurlöndin standa hins vegar frammi fyrir þeirri lýðfræðilegu þróun að fólki á vinnufærum aldri fækkar og eldri borgurum sem þarfnast umönnunar fjölgar. Þetta gerist samhliða því að alltof hátt hlutfall vinnuaflsins er hvorki í námi né vinnu. Á sama tíma eru enn skipulagshindranir víða á norrænum vinnumarkaði sem koma í veg fyrir að færni alls starfsfólks nýtist sem skyldi. Norðurlöndin búa einnig við vaxandi alþjóðlega samkeppni um að geta laðað að sér og haldið hæfu starfsfólki.
Til að ná markmiðinu um eflt framboð á vinnuafli og jöfn tækifæri öllum til handa vill MR-A á komandi áætlunartímabili leggja sérstaka áherslu á að:
Undirmarkmið 2.1
Styrkja þekkingargrunninn til þess að fá fleira fólk í vinnu með sérstakri áherslu á hópa með veika tengingu við vinnumarkaðinn, þar á meðal aldraða, fólk með fötlun, konur af erlendum uppruna utan Evrópu og ungt fólk sem er hvorki í námi né vinnu.
Undirmarkmið 2.2
Efla jafna meðferð og jafnrétti á vinnumarkaði svo Norðurlöndin geti nýtt hæfi alls starfsfólks án tillits til kyns, kynvitundar eða kyntjáningar, uppruna, trúarbragða eða annarra lífsskoðana, fötlunar, kynhneigðar eða aldurs.
Undirmarkmið 2.3
Greina hindranir og hugsanleg úrræði til að laða betur að og halda á viðunandi kjörum hæfu starfsfólki á Norðurlöndum.