Go to content

Formáli

Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2023 og í tilefni af því hafði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið frumkvæði að norrænu verkefni með það að meginmarkmiði að kortleggja og styrkja starf eldra fólks á Norðurlöndunum í loftslagsmálum. Hugmyndin byggði m.a. á þeirri vitneskju að hópar aldraðra í Svíþjóð hefðu beitt sér á þessu sviði og þeirri trú að hægt væri að efla þessa starfsemi enn frekar með því að tengja saman fleiri hópa á öllum Norðurlöndunum, þ.m.t. á Íslandi.
Á síðustu árum hefur hlutfall eldra fólks af íbúafjölda Norðurlandanna farið hækkandi samfara hækkandi meðalaldri og tiltölulega lágri fæðingartíðni. Fólk á eftirlaunaaldri hefur gjarnan meiri tíma aflögu og er betur stætt fjárhagslega en yngra fólk. Auk þess er eldra fólk nú alla jafna við betri heilsu en jafnaldrar þess voru fyrir fáeinum áratugum og þetta fólk býr líka yfir mikilli reynslu og þekkingu sem ótvírætt getur nýst í loftslagsumræðunni. Virk þátttaka eldra fólks í starfi af þessu tagi er til þess fallin að auðga líf þeirra sjálfra og bæta um leið lífsskilyrði komandi kynslóða. Reynslan og þekkingin eru auðlindir sem samfélögin tapa á að nýta ekki.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið er eðli málsins samkvæmt ráðuneyti loftslagsmála á Íslandi. Hins vegar fer félags- og vinnumarkaðsráðuneytið með málefni aldraðra og því var ákveðið að ráðuneytin myndu vinna sameiginlega að verkefninu. Stærstur hluti fjármögnunarinnar kom frá Norrænu ráðherranefndinni í tengslum við formennskuáætlun Íslands.
Verkefnið sem hér um ræðir er fyrsta norræna verkefnið á þessu sviði. Verkefnið leggur sitt af mörkum til framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2030, sérstaklega til að fylgja eftir stefnu um græn Norðurlönd og um félagslega sjálfbær Norðurlönd. Um leið stuðlar verkefnið að því að Norðurlöndin nálgist þau tólf meginmarkmið sem Norræna ráðherranefndin hefur sett fyrir tímabilið 2021–2024.
Verkefnið var allt unnið á árinu 2023 og skiptist í þrjá verkhluta. Í fyrsta lagi var tekið saman yfirlit yfir aðila, samstarf og verkefni eldra fólks á Norðurlöndunum á sviði loftslagsmála, í öðru lagi var haldin norræn málstofa um eldra fólk og loftslagsmál og í þriðja lagi var tekin saman lokaskýrsla með grunnupplýsingum, samantekt frá málstofunni og ráðleggingum til stjórnvalda um aðgerðir til að styðja samstarf eldra fólks á Norðurlöndunum á sviði loftslagsmála. Sú skýrsla birtist hér.
Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) sá um framkvæmd verkefnisins samkvæmt samningi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, auk annarra aðila.
Hvanneyri í nóvember 2023
Stefán Gíslason, framkvæmdastjóri Environice