Go to content

2. Samstarf eldra fólks á sviði loftslags­mála

Í þessum kafla er að finna samantekt yfir helstu hópa eldra fólks á Norðurlöndunum sem hafa látið loftslagsmál til sín taka, hvort sem um er að ræða formleg samtök eða óformlegar grasrótarhreyfingar. Samantekin er í öllum aðalatriðum sú sama og birtist í áfangaskýrslu fyrsta hluta verkefnisins.
Ingibjörg Ólöf Benediktsdóttir og Stefán Gíslason (2023).

2.1 Noregur

Í Noregi búa um 5,5 milljónir manns, þar af 18,1% 65 ára og eldri samkvæmt tölum frá 2021.
Trading Economics (2021).
Norðmenn hafa vaxandi áhyggjur af loftslagsbreytingum samkvæmt könnun sem gerð var fyrir háskólann í Bergen. Könnunin hefur verið gerð reglulega síðan 2013 og í fyrsta skipti í tíu ár kvaðst nú meira en helmingur þátttakenda 63ja ára og eldri vera „áhyggjufullur“ eða „mjög áhyggjufullur“. Niðurstöður könnunarinnar sýna jafnframt að áhyggjur aukast mest meðal fólks yfir sextugu.
Besteforeldrenes klimaaksjon (2022).

2.1.1 Besteforeldrenes klimaaksjon (BKA)

Besteforeldrenes klimaaksjon (BKA) eru mjög virk og fjölmenn samtök sem töldu samtals 6.870 meðlimi í janúar 2023. Samtökin voru stofnuð árið 2006 og hafa síðan stækkað ár frá ári. Meðlimir greiða félagsgjöld sem standa undir launum starfsfólks við almennt utanumhald og skipulag á fræðslu og viðburðum.
Besteforeldrenes klimaaksjon (2023).
Í Noregi fá umhverfisverndarsamtök styrk frá ríkinu ef 5.000 manns eða fleiri greiða félagsgjöld. Þetta þýðir að nú fær BKA árlegt framlag á fjárlögum norska ríkisins.
BKA er með 17 staðbundna hópa í Noregi frá Alta og Tromsø í Norður-Noregi og Bergen á vesturströndinni til Kristiansands í suðri. Mikil virkni er í hópunum og þeir hafa víða verið með upplýsingabása þar sem hópfélagar tala við fólk, gefa því upplýsingaefni og leita að nýjum meðlimum.
BKA er með mjög skýra stefnu og með því að innheimta félagsgjald hafa samtökin ráð á að setja fé í markaðssetningu og hin ýmsu málefni sem þau vilja styrkja. Samtökin vilja meðal annars stuðla að lífstíl sem leiðir til minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Þau vilja að norsk stjórnvöld tryggi að íbúarnir verði hluti af lausn loftslagsvandans (eins og segir í 12. grein Parísarsamkomulagsins), að stuðlað verði að minni notkun jarðefnaeldsneytis og að öll olíu- og gasleit við Noreg verði stöðvuð og vinnslu hætt. Á heimasíðu samtakanna má m.a. finna fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál, upplýsingar um undirhópa samtakanna víðsvegar um Noreg og skýrslur frá þeim árs- og landsstjórnarfundum sem haldnir hafa verið.
BKA er hluti af evrópsku tengslaneti eldra fólks sem lætur til sín taka í loftslagsmálum (sjá síðar).

2.1.2 Norges naturvernforbund

Innan norsku náttúruverndarsamtakanna Norges naturvernforbund er starfræktur ungmennahópur fyrir yngri meðlimi samtakanna, en ekkert sérstakt starf er þar í gangi fyrir elstu meðlimina. Engu að síður er eldra fólk áberandi innan samtakanna, enda hefur eldra fólk gjarnan rýmri tíma en aðrir til að sinna sjálfboðastarfi.
Naturvernforbundet (2023).

2.2 Svíþjóð

Í Svíþjóð búa um 10,2 milljónir manns, þar af 20,2% 65 ára og eldri samkvæmt tölum frá 2022.
Knoema (2022d).
Svíar eru mjög meðvitaðir um loftslagsmál og hafa auknar áhyggjur af loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra. Tveir af hverjum þremur íbúum Svíþjóðar eru þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn þurfi að gera meira til að takmarka loftslagsbreytingar og meira en helmingi íbúa finnst þurfa að setja þak á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í Svíþjóð. Áhyggjur eldri íbúa (65–79 ára) hafa sérstaklega aukist á síðustu árum, en um 63% þeirra hugsa um loftslagsbreytingar og áhrif gróðurhúsalofttegunda a.m.k. einu sinni í viku.
Gustaf Lind (2022).
Margir umhverfis- og loftslagshópar eru starfandi í Svíþjóð og margir slíkir hafa verið stofnaðir síðasta árið.
Sofie Björck (2022).
Vitund um loftslagsbreytingar virðist aukast hratt, jafnt hjá ungum Svíum sem öldnum, væntanlega m.a. vegna áhrifa frá Gretu Thunberg. Það sem byrjaði sem eins manns verkfall árið 2018 er í dag orðið að Fridays for Future (Föstudagar fyrir framtíðina), alþjóðlegri hreyfingu sem beinir athygli að loftslagsmálum og aðgerðum sem þarf að sinna á því sviði. Margir hópanna deila sömu hugmyndafræði og hittast á föstudögum til að mótmæla loftslagsbreytingum og aðgerðaleysi stjórnvalda.

2.2.1 Gretas Gamlingar

Gretas gamlingar eru umhverfisverndarsamtök eldra fólks með 1.300–2.500 meðlimum. Nafnið vísar til Gretu Thunberg, en meðlimir samtakanna vilja sýna að ungir og aldnir hafi sameiginlegar áherslur í loftslagsmálum. Samtökin taka þátt í alls kyns starfi til að vekja athygli á loftslagsógninni og hvetja til úrbóta. Gretas gamlingar eru með í Fridays for Future, þar sem þau hittast einu sinni í viku og mótmæla aðgerðaleysi stjórnmálamanna í loftslagsmálum.
Gretas Gamlingar (2023).

2.2.2 Grandparents for Future

Samtökin Grandparents for Future í Svíþjóð voru stofnuð sem Facebookhópur í desember 2018 og telja nú um 850 manns. Hópurinn er óformlegur og hefur hvorki stjórn, félagaskrá né sjálfstæðan fjárhag. Félagar í hópnum standa fyrir alls kyns viðburðum, bæði á netinu og í raunheimum, þ.á m. „coaching“, mótmælum, fjölbreyttum fyrirlestrum og fræðslu. Hópurinn álítur að orðin afi og amma hafi sérstakt gildi til að undirstrika ábyrgð eldri kynslóða á þeim heimi sem afkomendur þeirra munu taka við og lifa í. Fólk getur þó tekið fullan þátt í starfinu án þess að eiga barnabörn. Grandparents for Future styðja Gretu Thunberg og Fridays for Future.
Grandparents for Future (2023).

2.2.3 Grand Panthers

Grand Panthers eru samtök eldra fólks sem mótmælir aðgerðaleysi í loftslagsmálum einu sinni í mánuði. Samtökin hafa ekki einn ákveðinn leiðtoga heldur skiptist fólk á, sumir fara en aðrir koma í staðinn. Þar sem samtökin eru ekki með leyfi til að mótmæla heldur fólk sig eitt eða í litlum hópum í mótmælunum. Fólk úr hópnum reynir að hitta stjórnmálafólk eins oft og verða má til að tjá áhyggjur sínum af loftslagsmálum. Þau deila tengslaneti með KlimatSverige, Fridays for Future, Klimatsvaret og Våra barns klimat sem allt eru samtök sem beita sér fyrir aðgerðum í loftslagsmálum. Grand Panthers eru einnig hluti af evrópsku tengslaneti eldra fólks sem lætur til sín taka á þessu sviði (sjá síðar).
Grand Panthers (2022).

2.2.4 Grandmas for Future

Grandmas for Future er u.þ.b. 20 manna hópur í Katrineholm í Södermanland, suðvestur af Stokkhólmi. Meðlimum hópsins finnast loftslagsverkföll mikilvæg vegna þess að stjórnmálamenn séu ekki að gera nóg til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Þeim finnst dásamlegt að efnt sé til verkfalla út um allan heim en vilja líka sýna það sama heima í Katrineholm. Þau leggja áherslu á að mótmæla í heimabæ sínum til þess að minnka kolefnisspor langra ferðalaga.
Grandmas for Future (2022).

2.3 Finnland

Í Finnlandi búa rúmlega 5,5 milljónir manns, þar af 23,3% 65 ára og eldri samkvæmt tölum frá 2022.
Knomea (2022b).
Í loftslagskönnun sem gerð var af Evrópska fjárfestingabankanum árið 2021 kom í ljós að 73% 65 ára og eldri Finna telja að loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra séu stærsta áskorunin fyrir mannkynið á 21. öldinni. Um það bil 49% svarenda töldu að þeir hefðu meiri áhyggjur af ástandinu í loftslagsmálum en stjórnvöld í landinu. Einnig töldu 49% að landinu muni mistakast að draga úr koldíoxíðlosun sinni um 95% fyrir árið 2050,
European Investment Bank (2021).
eins og fyrirheit eru gefin um í loftslagsstefnu stjórnvalda.
Ympäristöministeriö (á.á.).
Um 70% af þeim sem tóku þátt í könnuninni sögðust hlynnt strangari aðgerðum stjórnvalda til að knýja fram breytingar á hegðun fólks (7% fleiri en í sambærilegri könnun árið áður).
European Investment Bank (2021).

2.3.1 Ilmastoisovanhemmat

Ilmastoisovanhemmat (e. Grandparents for Future) eru samtök sem fylgjast með loftslagsaðgerðum bæði í Finnlandi og á alþjóðavettvangi. Um er að ræða formleg samtök með skipaða stjórn og stjórnarformann, ritara, túlka o.s.frv. Tilgangur samtakanna er að vinna að því að stemma stigu við loftslagsbreytingum og verja líffræðilega fjölbreytni, auk þess að stuðla að siðferðilegu og vistvænu jafnréttissamfélagi. Þau vilja einnig styðja við starfsemi barna og ungmenna og stuðla að réttlæti milli kynslóða.
Ilmastoisovanhemmat dreifa upplýsingum um loftslagsmál, eiga frumkvæði að samfélagsumræðu, skipuleggja mótmæli og viðburði af ýmsu tagi og eru í samstarfi við önnur samtök og aðila sem stefna að sömu markmiðum. Samtökin halda m.a. úti bloggsíðu og eru með bókaklúbb þar sem hist er mánaðarlega á netinu og rætt um bók mánaðarins, sem fjallar alltaf um umhverfismál. Þá standa samtökin fyrir ýmiss konar mótmælum og nota þar skilti á sex tungumálum. Meðal annars er hist og mótmælt á hverjum föstudegi fyrir utan finnska þingið. Samtökin gefa út alþjóðlegt fréttabréf á ensku a.m.k. þrisvar á ári, m.a. með umfjöllun um það sem svipuð samtök í Evrópu eru að gera. Samtökin hvetja stjórnmálamenn til lagabreytinga í þágu loftslagsmála og eru mjög virk á helstu samfélagsmiðlum. Mikið er lagt upp úr alþjóðlegri samvinnu og vitundarvakningu í öðrum löndum.
Ilmastoisovanhemmat (2023).
Þannig er Ilmastoisovanhemmat hluti af evrópsku tengslaneti eldra fólks sem lætur til sín taka í loftslagsmálum (sjá síðar).

2.3.2 Aktivistimummot

Aktivistimummot (e. Activist Grannies) er samstarfsnet fyrir finnskar ömmur (og nokkra afa) sem hefur það að markmiði að berjast gegn loftslagsbreytingum og vernda náttúruna í þeim tilgangi að hafa áhrif á framtíð bæði eigin barnabarna og barnabarna heimsins. Þetta eru ekki opinber samtök, hafa enga félagaskrár, rukka ekkert félagsgjald og starfa að öllu leyti í sjálfboðavinnu.
Nokkrar ömmur tóku sig til árið 2019 og stofnuðu Aktivistimummot. Stækkandi, fjölfaglegur hópur af ömmum vinnur að markmiði hópsins og einstökum undirþemum (#skynsemi og #von) sem stofnömmurnar hafa skilgreint. Hópurinn stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum og einnig er mikið lagt upp úr fræðslu á heimasíðu hópsins, Facebooksíðu og Twitter. Fimmtán til tuttugu manna leiðtogahópur skipuleggur og samhæfir aðgerðir hópsins, en fylgjendur á Facebook skipta þúsundum. Á vefsíðu hópsins kemur fram að þau telji sig „heppin af því að við búum í landi með bestu menntun í heimi og þar af leiðandi líka menntuðustu ömmur í heimi“.
Aktivistimummot (2023).

2.4 Danmörk

Í Danmörku búa um 5,8 milljónir manns, þar af 20,5% 65 ára og eldri samkvæmt tölum frá 2022.
Knoema (2022a).
Sjálfbærni virðist skipta eldri kynslóðir Dana miklu máli. Í könnun sem gerð var meðal rúmlega 1.000 Dana 60 ára og eldri, kom í ljós að yfir 60% hafa mikinn áhuga á loftslagsmálum og sjálfbærni og vilja gjarnan leggja sitt af mörkum til að draga úr mengun. Um 76% svarenda höfðu áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga á komandi kynslóðir.
Line Marie Sommer (2021).

2.4.1 Bedsteforældrenes Klimaaktion

Bedsteforældrenes Klimaaktion er grasrótar- og aktívistahreyfing sem safnar saman þroskuðu fólki á aldrinum 50+, sem hefur áhyggjur af því hvers konar heimi þau eru að skila komandi kynslóðum. Hreyfingin leitast við að breiða út boðskapinn um réttar ákvarðanir í loftslagsmálum og þrýsta á stjórnmálamenn að axla ábyrgð og beita sér fyrir skjótum og áhrifaríkum grænum umskiptum. Hópurinn hittist reglulega í níu borgum víðsvegar um Danmörku þar sem safnast er saman til að mótmæla loftslagsbreytingum, auk þess sem þau taka þátt í námskeiðum og fræðslu um loftslagsmál og standa fyrir fjölbreyttum viðburðum.
Bedsteforældrenes Klimaaktion (2023).

2.4.2 Sammen om verdensmål

Sammen om verdensmål er verkefni 30 bókasafna í Danmörku sem hefur þann tilgang að virkja fólk yfir 60 ára í vinnu í þágu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Verkefnið er fjármagnað af VELUX FONDEN, hófst í febrúar 2021 og lýkur í desember 2023. Boðið er upp á starfsemi á völdum bókasöfnum þar sem íbúar geta hjálpað til við að þróa hugmyndir og lausnir í þeirra eigin bæ sem falla undir heimsmarkmiðin. Markmiðið með starfseminni er að þátttakendur verði virkir gerendur í staðbundnum áhrifum heimsmarkmiðanna. Verkefnið er einnig til þess gert að auka vellíðan og lífsgæði markhópsins þar sem fólk getur nýtt sína eigin hæfileika í nýjum félagsskap, um leið og verkefninu er ætlað að efla virkt og samfélagsskapandi hlutverk fólks 60 ára og eldri.
Sammen om verdensmål (2021).
Verkefnið hefur fengið mjög jákvæða umfjöllun í Danmörku og hafa verið skrifaðar tvær ítarlegar handbækur fyrir bókasafnsstarfsfólk um hvernig má virkja fólk í allskyns verkefnavinnu í þágu heimsmarkmiðanna. Báðar handbækurnar geta sem best nýst fólki utan bókasafnsgeirans.

2.5 Ísland

Á Íslandi búa um 388.000 manns samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 2022. Af þeim eru um 15,3% eldri en 65 ára.
Knoema (2022c).
Þessi hópur verður smátt og smátt meira áberandi í loftslagsumræðunni. Í Umhverfiskönnun Gallup árið 2022 var spurt hvort þátttakendur hefðu miklar, nokkrar, litlar eða engar áhyggjur af hlýnun jarðar. Um 73% svarenda 67 ára og eldri sögðust hafa mjög miklar eða nokkrar áhyggjur af hlýnun jarðar og 47% sögðust hafa áhyggjur af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar gætu haft fyrir þau og fjölskyldur þeirra. Til samanburðar sögðust um 79% af svarendum í aldursflokknum 30–44 ára hafa mjög miklar eða nokkrar áhyggjur af hlýnun jarðar og 62% í þeim aldursflokki sögðust hafa miklar áhyggjur af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar gætu haft fyrir þau og fjölskyldur þeirra. Þá sögðust 56% 67 ára og eldri vilja breyta hegðun sinni mjög mikið eða frekar mikið til að minnka áhrif sín á umhverfi og loftslag.
GALLUP (2022).
Á þessum niðurstöðum má sjá að stór hluti eldra fólks á Íslandi er meðvitaður um loftslagsbreytingar og leiðir hugann að því hvaða áhrif þau sjálf geta haft og því hvernig framtíð fjölskyldna þeirra komi til með að líta út.
Engin samtök eða hópar fyrir eldra fólk sérstaklega helguð loftslagsmálum eru starfandi á Íslandi, en innan U3A á Íslandi (Háskóla þriðja æviskeiðsins) var nýlega stofnaður sérstakur umhverfishópur sem fæst við loftslagsmál og önnur umhverfismál. Loftslagsmál eru einnig til umræðu í fleiri hópum eldra fólks.

2.5.1 Háskóli þriðja æviskeiðsins (U3A)

Háskóli þriðja æviskeiðsins á Íslandi (U3A) eru sjálfstæð félagasamtök sem má rekja til undirbúnings og þátttöku Ingibjargar Rannveigar Guðlaugsdóttur í alþjóðaráðstefnu World U3A í Chitrakoot á Indlandi 2010. Samtökin á Íslandi (U3A Reykjavík) voru stofnuð 2012 og í dag eru meðlimir um 1.300 talsins. Í samræmi við samþykktir sínar hyggjast samtökin stuðla að því að félagsmenn hafi aðgang að fjölbreytilegri fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Einnig vilja samtökin stuðla að virkni og aukinni vitund félagsmanna og samfélagsins alls um mikilvægi þriðja æviskeiðsins, tækifærin sem í því felast og mannauðinn sem í því býr. Fræðslan byggir að mestu á jafningjafræðslu þar sem félagar samtakanna deila með sér þekkingu, reynslu og færni. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná m.a. með því að skipuleggja og sjá um fyrirlestra, ferðir og heimsóknir og með því að efla kynni við aðra innan og utan U3A hreyfingarinnar hvar sem er í heiminum.
Háskóli þriðja æviskeiðsins (á.á.).
Sérstakur umhverfishópur var stofnaður innan U3A Reykjavík haustið 2022 og hefur hann haldið þónokkra fundi síðan. Umhverfishópurinn heldur úti virkri Facebooksíðu og hefur hingað til haldið tvö málþing. Annað þeirra fjallaði um náttúru Íslands og vernd hennar á tímum loftslagsbreytinga og hitt um líffræðilega fjölbreytni og sjálfbærni. Markmið umhverfishópsins er að fræða og upplýsa um það sem ógnar náttúru Íslands, bæði lífríki lands, lífríki ferskvatns, lífríki sjávar og jarðminjum, svo og að vekja athygli á leiðum til umhverfis- og náttúruverndar og efna til aðgerða sem bæta umhverfi og vinna gegn loftslagsvá. Einnig eru félagsmenn hvattir til að láta til sín taka í umhverfismálum almennt, auk þess sem hópurinn birtir hvatningarorð og ábendingar um umhverfisvænan lífsmáta.
U3A Reykjavík hefur ekki beitt sér sérstaklega í loftslagsmálum, en eins og sjá má hér að framan fléttast loftslagsmál á ýmsan hátt inn í viðfangsefni umhverfishóps samtakanna.

2.5.2 Landssamband eldri borgara (LEB)

Landssamband eldri borgara (LEB) eru sjálfstætt starfandi regnhlífarsamtök sem í eru 55 félög eldri borgara á Íslandi með samtals um 30.000 félagsmenn. Sambandið stuðlar að samvinnu félaga eldri borgara og að slík félög séu starfandi í öllum sveitarfélögum landsins.
Landssamband eldri borgara (2021).
LEB hefur ekki beitt sér sérstaklega í umhverfismálum, en árið 2019 komu samtökin að umhverfisverkefni með fjárstyrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og smærri styrkjum frá öðrum aðilum. Þetta átak var í formi þriggja stikla sem sýndar voru í sjónvarpi, á heimasíðum og á vefmiðlum. Stiklurnar hvöttu fólk til að draga úr notkun einnota plastpoka, henda ekki lyfjum í ruslið eða vaskinn og að fara út að plokka rusl.
Við gerð þessarar samantektar var haft samband við þónokkur aðildarfélög LEB víðsvegar um landið til að kanna hvort umhverfismál hefðu verið sérstaklega á dagskrá hjá þeim. Ekkert aðildarfélaganna sem haft var samband við kvaðst hafa unnið með umhverfismál sem málaflokk, að einu félagi undanskildu þar sem fengnir höfðu verið nokkrir fyrirlesarar til að halda erindi um umhverfismál, auk þess sem nýr formaður hugðist setja loftslags- og umhverfismál í fastari forgang.

2.5.3 Vinir íslenskrar náttúru (VÍN)

Vinir íslenskrar náttúru (VÍN) eru frjáls félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.
Vinir íslenskrar náttúru (2022).
Tilgangur félagsins er að fjalla um náttúruverndarmál í íslenskum samtíma með sérstakri áherslu á skaðleg áhrif ágengra og framandi tegunda, og jafnframt að móta tillögur til úrbóta. Félagið heldur fundi, skipuleggur aðgerðir til náttúruverndar og miðlar upplýsingum til almennings í fjölmiðlum og á heimasíðu sinni um neikvæð áhrif framandi tegunda á lífríki og ásýnd íslenskrar náttúru. Einnig veitir félagið umsagnir um áætlanir, m.a. um lagafrumvörp og reglugerðardrög sem tengjast náttúruvernd. Félagið stuðlar að því að réttum og áreiðanlegum upplýsingum sé komið á framfæri, svo sem um kolefnisbindingu og kolefniseiningar. Einnig leggur félagið áherslu á að alþjóðleg vottunarkerfi séu notuð í kolefnisbindingu með viðurkenndum kröfum og viðmiðum sem samtímis taka tillit til íslenskra aðstæðna. Félagið gefur sig ekki út fyrir að vera einungis fyrir eldra fólk, en stór hluti stofnfélaga og greinarhöfundar Vina íslenskrar náttúru eru háskólamenntaðir einstaklingar á eftirlaunum.

2.6 Færeyjar

Í Færeyjum búa um 54.000 manns, þar af 17,9% 65 ára og eldri samkvæmt tölum frá árinu 2021.
The Global Economy (2021).
Við gerð þessarar samantektar fundust engar upplýsingar um samtök eldra fólks í Færeyjum sem beitir sér í loftslagsmálum. Meðal annars var haft samband við félag eldri borgara (Landsfelag Pensjónista) þar sem staðfest var að engir hópar á þeirra vegum væru með loftslagsmál á dagskránni. Vissulega sé til eldra fólk sem beitir sér í umhverfismálum innan náttúruverndarsamtaka, en þar væri ekki um að ræða sérstök samtök eða hópa fyrir þann aldursflokk sem hér um ræðir.
Náttúru- og umhverfissamtök Færeyja (Føroya Náttúru- og Umhvørvisfelag) hafa hingað til ekki boðið upp á sérstakan hóp fyrir þennan aldursflokk en í tengslum við það verkefni sem hér um ræðir kom í ljós að samtökin hafa mikinn áhuga á að stofna slíkan hóp.
Fulltrúar beggja framangreindra samtaka (Landsfelag Pensjónista og Føroya Náttúru- og Umhvørvisfelag) tóku virkan þátt í málstofu sem haldin var í Reykjavík í september 2023 innan ramma þess verkefnis sem fjallað er um í þessari skýrslu, (sjá kafla 4). Í tölvupóstsamskiptum að málstofunni lokinni kom fram að hafinn væri undirbúningur að stofnun „Bedsteforældrenes Klimaaktion“ í Færeyjum.
Upplýsingar frá Landsfelagi Pensjonista 6. október 2023.

2.7 Grænland

Á Grænlandi búa um 56.000 manns, þar af u.þ.b. 9,8% 65 ára og eldri samkvæmt tölum frá 2023.
Statista (2023).
Í tengslum við það verkefni sem hér um ræðir var haft samband við Landssamband eldri borgara á Grænlandi, svo og þarlenda embættismenn sem sinna norrænu samstarfi á sviði umhverfis- og félagsmála. Þrátt fyrir aðstoð þessara aðila fundust ekki vísbendingar um að Grænlendingar á eftirlaunaaldri hefðu myndað hópa sem vinna að loftslagsmálum.

2.8 Álandseyjar

Á Álandseyjum búa rúmlega 30.000 manns og þó að upplýsingar um aldursskiptingu liggi ekki fyrir má ætla að hlutfall fólks 65 ára og eldri af heildaríbúafjöldanum þar sé svipað og annars staðar á Norðurlöndunum. Álandseyjar hafa lengi verið á undan sinni samtíð í umhverfismálum. Árið 2018 settu stjórnvöld á eyjunum sér það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 60% fyrir árið 2030 miðað við árið 2005
Medium (2020).
. Einnig stefna þau á að verða orðin sjálfbær fyrir árið 2051, að stórum hluta með aðstoð vindmylla og með vetnisknúnum ferjum. Við gerð þessarar samantektar fundust engar upplýsingar um samstarf eldra fólks á Álandseyjum á sviði loftslagsmála. Haft var samband við félag eldri borgara í Maríuhöfn, höfuðborg Álandseyja, en þau samskipti leiddu ekki til niðurstöðu.