Fara í innihald

Pólitískar áherslur

MR-SAM ber sérstaka ábyrgð á því að taka þátt í að halda á lofti framtíðarsýninni, stefnumarkandi áherslusviðunum þremur og öðrum norrænum málefnum innan landanna og á norrænum vettvangi ásamt því að tryggja að vinnunni sé fylgt eftir.  MR-SAM vinnur að enn öflugra og metnaðarfyllra samstarfi með því að taka þátt í að bjóða norrænar lausnir, nýja þekkingu sem kallað er eftir og vettvang fyrir norræna samvinnu. 
Norðurlönd hafa færst nær því að verða sjálfbært og samþætt svæði en enn er verk að vinna eigi hið endanlega og metnaðarfulla markmið að nást. Mikil vannýtt tækifæri eru til staðar á Norðurlöndum á sviði samþættingar og hreyfanleika með tilliti til þess að starfa, stunda nám, stofna fyrirtæki eða flytja til annars norræns lands. Vinnan í tengslum við hreyfanleika og stjórnsýsluhindranir skiptir sérstaklega miklu máli fyrir aukinn hagvöxt, samkeppnishæfi og samstöðu. Þörf er á markvissara norrænu samstarfi á milli viðeigandi aðila til þess að ná þessu markmiði.  
Vinnan snertir mörg málefnasvið og með þverfaglegu samstarfi á milli fagsviða skapast skilyrði til þess að koma stjórnsýsluhindrunum og hreyfanleika á dagskrá stjórnmálanna. Hjá öðrum fagsviðum, svo sem innan málefna stafvæðingar-, byggðastefnu-, atvinnulífs-, vinnumála-, menntunar og félags- og heilbrigðismála, fer einnig fram þverfaglegt samstarf á milli sviða og unnin eru verkefni með áherslu á að skapa skilyrði fyrir aukinn hreyfanleika. Á vettvangi landanna verður að styrkja hið norræna sjónarhorn á þeim málefnasviðum sem við á.   
Til þess að efla samþættingu á Norðurlöndum verða viðeigandi upplýsingar fyrir Norðurlandabúa sem vilja búa, starfa eða stunda nám í öðru norrænun landi að vera aðgengilegar. Sem dæmi um aðgerðir má nefna styrk Norrænu ráðherranefndarinnar vegna upplýsingagjafar til íbúa og fyrirtækja sem meðal annars fer fram í gegnum upplýsingaþjónustur landamærasvæðanna og Info Norden. Þær stuðla að því að Norðurlandabúar fái upplýsingar þvert á landamæri ásamt leiðbeiningum á sínu eigin máli og á ensku ásamt því að tilkynna um stjórnsýsluhindranir. 
Borgarasamfélagið er grundvallarstoð í grasrót norræns samstarfs. Nánara samstarf norræns borgarasamfélags ýtir undir samþættingu Norðurlanda. Norræna ráðherranefndin styður við borgarasamfélagið á Norðurlöndum, meðal annars með aðgerðum á vegum MR-SAM í tengslum við stuðning við félagasamtök og samstarfsnet. 
Þörf er á því að efla starfið í tengslum við stuðning við borgarasamfélagið með fleiri tækifærum fyrir meðal annars félagasamtök til að sækja um styrki vegna norrænnar starfsemi. 
Réttindi og sjónarmið barna og ungmenna eru mikilvæg í norrænu samstarfi og MR-SAM tryggir meðal annars fjárveitingar sem sérstaklega eru eyrnamerktar þessu málefnasviði og að börnum og ungu fólki sé veitt tækifæri til þess að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta það. 
Eins og stöðu heimsmála er háttað um þessar mundir skiptir öflugra norrænt samstarf á sviði samfélagsöryggis, þar með talið almannavarna og viðnámsþróttar, sköpum fyrir sjálfbær Norðurlönd. Starfið fer fram á ýmsum stigum jafnt innan ramma Norrænu ráðherranefndarinnar sem utan. Samstarf í tengslum við afhendingaröryggi snertir mörg fagsvið. 
Verkefni MR-SAM er að stuðla að skilvirkri upplýsingagjöf og að tekið sé tillit til norrænna sjónarmiða á þessu sviði í ríkisstjórnunum, ásamt því að fylgjast með vinnunni í ráðherranefndunum og á öðrum viðeigandi vettvangi. 
Alþjóðlegt samstarf norrænu ráðherranefndarinnar stuðlar einnig að uppfyllingu framtíðarsýnarinnar. Í samstarfi við skrifstofu ráðherranefndarinnar í Eystrasaltsríkjunum og aðra samstarfsaðila á grannsvæðum Norðurlanda og í öðrum völdum heimshlutum er unnið að sameiginlegum norrænum aðgerðum og verkefnum sem byggjast á norrænum gildum. Þetta samstarf styrkir rödd Norðurlanda á alþjóðavettvangi. 
Þegar Norðurlönd vinna saman og koma fram sem ein heild fá norrænu löndin aukinn sýnileika og slagkraft á alþjóðavettvangi. Með því að kynna Norðurlönd sem svæði í alþjóðlegum verkefnum þar sem norræn sendiráð vinna með einkageiranum skapast forsendur fyrir samlegðaráhrifum í þágu samkeppnishæfra Norðurlanda til langs tíma.
Það þarf að vera einfalt að búa, stunda nám og vinnu og reka fyrirtæki á öllum Norðurlöndum og þvert á landamæri