Fara í innihald

Inngangur

Norræna samstarfsráðherranefndin, MR-SAM, ber almenna ábyrgð á samræmingu á starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. Jafnframt ákvarðar MR-SAM pólitískar áherslur í áætlunum og verkefnum sem fjármögnuð eru í gegnum ramma samstarfsráðherranna. Framtíðarsýnin um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 ásamt áherslusviðunum þremur sem lúta að grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum eru leiðarstef í allri starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. 
Almenn ábyrgð MR-SAM nær meðal annars til þess að taka ákvarðanir um: 
  • Almennar pólitískar áherslur í norrænu samstarfi ásamt eftirfylgni með árangri af þeim 
  • Skiptingu fjárveitinga á fjárhagsramma fagsviðanna ásamt fjárhagsforsendum fjárhagsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar 
  • Pólitískar áherslur ásamt skiptingu fjárveitinga á fjárhagsramma MR-SAM 
Í almenni ábyrgð MR-SAM felst einnig að sjá Norrænu ráðherranefndinni fyrir skrifstofuhaldi. Skrifstofan og norrænu stofnanirnar gegna mikilvægu hlutverki til þess að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar. Skrifstofan leggur til þekkingu og gögn fyrir sjálft starfið við að vinna og framkvæma þá stefnu sem samþykkt hefur verið í ráðherra- og embættismannanefndunum.   Stofnanirnar eru mikilvæg tæki til þess að hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem ákveðin hafa verið.  
Skrifstofan og stofnanirnar eiga að bera ábyrgð á því að tryggja rétta og viðeigandi umsýslu opinbers norræns fjár auk markmiða- og árangursstýrðs starfs sem skilar mælanlegum árangri. 
Upplýsingastarf skrifstofunnar og stofnananna skiptir höfuðmáli til þess að miðla upplýsingum um árangur af vinnu norræns samstarfs að framtíðarsýninni, jafnt innan Norðurlanda sem utan þeirra. 
Samstarfsáætlun MR-SAM lýsir þeim hluta af ábyrgðarsviði MR-SAM sem varðar pólitískar áherslur samstarfsráðherranna og markmið fyrir tímabilið 2025–2030 skipt niður á þrjú almenn markmið. Í samræmi við þessi markmið er það sérstakt verkefni og ábyrgð MR-SAM að tryggja samræmda innleiðingu og upplýsingamiðlun varðandi framtíðarsýnina, að vinna að aukinni samþættingu innan Norðurlanda og tryggja norræn sjónarmið bæði innan Norðurlanda og á alþjóðavettvangi. 
Vinnan á þessum þremur sviðum fer fram í gegnum ýmsar áætlanir og aðgerðir. Sem dæmi má nefna vinnuna við að veita almenningi og fyrirtækjum á Norðurlöndum upplýsingar um norrænt samstarf, stuðning við aðila borgaralegs samfélags og samstarf við aðila á grannsvæðum Norðurlanda. 
Jafnframt á MR-SAM að tryggja að tekið sé tillit til hinna þverlægu sjónarmiða um sjálfbæra þróun, jafnrétti og börn og ungmenni og að þau séu rauður þráður í allri starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. 
Í ferlinu við að vinna markmið, undirmarkmið, áætlanir og aðgerðir hefur Norðurlandaráði gefist kostur á að koma með innlegg og tillögur að áherslum á öllum þessum stigum fram að pólitískri ákvörðun um að taka samstarfsáætlunina upp. 
Rætt hefur verið við borgarasamfélagið og aðra viðeigandi aðila, svo sem atvinnulífið og aðila vinnumarkaðarins, þegar það hefur átt við, og þeim gefist færi á að koma að ferlinu á mismunandi stigum, einkum með áherslu á beina útfærslu aðgerða innan þeirra áætlana sem MR-SAM fjármagnar. 
Samstarfsáætlunin er stýrandi skjal við allt starf að áætlunum undir MR-SAM. MR-SAM samþykkti samstarfsáætlunina í september 2024 og gildir hún til 31. desember 2030. 
Samstarfsáætlunin tekur mið af því hlutverki Norrænu ráðherranefndarinnar að leggja sitt af mörkum til þess að uppfylla framtíðarsýn okkar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. 
36447.jpg
Öll starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á að stuðla að því að gera að veruleika framtíðarsýn okkar um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Samstarfsáætlunin lýsir því hvernig fagsviðið ætlar að vinna með stefnumarkandi áherslurnar þrjár.