Gå til indhold

Yfirlýsing
um norræna
málstefnu

flaggor.png

Miklu skiptir fyrir sjálfsmynd okkar hvaða tungumál við tölum, hvernig aðrir skilja okkur og hvernig við skiljum aðra. Enn fremur miðla tungumál, ásamt menningu, sögunni og eru mikilvægasta sameiginlega grunnstoð samfélags okkar. Þau eiga þátt í að skapa samfélag og traust  og efla lýðræði og þátttöku. Af þeim ástæðum er norrænt málsamfélag mikilvægur liður í að styrkja norræna sjálfsmynd og á því þátt í að gera Norðurlönd að samþættasta svæði heims.
Eitthvert skandinavísku tungumálanna er talað á stórum hlutum Norðurlanda en auk þeirra er talaður fjöldi annarra tungumála á þessu fjöltyngda heimssvæði okkar. Við gerum enda öllum tungumálum jafnhátt undir höfði þó svo að hlutverk þeirra kunni að vera mismunandi. Þjóðtungur Norðurlanda, sem notaðar eru í opinberum tilgangi, eru danska, finnska, færeyska, grænlenska, íslenska, norska (bókmál og nýnorska), samísku tungumálin og sænska. Af þessum tungumálum eru samísku málin og grænlenska skilgreind sem tungumál frumbyggja. Þá hafa eftirfarandi tungumál, sökum langrar tilvistar þeirra á Norðurlöndum, sérstaka stöðu sem svæðisbundin minnihlutatungumál: meänkieli kvenska, finnska, samísku málin, rómamálin, jiddíska og þýska. Að auki ber að nefna norrænu táknmálin. Loks hafa fjöldi nýrra tungumála, og þar með móðurmála, tekið sér bólfestu á Norðurlöndum í gegnum tíðina með fólksflutningum frá öðrum málsvæðum. Í skólum læra öll börn og ungmenni ensku og að mismiklu leyti önnur tungumál. Mikilvægt er að við á Norðurlöndum búum yfir mjög góðri færni í tungumálum sem hafa víðtæka útbreiðslu. Fjöltyngi og samhliða tungumálanotkun eiga þátt í að treysta stöðu Norðurlanda á heimsvísuog tryggja framgang sameiginlegrar framtíðarsýnar okkar.
Sem norrænt samfélag er það ósk okkar að varðveita og þróa bæði öll tungumál okkar  og norrænt málsamfélag. Samkvæmt Helsingforssamningnum skulu kennsla og menntun á Norðurlöndum taka til kennslu í tungumálum og um menningu og almennt þjóðfélagsástand í öðrum norrænum löndum, þar á meðal Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum. Við viljum efla sameiginlega þekkingu og skilning á þeim tungumálum sem við tölum, sérstaklega skilning á skandinavísku tungumálunum. Efla skal áhuga barna og ungmenna á norrænum tungumálum og norrænni samvinnu. Það eru þau sem munu þróa norræn samfélög í framtíðinni.
Markmiðið með þessari yfirlýsingu er að hún skuli vera grundvöllur almennrar, umfangsmikillar og virkrar málastefnu til lengri tíma þar sem:
  1. Þjóðtungur á Norðurlöndum standa og halda áfram að standa vel að vígi og vera lifandi.
  2. Þjóðtungurnar halda áfram að vera undirstöðutungumál á öllum sviðum samfélagsins og notaðar áfram á vísindalegum vettvangi.
  3. Áfram er notast við skandinavísku tungumálin í norrænu samstarfi, það er að segja dönsku, norsku og sænsku.
  4. Öll tungumálin á Norðurlöndum haldi velli og þróist á tímum sem einkennast af stafrænni tækni ásamt gervigreind, alþjóðavæðingu og fólksflutningum.
Norræn málastefna kemur til viðbótar við málstefnur einstakra landa og miðar að því að allir Norðurlandabúar:
  1. Geti talað, skilið, lesið og skrifað á því eða þeim tungumálum sem eru undirstöðutungumál þar sem þeir búa, þannig að þeir geti tekið virkan þátt í samfélaginu.
  2. Geti haft samskipti á að minnsta kosti einu skandinavísku tungumáli og hafi næga færni í öðrum skandinavísku tungumálum til að taka þátt í norrænu málsamfélagi.
  3. Hafi tækifæri til að varðveita og þróa móðurmál sitt, tungumál frumbyggja, táknmál og svæðisbundið minnihlutamál.
  4. Hafi aðgang að upplýsingum um tungumálaréttindi og stöðu tungumála á Norðurlöndum.
Markmiðum í þessari yfirlýsingu verður fylgt eftir með starfsáætlunum sem endurskoðaðar verða með reglulegu millibili. Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir og Norræna ráðherranefndin um menningarmál hyggjast búa svo um hnútana að áætlunum þessum verði framfylgt og þær samþykktar og innleiddar á viðkomandi fagsviðum svo að ná megi markmiðum þessarar yfirlýsingar.