Fara í innihald

Formáli 

Hugsjónin um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 er leiðarhnoða í allri starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. Samstarfsráðherrarnir hafa yfirumsjón með skipulagi þeirrar vinnu sem á að leiða til að framangreind markmið náist auk þess sem þeir eiga að sjá til þess að mismunandi svið vinni saman, fjallað sé um norræn málefni í ríkisstjórnum aðildarlandanna og fylgt eftir áformum ráðherranefndarinnar.  
Samstarfsáætlun MR-SAM, ráðherranefndar samstarfsráðherranna, fyrir árin 2025–2030 veitir markvissa leiðsögn um framkvæmdina á komandi árum. Skýrum pólitískum áherslumálum í anda framtíðarsýnarinnar er ætlað að efla aðgerðir og áætlanir á sviði ráðherranefndarinnar sem stuðla að norrænum lausnum, leiða fram nýja og eftirsótta þekkingu og þróa frekar og styðja við mismunandi samstarfsform á norrænum vettvangi. 
Sérstök áhersla er lögð á ráðstafanir sem greiða fyrir hreyfanleika og samþættingu á Norðurlöndum og sést það á því að afnám stjórnsýsluhindrana og upplýsingamiðlun fær meira vægi. Á að vera einfalt að búa, stunda nám og vinnu og reka fyrirtæki alls staðar á Norðurlöndum og þvert á landamærin. Íbúar og fyrirtæki njóta góðs af aukinni samþættingu og þar með löndin sjálf stórt á litið. Mikilvægt er að ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi svo að samkeppnishæfni og hagvöxtur batni en það er forsenda þess að norræn velferð og græn umskipti standi traustum fótum, bæði nú og síðar. 
Öflugur mannlegur félagsskapur er ein af grunnstoðum norræna samfélagsmódelsins. Allt til ársins 2030 verður bætt úr möguleikum almannasamtaka til að bera saman bækur sínar og taka að sér norræn verkefni. Í þessu sambandi er stuðningurinn sem veittur er börnum og ungmennum til að láta að sér kveða í lýðræðislegu samfélagi afar mikilvægur. 
Samstarfsáætlunin var samþykkt í skugga erfiðra úrlausnarefna á alþjóðavettvangi þar sem viðsjár eru miklar og mörgum finnst framtíðarhorfurnar ískyggilegar. Sjaldan hefur öflugt samstarf norrænu landanna og sameiginleg stefnumörkun þeirra um sjálfbæra framtíð skipt jafnmiklu máli og nú um stundir.  
Við samstarfsráðherrarnir hyggjumst sem fyrr viðhalda góðu norrænu samstarfi við nágranna okkar á Eystrasaltssvæðinu, norðurslóðum og Norður-Atlantshafi eins og berlega kemur fram í áhersluatriðum áætlunarinnar.    
Enn fremur vegur þungt það stefnumið að halda úti góðri og traustri upplýsingastarfsemi um norræna samstarfið bæði innan og utan Norðurlanda. Skiptir sköpum að halda áfram að horfa út á við og fram á við til að gæta framþróunar og öryggis landssvæða okkar jafnt í dag sem á morgun. 
portrait.jpg
Jessica Rosencrantz, samstarfsráðherra Norðurlanda og Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar
665489ca9dd46_GS underskrift KE 2023_svart.png
Jessica Rosencrantz
samstarfsráðherra Norðurlanda 
665489ca9dd46_GS underskrift KE 2023_svart.png
Karen Ellemann
framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar