Go to content

5. Meginniður­stöður, umræða og lokaorð

Meginniðurstöður verkefnisins sem hér um ræðir felast í raun í þeim ráðleggingum til stjórnvalda sem fram koma í kaflanum hér að framan (kafla 4.3.2) varðandi það hvers vegna og hvernig þau ættu að styðja við sjálfboðavinnu eldri loftslagssinna og hvernig efla megi norrænt samstarf í þessum málum og viðhalda því.
Í erindum og umræðum á málstofu verkefnisins (sbr. kafla 4) endurspeglaðist hversu mikið eldra fólk hefur í raun fram að færa hvað loftslagsmál varðar, þar sem í þessu fólki býr mikil uppsöfnuð þekking og reynsla, auk þess sem það hefur alla jafna rýmri tíma og er betur sett fjárhagslega en yngri sjálfboðaliðar. Með því að virkja eldra fólk í sjálfboðavinnu í loftslagsmálum er jafnframt verið að bæta lífsgæði fólks, bæði andlega og líkamlega. Líkamlega hliðin styrkist í hvers konar verkefnum, þ.m.t. í mótmælaaðgerðum, og fólki líður betur andlega ef það notar tímann sinn í eitthvað sem gerir heiminn að betri stað fyrir komandi kynslóðir. Í þessu starfi getur fólk einnig nýtt sér menntun sína þó svo að það sé hætt að vinna. Allt þetta stuðlar að bættri lýðheilsu eldra fólks og er þannig til þess fallið að lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu.
Þátttakendur í málstofunni voru sammála um að grundvöllur væri fyrir norrænu samstarfsneti fyrir eldri loftslagssinna. Hóparnir gætu lært mikið hverjir af öðrum og auk þess standi hópar og samtök alla jafna sterkari saman en hver fyrir sig. Ætla má að það virki mjög hvetjandi fyrir fólki í hópum og samtökum af þessu tagi að fá tækifæri til að kynnast vinnu annarra á svipuðu sviði. M.a. þess vegna gæti norrænt samstarfsnet verið mjög til þess fallið að styðja við þetta starf. Þar væri m.a. hægt að bjóða upp á netfundi og námskeið, halda sambandi og sinna sameiginlegum verkefnum.
Með verkefninu í heild, og þá sérstaklega málstofunni, varð til vettvangur fyrir tengslamyndun. Þar hófust samtöl um nýja samstarfsmöguleika og þátttakendur fengu innblástur hverjir frá öðrum. Í tölvupóstsamskiptum að málstofunni lokinni kom m.a. fram að hafinn væri undirbúningur að stofnun „Bedsteforældrenes Klimaaktion“ í Færeyjum.
Upplýsingar frá Landsfelagi Pensjonista 6. október 2023.
Hópur eldra fólks á Íslandi hefur einnig hist til að ræða hugsanlega stofnun formlegra eða óformlegra samtaka í þá veru og hafa í því skyni m.a. fengið kynningu frá verkefnisstjóra þess verkefnis sem hér um ræðir.
Í öllum hópunum sem störfuðu á málstofu verkefnisins kom fram sú skoðun að stjórnvöld ættu að líta á eldra fólk sem auðlind en ekki sem byrði. Nýting þessarar auðlindar væri bæði stjórnvöldum og eldri íbúum Norðurlandanna til góðs.
Áhugavert er að sjá muninn á áherslum samtaka eldra fólks á Norðurlöndunum, en ólíkir staðhættir, stærð og staðsetning landanna hefur væntanlega mikil áhrif á það hvaða málefni eru talin mikilvægust í hverju landi. Einnig er mikill munur á stærð hópa og samtaka, en þessi munur virðist að mestu óháður íbúafjölda viðkomandi lands. Í Svíþjóð má til að mynda finna fleiri fámenna hópa en í Noregi, þar sem fjölmenn samtök eru í fararbroddi.
Enda þótt litlar upplýsingar hafi komið fram um loftslagsstarf eldra fólks á Grænlandi og Álandseyjum, kann vel að vera að einhver slík starfsemi sé í gangi á þessum svæðum. Ástæðan fyrir skorti á slíkum samtökum eða hópum gæti stafað af strjálbýli eða fámenni. Ljóst er að þátttaka fulltrúa frá Færeyjum í málstofunni sem sagt er frá í þessari skýrslu hefur ýtt undir frekara samstarf eldra fólks í Færeyjum á sviði loftslagsmála. Svipað má segja um Ísland, þar sem umræður í þessa veru fóru á skrið eftir málstofuna.
Draga má mikilvægustu skilaboð verkefnisins saman í eftirtalin atriði:
  1. Eldra fólki á Norðurlöndum fer fjölgandi. Nú eru um 15–23% norrænu þjóðanna eldri en 65 ára og stór kynslóð nálgast eftirlaunaaldur. Þessi kynslóð mun líklega breyta því hvernig starfslok líta út. Lífslíkur þessara hópa eru meiri en fyrri kynslóða, menntunarstig þeirra er hærra og heilsa þeirra er að öllum líkindum betri en margra fyrri kynslóða. Þarfir þessara hópa fyrir virkni og farsæla öldrun verða aðrar en áður og hæfni til að nýta nýja tækni í samskiptum meiri en verið hefur. Þessu til viðbótar hefur fólk á þessum aldri alla jafna meiri frítíma og er betur sett fjárhagslega en yngra fólk.
  2. Sjálfboðastarf aldraðra í loftslagsmálum er hagkvæmt fyrir það sjálft, vegna þess að þátttaka í slíku starfi heldur fólki virku og bætir þar með líkamlega og andlega heilsu þeirra. Þetta mun væntanlega hafa í för með sér lægri kostnað í heilbrigðiskerfinu.
  3. Sjálfboðaliðastarf aldraðra í loftslagsmálum er hagkvæmt fyrir stjórnvöld í viðkomandi landi þar sem þessi hópur er dýrmæt uppspretta þekkingar og reynslu sem stjórnvöld geta nýtt sér í loftslagstengdri stefnumótun og ákvarðanatöku. Jafnvel er hægt að þýða þessa auðlind yfir í krónur og aura, þar sem þekking er alla jafna hvorki ótakmörkuð né ókeypis.
  4. Sjálfboðastarf aldraðra í loftslagsmálum er hagkvæmt fyrir loftslagið, þar sem það er líklegt til að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda og minni þörf fyrir aðlögunaraðgerðir á komandi árum. Betra loftslag og betri lífskjör komandi kynslóða eru í raun samheiti. Líklegt er að þetta öfluga starf aldraðra í loftslagsmálum muni leiði til minni útgjalda en ella á næstu árum og áratugum.
  5. Atriðin hér að framan eru helstu ástæður þess að stjórnvöld ættu að styðja sjálfboðaliðastarf aldraðra í loftslagsmálum.