Go to content

Samantekt

Á síðustu árum hefur hlutfall eldra fólks af íbúafjölda Norðurlandanna farið hækkandi samfara hækkandi meðalaldri og tiltölulega lágri fæðingartíðni. Fólk á eftirlaunaaldri hefur gjarnan meiri tíma aflögu og er betur stætt fjárhagslega en yngra fólk. Auk þess býr eldra fólk nú alla jafna við betri heilsu en jafnaldrar þess fyrir fáeinum áratugum og þetta fólk býr líka yfir mikilli reynslu og þekkingu sem ótvírætt getur nýst í loftslagsumræðunni. Virk þátttaka eldra fólks í starfi af þessu tagi er til þess fallin að auðga líf þeirra sjálfra og bæta um leið lífsskilyrði komandi kynslóða. Reynslan og þekkingin eru auðlindir sem samfélögin tapa á að nýta ekki.
Með hliðsjón af þeirri þróun sem hér hefur verið lýst ákváðu íslensk stjórnvöld að gera starf eldra fólks að loftslagsmálum að sérstöku áhersluverkefni á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023. Yfirskrift verkefnisins var „Äldre folk och klimat – Nytta för båda två“ (Eldra fólk og loftslagmál – Báðum til gagns), sem vísar annars vegar til þess mikla mannauðs og þeirrar víðtæku þekkingar sem býr í frísku fólki á eftirlaunaaldri og hins vegar til þess gagns sem þetta fólk getur gert í loftslagsumræðunni – í þágu komandi kynslóða.
Verkefnið sem hér um ræðir var sem fyrr segir hluti af formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og var því eðli málsins samkvæmt fjármagnað að langmestu leyti af ráðherranefndinni. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stýrði verkefninu fyrir Íslands hönd í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Háskóli þriðja aldursskeiðsins (u3a) var hafður með í ráðum í undirbúningi verkefnisins og ráðgjafarfyrirtækið Environice (Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.) var fengið til að leiða verkefnið og sjá um framkvæmd á einstökum þáttum þess.

Verkefnið

Verkefnið sem um ræðir er fyrsta norræna verkefnið á þessu sviði. Markmið voru í aðalatriðum þessi:
  1. Kortleggja núverandi starfsemi og tengslanet í hverju landi .
  2. Bjóða upp á norrænan vettvang til að skiptast á hugmyndum og innblæstri.
  3. Kanna hvernig efla megi og viðhalda norrænu samstarfi eldra fólks í loftslagsmálum.
  4. Gefa ráðleggingar til norrænna ríkisstjórna um hvers vegna og hvernig þær ættu að styðja við hópa aldraðra sem einbeita sér að loftslagsmálum.
  5. Stuðla að langvarandi líkamlegri og andlegri heilsu.
Verkefnið hófst í mars 2023 og samanstóð af þremur verkþáttum. Fyrsti áfanginn fólst í að k0rtleggja loftslagstengda hópa og starfsemi eldra fólks í hverju Norðurlandanna um sig. Áfangaskýrsla með niðurstöðum þessa verkþáttar kom út sem vinnuskjal í byrjun júlí. Í stuttu máli sýndi hún að hópar eldra fólks, sem einbeita sér að loftslagsmálum, eru nú þegar virkir í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Margir þessara hópa leggja áherslu á hlutverk ömmu og afa gagnvart barnabörnum sínum, eins og lesa má úr nöfnum sumra hópanna. Einn hópur í hverju landi er virkur í nýlegu og vaxandi tengslaneti fyrir evrópska afa og ömmur sem vinna í þágu loftslagsmála.
Ingibjörg Ólöf Benediktsdóttir og Stefán Gíslason (2023).

Málstofan

Annar áfangi verkefnisins var málstofa um aldraða og loftslagsmál, sem haldin var í Reykjavík 27.–28. september 2023. Þangað var boðið fulltrúum allra þeirra félagasamtaka og hópa sem upplýsingar fengust um í fyrsta hluta verkefnisins, nánar tiltekið u.þ.b. tveimur þátttakendum frá hverju Norðurlandanna, auk utanaðkomandi aðila, annað hvort til að halda fyrirlestur eða taka þátt í pallborðsumræðum. Markmið málstofunnar var að búa til vettvang til að miðla reynslu eldra fólks í loftslagsmálum og skapa umræðu um það hvernig stjórnvöld á Norðurlöndunum gætu ýtt undir starf aldraðra Norðurlandabúa að loftslagsmálum. Málstofan var þar að auki öllum opin án endurgjalds og þar sem löng ferðalög til málstofunnar þóttu vera á skjön við umfjöllunarefnið var fólki einnig boðið að fylgjast með í streymi.
Þátttakendur í málstofunni voru samtals 41, auk þeirra sem tóku þátt á netinu. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heiðraði samkomuna með því að flytja ávarp við opnun hennar. Að því loknu voru nokkur framsöguerindi, pallborðsumræður og hópavinna á dagskrá. Málstofan stóð frá hádegi á miðvikudegi til hádegis á fimmtudegi og í lok hennar var þátttakendum boðið í kynnisferð um Reykjanesskagann, þar sem m.a. gaf að líta fjölmörg merki um jarðfræðilega virkni svæðisins.
Eldri borgarar frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Íslandi og Færeyjum sóttu málstofuna auk aðalfyrirlesara frá svissneska hópnum Klimaseniorinnen Schweiz. Árið 2016 ákærðu samtökin svissnesk yfirvöld fyrir aðgerðarleysi í loftslagsmálum, sem samtökin töldu vera brot á skyldu ríkisstjórnarinnar til að vernda líf, heimili og fjölskyldur svissneskra ríkisborgara. Eftir að málinu hafði í þrígang verið vísað frá svissneskum dómstólum ákváðu samtökin að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Dómstóllinn samþykkti að taka málið til efnislegrar meðferðar og er gert ráð fyrir að úrskurður geti hugsanlega legið fyrir í lok ársins.
Íslenskir og færeyskir þátttakendur í málstofunni sýndu því starfi sem þegar hefur farið fram í hinum löndunum fjórum mikinn áhuga. Að málþinginu loknu hafa verið haldnir óformlegir fundir til að undirbúa hugsanlega stofnun slíkra hópa í báðum löndum, en fram til þessa hafa engir loftslagstengdir hópar aldraðra verið starfandi þar.
Ljóst var á málstofunni að þátttaka í loftslagstengdu starfi hefur gefið daglegu lífi margs eldra fólks aukinn tilgang, enda kom fram að gefandi væri að berjast fyrir því að heimurinn verði betri staður fyrir barnabörnin og komandi kynslóðir almennt, ekki síst þegar fólk gæti nýtt menntun sína og reynslu í þeim tilgangi. Greinilegt var að eldra fólkið var innblásið af loftslagsbaráttu yngri kynslóða. Fram kom að mikilvægt væri að vera sýnileg í mótmælum en einnig að vinna á bak við tjöldin með stjórnmálamönnum að breytingum á lögum og reglum. Þátttakendur voru sammála um að góður grundvöllur væri fyrir norrænu tengslaneti eldri loftslagssinna.

Niðurstöðurnar

Þriðji áfangi verkefnisins fólst í því að taka saman skýrslu með grunnupplýsingum, samantekt frá málstofunni og ráðleggingum til stjórnvalda á Norðurlöndunum um það sem þau gætu gert til að styðja við starf eldra fólks á sviði loftslagsmála. Sú skýrsla birtist hér.
Draga má mikilvægustu skilaboð verkefnisins saman í eftirtalin atriði:
  1. Eldra fólki á Norðurlöndum fer fjölgandi. Nú eru um 15–23% norrænu þjóðanna eldri en 65 ára og stór kynslóð nálgast eftirlaunaaldur. Þessi kynslóð mun líklega breyta því hvernig starfslok líta út. Lífslíkur þessara hópa eru meiri en fyrri kynslóða, menntunarstig þeirra er hærra og heilsa þeirra að öllum líkindum betri en margra fyrri kynslóða. Þarfir þessara hópa fyrir virkni og farsæla öldrun verða aðrar en áður og hæfni til að nýta nýja tækni í samskiptum meiri og mikilvægari en verið hefur. Þessu til viðbótar hefur fólk á þessum aldri alla jafna meiri frítíma og er betur sett fjárhagslega en yngra fólk.
  2. Sjálfboðastarf aldraðra í loftslagsmálum er hagkvæmt fyrir það sjálft, vegna þess að þátttaka í slíku starfi heldur fólki virku og bætir þar með líkamlega og andlega heilsu þess. Þetta mun væntanlega hafa í för með sér lægri kostnað í heilbrigðiskerfinu.
  3. Sjálfboðaliðastarf aldraðra í loftslagsmálum er hagkvæmt fyrir stjórnvöld í viðkomandi landi þar sem þessi hópur er dýrmæt uppspretta þekkingar og reynslu sem stjórnvöld geta nýtt sér í loftslagstengdri stefnumótun og ákvarðanatöku. Jafnvel er hægt að þýða þessa auðlind yfir í krónur og aura, þar sem þekking er alla jafna hvorki ótakmörkuð né ókeypis.
  4. Sjálfboðastarf aldraðra í loftslagsmálum er hagkvæmt fyrir loftslagið, þar sem það er líklegt til að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda og minni þörf fyrir aðlögunaraðgerðir á komandi árum. Betra loftslag og betri lífskjör komandi kynslóða eru í raun samheiti. Líklegt er að þetta öfluga starf aldraðra í loftslagsmálum leiði til minni útgjalda vegna aðlögunar á næstu árum og áratugum.
  5. Atriðin hér að framan eru helstu ástæður þess að stjórnvöld ættu að styðja sjálfboðaliðastarf aldraðra í loftslagsmálum.

Ráðleggingar til norrænna stjórnvalda

Meginniðurstöður málstofunnar felast í eftirfarandi ráðleggingum til stjórnvalda á Norðurlöndunum um það hvernig þau ættu að styðja við starf aldraðra í loftslagsmálum:
  1. Ráðleggingar til stjórnvalda á landsvísu:
    1. Veita loftslagstengdum hópum eldra fólks fjárhagslegan stuðning, á borð við þann sem BKA í Noregi hafa fengið, til að auðvelda þeim að samræma störf sín á landsvísu og gera þeim kleift að eiga samstarf við kollega sína á öðrum Norðurlöndum og utan Norðurlandanna.
    2. Bjóða þessum hópum til samræðna/samráðs, svo sem við gerð opinberrar loftslagsstefnu, loftslagsáætlana, laga og reglugerða.
    3. Efla menntun til sjálfbærni fyrir allar kynslóðir með því að efla og styðja við tengsl milli kynslóða, einkum milli eldra fólks og ungmenna.
    4. Skapa eða útvega vettvang fyrir athafnir, fundi og mótmæli á vegum loftslagstengdra hópa eldra fólks.
  2. Ráðleggingar til Norrænu ráðherranefndarinnar:
    1. Bjóða loftslagstengdum hópum aldraðra á norræna fundi og námskeið til að njóta góðs af þekkingu þeirra og reynslu og gefa þeim rödd í umræðunni.
    2. Skipuleggja árlegar norrænar loftslagsráðstefnur í því skyni að skapa vettvang fyrir ný tengsl og útbreiðslu þekkingar og hugmynda.
    3. Veita fjárhagsaðstoð til að byggja upp grunn fyrir samræmda miðlun upplýsinga, svo sem í gegnum norræna vefsíðu, vefnámskeið o.s.frv.
    4. Styðja samhæfingu verkefna á norrænum vettvangi með þátttöku loftslagstengdra hópa aldraðra á öllum Norðurlöndunum.
    5. Greina tækifæri til gera loftslagsstarf norrænna hópa eldra fólks sýnilegt utan Norðurlandanna til að styrkja og varðveita stöðu Norðurlandanna sem frumkvöðla á þessu sviði.
    6. Íhuga stofnun „Norðurlandaráðs fyrir aldraða og loftslagsmál“.