Go to content

1. Inngangur

Fjölmennar kynslóðir nálgast nú eftirlaunaaldur og eru líklegar til að breyta ásýnd hans. Lífslíkur þessara hópa eru meiri en kynslóðanna á undan, menntunarstig hærra og heilsa væntanlega betri en hjá mörgum fyrri kynslóðum. Þörf þessara hópa fyrir virkni og farsæla öldrun verður önnur en áður og ekki síst verður leikni til notkunar á nýrri tækni í samskiptum mun meiri og mikilvægari en hún hefur verið.
Stór hluti sjálfboðaliða er fólk á eftirlaunaaldri, enda hefur fólk á þessum aldri gjarnan meiri tíma aflögu og er betur stætt fjárhagslega en yngra fólk. Á síðustu áratugum hefur eldri sjálfboðaliðum auk heldur fjölgað mikið samfara auknum lífslíkum og batnandi heilsu eldri kynslóða. Nýjustu tölur frá Vive, rannsókna- og greiningarmiðstöð velferðar í Danmörku, sýna að 28% fleiri 67 ára og eldri og 43% fleiri 77 ára og eldri vinna sjálfboðavinnu í dag en fyrir 20 árum.
De Frivilliges Hus (2022).
Stór hluti þessara sjálfboðaliða er vel stætt fólk með langa menntun að baki og við tiltölulega góða heilsu. Fólk yfir 65 ára aldri er alla jafna mun heilbrigðara, útsjónarsamara og virkara nú en jafnaldrar þess voru fyrir 20 árum, sérstaklega á fyrstu árunum eftir verklok á vinnumarkaði. Á sama tíma hafa hugmyndir samfélagsins um ellina breyst. Hugmyndinni um að þú eigir að gera gagn, ekki bara fyrir þig og fjölskylduna heldur líka fyrir samfélagið, hefur vaxið fiskur um hrygg síðan á tíunda áratugnum. Þetta endurspeglast í sjálfboðavinnunni sem lífeyrisþegar stunda í auknum mæli.
Sjálfboðaliðar fást við ýmis verkefni, en á allra síðustu árum hafa æ fleiri slíkir hópar látið til sín taka í umræðum um loftslagsmál. Að einhverju leyti sækir það starf innblástur til sænsku baráttukonunnar Gretu Thunberg, en það sem rekur fólk fyrst og fremst til að taka þátt í verkefnum á þessu sviði eru síversnandi framtíðarhorfur í ljósi þess hversu hægt hefur gengið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá athöfnum manna á jörðinni. Baráttufólk í loftslagsmálum er á öllum aldri, en á síðustu misserum hefur eldra fólk orðið sífellt meira áberandi á þessu sviði, ekki síst á Norðurlöndunum og í öðrum löndum Vestur-Evrópu.
Með hliðsjón af þeirri þróun sem hér hefur verið lýst ákváðu íslensk stjórnvöld að gera starf eldra fólks að loftslagsmálum að sérstöku áhersluverkefni á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023. Yfirskrift verkefnisins var „Äldre folk och klimat – Nytta för båda två“ (Eldra fólk og loftslagmál – Báðum til gagns), sem vísar annars vegar til þess mikla mannauðs og þeirrar víðtæku þekkingar sem býr í frísku fólki á eftirlaunaaldri og hins vegar til þess gagns sem þetta fólk getur gert í loftslagsumræðunni – í þágu komandi kynslóða.
Verkefnið sem hér um ræðir var sem fyrr segir hluti af formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og var því eðli málsins samkvæmt fjármagnað að langmestu leyti af ráðherranefndinni. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stýrði verkefninu fyrir Íslands hönd í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Háskóli þriðja aldursskeiðsins (u3a) var hafður með í ráðum í undirbúningi verkefnisins og ráðgjafarfyrirtækið Environice (Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.) var fengið til að leiða verkefnið og sjá um framkvæmd á einstökum þáttum þess.
Samkvæmt verkefnislýsingu gekk verkefnið sem hér um ræðir út á að efla samstarf milli hópa eldra fólks á Norðurlöndunum á sviði loftslagsmála. Verkefnið náði til allra landa og landsvæða sem eiga aðild að Norrænu ráðherranefndinni, þ.e.a.s. Norðurlandanna fimm (Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar) og sjálfstjórnarsvæðanna þriggja (Álandseyja, Færeyja og Grænlands). Ekki tókst þó að tryggja fulla virkni Álandseyja og Grænlands í verkefninu. Markmið verkefnisins var að virkja fleira eldra fólk í loftslagsmálum með því að skapa norrænan vettvang fyrir hugmyndaskipti, tengslanet, innblástur og góðar fyrirmyndir og stuðla um leið að varanlegri líkamlegri og andlegri heilsu þátttakenda.
Verkefninu var skipt upp í þrjú skref eða verkþætti:
  1. Taka saman yfirlit yfir aðila, samstarf og verkefni eldra fólks á Norðurlöndunum á sviði loftslagsmála.
  2. Undirbúa, boða til og sjá um norræna málstofu um eldra fólk og loftslagsmál.
  3. Taka saman skýrslu með grunnupplýsingum, samantekt frá málstofunni og ráðleggingum til stjórnvalda á Norðurlöndunum um það sem þau gætu gert til að styðja við starf eldra fólks á sviði loftslagsmála.
Sú skýrsla sem hér birtist hefur að geyma afrakstur verkefnisins, en áður hafði verið gefið út vinnuskjal (áfangaskýrsla) með helstu niðurstöðum fyrsta verkhlutans.
Ingibjörg Ólöf Benediktsdóttir og Stefán Gíslason (2023).
Upplýsingar sem þar komu fram hafa verið felldar inn í þessa skýrslu.
Skýrslan sem hér birtist er þannig upp byggð að í 2. kafla er gefið yfirlit yfir samstarf eldra fólks á Norðurlöndunum á sviði loftslagsmála (í raun endurbætt útgáfa áfangaskýrslu), í 3. kafla er fjallað stuttlega um evrópskt tengslanet sem loftslagshópar aldraðra í álfunni eru að byggja upp, í 4. kafla er greint frá málstofu verkefnisins sem haldin var í Reykjavík 27.–28. september 2023 og í 5. kafla eru meginniðurstöðurnar dregnar saman. Þar er m.a. að finna ráðleggingar til stjórnvalda á Norðurlöndunum um það sem þau gætu gert til að styðja við starf eldra fólks á sviði loftslagsmála. Aftast í skýrslunni er síðan heimildaskrá, auk viðauka með yfirliti yfir þátttakendur í málstofu o.fl.