Fara í innihald

Formáli

Norrænu forsætisráðherrarnir samþykktu árið 2019 framtíðarsýn í norrænu samstarfi um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030. Framkvæmd framtíðarsýnarinnar skiptist á þrjú áherslusvið og er markmiðið að tryggja græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Vinnumarkaðurinn eru máttarstólpi norrænna velferðarsamfélaga og gegnir lykilhlutverki við að gera framtíðarsýnina að veruleika.
Framtíðarsýnin kemur til framkvæmdar á sama tíma og bæði sameiginlegar áskoranir og tækifæri einkenna vinnumarkaði allra Norðurlanda:
  • Græn umskipti gera kröfur um umbreytingu á norrænum vinnumörkuðum, að skynsamlega verði fjárfest í sjálfbærri framtíð og að Norðurlönd verði áfram leiðandi á sviði grænnar þróunar.
  • Lýðfræðilegar breytingar kalla á að áfram verði hugað að framboði á vinnuafli til þess að tryggja nægt framboð á hæfu starfsfólki svo áfram verði hægt að fjármagna velferðarsamfélög landanna.
  • Ýmis ný tækifæri felast í aukinni notkun stafvæðingar, gervigreindar og nýrrar tækni en þetta eykur einnig þörf á umskiptum, færniþróun og að hugað sé að vinnuumhverfi. Þetta á við um atvinnurekendur og launafólk en einnig kjarasamningsbundna ramma vinnumarkaðarins sem norræna velferðarlíkanið byggist á.
Á Norðurlöndum hefur verið samnorrænn vinnumarkaður í meira en sjötíu ár. Þrátt fyrir að löndin séu ólík er það sem við eigum sameiginlegt einstakt og við eigum að nýta það til að finna bestu og sjálfbærustu lausnirnar á sameiginlegum tækifærum og áskorunum landanna. Þess vegna er verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar um vinnumál (MR-A) að beina vinnumarkaðsaðgerðum þangað sem þær gagnast sem flestum íbúum Norðurlanda. Það gerum við með því að fjalla um vinnumarkaðsstefnu, vinnurétt og vinnuumhverfi í löndunum, svæðisbundið og alþjóðlega.
Markmiðið með þessari samstarfsáætlun er að móta stefnu fyrir allt starf og aðgerðir MR-A á árunum 2025-2030. Framtíðarsýn okkar er sú að þannig getum við eflt norrænt samstarf um að sem flest séu í vinnu sem einkennist af góðu vinnuumhverfi, góðum starfskjörum og jafnrétti. 
Þannig eflum við aðlögunarhæfni og samkeppnisfærni norrænna vinnumarkaða og gerum Norðurlöndin fær um að ná markmiðum framtíðarsýnarinnar um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030.
forord.jpg
Mats Persson, vinnu- og aðlögunarmála­ráðherra Svíþjóðar og Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar
MatsPersson signatur.jpg
Mats Persson
vinnumálaráðherra Svíþjóðar
665489ca9dd46_GS underskrift KE 2023_svart.png
Karen Ellemann
framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar