Go to content

4. Málstofa um eldra fólk og loftslags­mál – báðum til gagns

4.1 Undirbúningur málstofu

Eins og fram kemur í inngangi þessarar skýrslu skiptist verkefnið sem skýrslan fjallar um í þrjú skref eða verkþætti:
  1. Taka saman yfirlit yfir aðila, samstarf og verkefni eldra fólks á Norðurlöndunum á sviði loftslagsmála.
  2. Undirbúa, boða til og sjá um norræna málstofu um eldra fólk og loftslagsmál.
  3. Taka saman skýrslu með grunnupplýsingum, samantekt frá málstofunni og ráðleggingum til stjórnvalda á Norðurlöndunum um það sem þau gætu gert til að styðja við starf eldra fólks á sviði loftslagsmála.
Málstofan sem getið er um í upptalningunni hér að framan var haldin í Reykjavík dagana 27.–28. september 2023. Þangað var boðið fulltrúum allra þeirra félagasamtaka og hópa sem fjallað er um í 2. kafla þessarar skýrslu, nánar tiltekið u.þ.b. tveimur þátttakendum frá hverju Norðurlandanna, auk utanaðkomandi aðila, annað hvort til að halda fyrirlestur eða taka þátt í pallborðsumræðum. Markmið málstofunnar var að búa til vettvang til að miðla reynslu eldra fólks í loftslagsmálum og skapa umræðu um það hvernig stjórnvöld á Norðurlöndunum gætu ýtt undir starf aldraðra Norðurlandabúa að loftslagsmálum.
Við val á fyrirlesurum og fulltrúum í pallborðum var sóst eftir einstaklingum með reynslu af stofnun samtaka eldra fólks sem beitir sér í loftslagsmálum eða af þátttöku í slíkum samtökum eða hópum. Með þessu vali var reynt að stuðla að því að fólk gæti deilt og safnað að sér nytsamlegum upplýsingum og reynslu frá öðrum sem síðan yrði hægt að nýta í starfinu innanlands þegar heim væri komið. Þar sem löng ferðalög til málstofunnar þóttu vera á skjön við umfjöllunarefnið var fólki einnig boðið að fylgjast með í beinu streymi. Málstofan fór fram á ensku til að sem flestir stæðu jafnfætis gagnvart tungumálinu og reynt var eftir föngum að hafa Svansvottun í forgangi við kaup á vörum og þjónustu í tengslum við málstofuna.
Í undirbúningi málstofunnar kom í ljós að margir meðlimir hópa og samtaka eldri loftslagssinna á Norðurlöndunum litu ekki á það sem valkost að ferðast með flugi, allra síst til þátttöku í málstofu um loftslagsmál. Í framhaldi af því var ræddur sá möguleiki að flytja málstofuna til Kaupmannahafnar, þannig að sem flestir þátttakendur gætu ferðast landleiðina eða með ferjum á fundarstað. Þar sem um var að ræða íslenskt formennskuverkefni þótti hins vegar ekki viðeigandi að halda málstofuna í öðru landi, auk þess sem Íslandsferð var þrátt fyrir allt ofarlega á óskalista margra væntanlegra þátttakenda. Í samtölum við þátttakendur sem mættu á staðinn kom auk þess fram að streymi kæmi aldrei að öllu leyti í stað viðburðar þar sem fólk hittist í eigin persónu, enda væru kaffihlé og hvers kyns óundirbúin samtöl og umræður á milli dagskráliða iðulega dýrmætustu hlutarnir af viðburðum af þessu tagi.
Þátttakendur í málstofunni voru samtals 41, auk þeirra sem tóku þátt á netinu. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heiðraði samkomuna með því að flytja ávarp við opnun hennar. Að því loknu voru nokkur framsöguerindi, pallborðsumræður og hópavinna á dagskrá. Málstofan stóð frá hádegi á miðvikudegi til hádegis á fimmtudegi og í lok hennar var þátttakendum boðið í kynnisferð um Reykjanesskagann, þar sem m.a. gaf að líta fjölmörg merki um jarðfræðilega virkni svæðisins.
Dagskrá málstofunnar, ásamt lista yfir öll samtök sem tóku þátt og lista yfir þátttakendur málstofunnar má finna í viðaukum.
20230927_130215.jpg
Mynd 1. Forseti Íslands ávarpar málstofu um eldra fólk og loftslagsmál í Reykjavík 27. sept. 2023. (Ljósm. Stefán Gíslason).

4.2 Nokkur aðalatriði úr fyrirlestrum og pallborðsumræðum

Fyrirlesarar á málstofunni sögðu allir í stuttu máli frá þeim samtökum og hópum sem þau starfa með og fóru yfir sögu þeirra, verkefni og vinnuaðferðir. Hér á eftir verða dregin saman nokkur aðalatriði úr fyrirlestrum í tímaröð skv. dagskrá.

4.2.1 Elisabeth Stern, Klimaseniorinnen Schweiz

Titill erindis:
The Organization‘s Court Case Against Switzerland on the Impact of Climate Change on Human Rights
Elisabeth Stern er virkur þátttakandi í samtökunum Klimaseniorinnen Schweiz. Hún tók þátt í málstofunni í gegnum fjarfundarbúnað, enda eru konurnar í samtökunum hættar að fljúga og ferðast eingöngu með almenningssamgöngum til að minnka kolefnisfótspor sitt. Samtökin eru alfarið kvennasamtök, enda sýna rannsóknir að konur eiga alla jafna minni sök á loftslagsbreytingum en karlar, en verða meira fyrir afleiðingunum. Samtals eru konurnar í Klimaseniorinnen Schweiz nú um 2.450 talsins. Elisabeth nefndi að meðalhitastig í Sviss væri nú þegar 2,2 gráðum hærra en fyrir iðnbyltingu og að á síðustu 20 árum hefðu hitabylgjur verið tíðari í Sviss en áður. Nú þegar hefðu um 1.000 manns látið lífið í Sviss vegna hitabylgja og að í þeim hópi væru fleiri konur en karlar. Klimaseniorinnen Schweiz hefðu orðið til á grundvelli þessara staðreynda. Árið 2016 ákærðu samtökin svissnesk yfirvöld fyrir aðgerðarleysi í loftslagsmálum, sem samtökin töldu vera brot á skyldu ríkisstjórnarinnar til að vernda líf, heimili og fjölskyldur svissneskra ríkisborgara. Eftir að málinu hafði í þrígang verið vísað frá svissneskum dómstólum ákváðu Klimaseniorinnen Schweiz að fara með málið fyrir Mannréttindadómstóll Evrópu. Dómstóllinn samþykkti að taka málið til efnislegrar meðferðar og er gert ráð fyrir að úrskurður geti hugsanlega legið fyrir í lok ársins.

4.2.2 Erik Elvers, Gretas gamlingar

Titill erindis:
Greta’s Oldies, Sweden
Gretas gamlingar er samstarfsnetið sem var kveikjan að þessu verkefni, en það var stofnað árið 2019 með Gretu Thunberg sem fyrirmynd. Stuttu eftir fyrstu mótmælastöðu Gretu í ágúst 2018 safnaðist hópur eldri borgara saman á Gotlandi og mótmælti því sama, þ.e.a.s. aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum og þar með vanrækslu við að vernda plánetuna og fara vel með hana. Þessi mótmæli dreifðust um alla Svíþjóð og á endanum varð til samstarfsnetið Gretas gamlingar. Þátttakendur eru þó ekki einungis að mótmæla aðgerðaleysi af umhyggju fyrir unga fólkinu heldur líka fyrir eldra fólki, enda hafi loftslagsbreytingar mikil neikvæð áhrif á þann aldurshóp og leiði til dauðsfalla þeirra á meðal. Þess vegna væri þetta sameiginlegt hagsmunamál allra kynslóða. Samstarfsnetið samanstendur í raun af 10–15 sjálfstæðum hópum víðsvegar um Svíþjóð. Lögð er mikil áhersla á það sem þátttakendur geta gert sem einstaklingar, því að „enginn getur gert allt einn en við getum öll gert eitthvað saman“. Meðlimir Gretas gamlingar hittast vikulega í hópum og áttu m.a. í samræðum við stjórnmálaflokka fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2022. Fulltrúar allra hópanna hittast síðan árlega. Einnig mótmælir samstarfsnetið vikulega fyrir utan sænska þinghúsið ásamt WWF, Greenpeace, Naturskyddsföreningen og félögum eldri borgara. Meðlimir Gretas gamlingar hafa einnig rætt við matvöruverslanir í heimabæjum sínum um minnkun á matarsóun og áherslu á aukið framboð af vistvænum vörum og vörum sem framleiddar eru í heimahéraði. Þau hafa fengið jákvæð svör bæði frá matvöruverslunum og stjórnmálamönnum, svo og frá fjölda þátttakenda á vikulegum fundum. Í erindinu kom fram að eldra fólk gæti aðstoðað það yngra í mótmælum, enda hefði eldra fólk meiri tíma en yngra fólk og byggi yfir góðri reynslu sem það gæti miðlað áfram.

4.2.3 Helena Kääriäinen, Aktivistimummot

Titill erindis:
The Nordic/​Global Health Consequences of the Climate/​Environment Crisis
Rétt eins og Gretas gamlingar sækja Aktivistimummot, eða Aktívistaömmur, innblástur til Gretu Thunberg. Hópurinn var stofnaður árið 2020, fékk mikla athygli allt frá byrjun og telur nú um 10.000 meðlimi. Meðlimir eru dreifðir út um allt Finnland, en hópurinn tekur þó þátt í mótmælum eftir því sem færi gefst. Helena er er sérfræðingur í læknisfræðilegri erfðafræði og í sjaldgæfum sjúkdómum og starfaði til skamms tíma sem prófessor í erfðafræði við háskólana í Helsinki og Turku. Í máli hennar kom fram að loftslagsbreytingar hefðu bæði bein og óbein áhrif á heilsu. Þar fyrir utan hefði heilbrigðiskerfi Vesturlanda gríðarlega hátt kolefnisspor, mikið væri um einnota verkfæri og umbúðir og að þessi hlutir væru iðulega keyptir erlendis þar sem þeir væru ódýrastir og fluttir langa vegalengd með tilheyrandi kolefnisspori. Loftslagsmál tengist lýðheilsu á ýmsan hátt, t.d. væri aukin nýting almenningssamgangna í senn til þess fallin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta heilsu íbúa, auk þess sem minni mengun hlýst af útblæstri og ögnum úr bíldekkjum. Sömuleiðis væri lækkun hitastigs í húsum, og þá sérstaklega svefnherbergjum, góð fyrir umhverfið og um leið góð fyrir heilsu fólks, enda bendi rannsóknir til að hollara sé fyrir líkamann að sofa í 20 gráða hita en 24 gráða hita. Loftslagsbreytingar hefðu einnig bein áhrif í gegnum aukna tíðni og dreifingu hitabeltisjúkdóma vegna hækkandi hitastigs. Aukin rigning gæti minnkað gæði drykkjarvatns og aukið hættu á myglu í húsum vegna raka sem aftur getur leitt til öndunarfærasjúkdóma. Fleira mætti nefna sem dæmi um tengsl loftslagsbreytinga og heilsu. Þannig virðist minnkandi snjóþekja í Finnlandi endurspeglast í fjölgun þunglyndistilfella, en síðustu ár hefur dregið úr snjó sem gerir veturna mun dimmari en ella. Meðalhiti sem nú er oftast í kringum frostmark á veturna gerir það að verkum að vegir og stígar eru hálli en áður sem leiðir til þess að mun fleiri beinbrjóta sig núna eða slasast í hálkunni en áður fyrr þegar jörð var yfirleitt frosin á veturna. Þá hefðu tíðari hitabylgjur á sumrin leitt til þess að fleiri kaupa sér loftkælingu á heimili sín, sem leiðir auðvitað til aukinnar raforkunotkunar. Þá muni hækkandi sjávarmál leiða til þess að í framtíðinni munu fleiri flýja til Norðurlandanna og því muni fylgja aukin tíðni sjúkdóma sem annars eru ekki algengir á þessum slóðum.
20230927_142421.jpg
Mynd 2. Helena Kääriäinen, doktor í læknisfræði, fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga á heilsu fólks. (Ljósm. Stefán Gíslason).

4.2.4 Birna Sigurjónsdóttir and Þóra Ellen Þórhallsdóttir, U3A

Titill erindis:
Be Active Through Life-Long Learning
Eins og fram hefur komið er enginn starfandi hópur eða samtök eldri borgara á Íslandi sérstaklega helgaður loftslagsmálum. Hins vegar starfar sérstakur umhverfishópur innan U3A Reykjavík. Í september 2022 voru 1.300 meðlimir í U3A Reykjavík og þar er mikið lagt upp úr vikulegum fyrirlestrum og fræðslu um hin ýmsu málefni. Öllum fyrirlestrum er einnig streymt og þeir eru aðgengilegir á netinu í heila viku eftir streymið. Markmið umhverfishóps U3A Reykjavík er að fræða og upplýsa um það sem ógnar náttúru Íslands, bæði jarðminjum og lífríki lands, ferskvatns og sjávar. Um leið er vakin athygli á leiðum til umhverfis- og náttúruverndar og stuðlað að aðgerðum sem bæta umhverfið og sporna gegn loftslagsvá. Í erindi Þóru Ellenar var einkum fjallað um landnotkun á Íslandi. Margir líffræðingar hefðu áhyggjur af skógrækt eins og hún væri stunduð í dag, þar sem nú væri mikið um að ágengar trjáplöntur væri gróðursettar án mikillar umhugsunar um staðarval. Inn í þetta blandist áberandi þróun í þá veru að erlendir kaupendur festi kaup á stórum jörðum víða um land.

4.2.5 Beate L. Samuelsen, Landsfelag Pensjónista

Titill erindis:
Relevant Older People Activities in the Faroe Islands
Eins og fram hefur komið er enginn starfandi hópur eldri borgara í Færeyjum sérstaklega helgaður loftslagsmálum. Engu að síður tóku þrír fulltrúar eldri borgara í Færeyjum þátt í málstofunni til þess að afla sér fróðleiks og undirbúa hugsanlega stofnun slíkra samtaka þegar heim væri komið.
Landsfelag Pensjónista er félag eldri borgara í Færeyjum. Þetta eru ópólitísk regnhlífarsamtök fyrir 16 minni félög eldri borgara. Sem dæmi um þróun umhverfismála í Færeyjum var nefnd sú þróun sem þar hefur orðið í flokkun úrgangs, en fyrir 50 árum var nær öllum úrgangi hent í hafið. Í erindinu kom fram að umhverfismál væru ekki sérstaklega tekin fyrir hjá Landsfelagi Pensjónista en góðar líkur væru á að það myndi breytast að fengnum þeim fróðleik sem færeyski hópurinn myndi taka með sér heim af málstofunni. Umhverfisvitund Færeyinga væri orðin miklu meiri en áður fyrr og fólk sýndi umhverfismálum sívaxandi áhuga.

4.2.6 Andrew P. Kroglund, Besteforeldrenes klimaaksjon (BKA)

Titill erindis:
How the Norwegian Grandparents’ Climate Campaign Work Nationally, and Interact Internationally
Í Noregi starfa fáir en fjölmennir hópar eldri borgara að loftslagsmálum. Í máli Andrews kom fram að frá stofnun BKA árið 2006 hefði félagsfólki fjölgað í rúmlega 6.800 meðlimi, sem tryggir þeim m.a. árlegan styrk frá ríkinu. Mikilvægt væri fyrir samtök af þessu tagi að vera óhrædd við að gagnrýna stjórnvöld, jafnvel þótt þau veittu samtökunum fjárhagslegan styrk. Samtökin bæru ábyrgð á því að segja samfélaginu hvað væri að gerast og hafa um leið áhrif á stjórnmálamenn til að auðvelda þeim ákvarðanatöku. Helsta baráttumál samtakanna væri að stöðva frekari olíuborun við strendur Noregs. Mikilvægt væri að vera bæði sýnileg á götunum og að vinna á bak við tjöldin með stjórnmálamönnum til að breyta lögum. Einnig væri mjög mikilvægt að vinna með öðrum samtökum, bæði í Noregi og á alþjóðlegum vettvangi, því að slík samtök væru sterkari saman. Opinbert samstarfsnet væri til þess fallið að efla starfið og gera það sýnilegt. Besteforeldrenes klimaaksjon nota einkennisfatnað þegar þau eru úti á götunum (rauður hattur), þau hafa jákvæðni að leiðarljósi og hafa reynslu af því að það skili mun meiru en stöðug umfjöllun um neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga.

4.2.7 Kira Gilling Hansen, Sammen om verdensmål

Titill erindis:
Libraries as Platform for Citizen Involvement and Sustainability. United to reach the global goals
Kira sagði frá verkefni sem hefur verið í gangi síðustu tvö ár á nokkrum bókasöfnum víðsvegar um Danmörku, þar sem íbúar geta hjálpað til við að þróa hugmyndir og lausnir í þeirra eigin bæ sem styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Meðal helstu hugmynda sem unnið hefur verið með má nefna viðgerðarkaffihús, saumavélakennslu og endurnotkun t.d. verkfæra og húsgagna. Samtals hafa 36 bókasöfn gengið til liðs við verkefnið og nokkur hundruð manns eru virk í þeim. Tveir til þrír starfsmenn frá hverju bókasafni hafa fengið þjálfun og taka þátt í ýmsum sjálfbærum og samfélagsskapandi verkefnum. Öll bókasöfnin vinna enn með Heimsmarkmiðin og hafa fengið til liðs við sig marga nýja samstarfsaðila. Viðbrögð þátttakenda og svör úr skoðanakönnun benda til aukinnar vellíðanar meðal þeirra sem hafa tekið þátt í verkefninu, líklega vegna þess að þau leggja sitt af mörkum til einhvers sem gagnast bæði fólki og jörðinni. Af verkefninu má draga þann lærdóm að þrennt sé öðru fremur til þess fallið að auka vellíðan og virkni eldri borgara í verkefnum sem þessu:
  1. Beina sjónum að sálfræðilegum grunnþörfum fólks.
  2. Bjóða upp á hagnýtar leiðir til að stuðla að sjálfbærni á virkan hátt.
  3. Flétta náttúruna inn í starfsemina til að styrkja tengsl fólks við náttúruna.
Verkefninu lýkur í desember 2023.

4.2.8 Bengt Sundbaum & Lena Hammarbäck, Grandparents for Future

Titill erindis:
Voluntary Work & Social Media
Bengt er fyrrverandi kennari og Lena er sálfræðingur á eftirlaunum – og bæði eru þau félagar í Grandparents for Future í Svíþjóð. Í erindi þeirra kom fram að núverandi ríkisstjórn Svíþjóðar hefði staðið fyrir miklum niðurskurði í opinberum framlögum til loftslagsmála. Fyrirsjáanlegt væri að loftslagsmarkmið Svíþjóðar myndu ekki nást.
Í erindinu kom fram að eldra fólk (65+) væri 17% af öllum sjálfboðaliðum í Svíþjóð. Samfélagsmiðlar hefðu bæði kosti og galla í starfi af þessu tagi þegar eldra fólk ætti í hlut. Samkvæmt könnun sem gerð var 2022 eru 43% Svía 65–74 ára virk á samfélagsmiðlum, sem þýðir væntanlega að skilaboð á samfélagsmiðlum ná ekki til nema hluta aldurshópsins. Um 90% af 69–79 ára íbúum Stokkhólms nota internetið en aðeins 50% af þeim sem eru 80+.
Öll samskipti Grandparents for Future fara fram í Facebookhópi samtakanna. Gallar við þetta væru m.a. þeir að þarna væri allt í höndum Facebook og að Facebook gæti fjarlægt hvaðeina sem gengur gegn reglum miðilsins. Auk þess gætu netdólgar truflað starfsemina. Þar sem hópurinn hefur ekki lýðræðislega kjörna stjórn hvílir mikil ábyrgð á stjórnendum síðunnar – og þar sem hópurinn er óformlegur á hann ekki rétt á neinum styrkjum frá ríkinu.
Helstu kostir samfélagsmiðla í starfi sem þessu liggja í því hversu auðvelt er að halda sambandi og upplýsa hópinn um það sem er að gerast í mismunandi landshlutum. Þá kom fram að þetta fyrirkomulag gæfi góða tilfinningu fyrir samstöðunni. Þegar fólk sæi stöðugt nöfn annarra meðlima í hópnum, upplifði það sig ekki eitt og yfirgefið heldur sem hluta af hópi. Enn einn kostur væri hversu auðvelt væri að deila myndum, en slíkt hefði mikla þýðingu í starfinu. Þá gæti hópurinn auðveldlega unnið með öðrum samtökum, svo sem með ungum umhverfissinnum. Loks mætti nefna að þetta fyrirkomulag gæfi gott svigrúm til að nota tímann í þágu loftslagsmála í stað þess að þurfa að leggja mikla vinnu í skrifræði og formsatriði.

4.2.9 Matti Nummelin, Ilmastoisovanhemmat

Titill erindis:
Grandparents for Future
Matti Nummelin er doktor í vistfræði og hefur starfað sem aðstoðarprófessor í umhverfisvísindum við háskólana í Helsinki og Turku, auk þess að sinna alþjóðasamstarfi og ráðgjöf við stjórnvöld. Hann kom m.a. að samningaviðræðum í aðdraganda Parísarsáttmálans 2015. Matti er núverandi ritari Ilmastoisovanhemmat, en samtökin standa m.a. fyrir mótmælum fyrir utan finnska þingið á hverjum föstudegi. Þar eru félagar samtakanna með skilti á u.þ.b. sex tungumálum til að geta líka höfðað til ferðamanna. Í erindinu kom fram að félagarnir væru dreifðir um allt Finnland og hefðu því þau þurft að nýta tæknina til að ná út til allra. Samtökin væru m.a. með leshóp sem hittist mánaðarlega á netinu og ræddi þá tvær bækur, umhverfis- eða loftslagstengdar. Þessi hópur hefur notið mikilla vinsælda. Samtökin gefa út yfirlýsingar og senda bréf til ríkisstjórnarinnar og sú vinna fer einnig öll fram á netinu. Fram kom sú skoðun fyrirlesara að nýkjörin ríkisstjórn Finnlands legði of litla áherslu á loftslagsmál og afneiti jafnvel loftslagsbreytingum. Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum hafa Finnar minni áhuga á loftslagsmálum en áður. Árið 2019 sögðu 83% Finna að mikilvægt væri að draga úr loftslagsbreytingum en árið 2023 voru aðeins 72% Finna þeirrar skoðunar.
20230928_095257.jpg
Mynd 3. Matti Nummelin, doktor í vistfræði og félagi í Ilmastoisovanhemmat. (Ljósm. Stefán Gíslason).

4.2.10 Anne Grethe Hansen, Bedsteforældrenes Klimaaktion

Titill erindis:
How Do We Reach New Members?
Anne Grethe fjallaði um stofnun samtakanna og hvernig þau eru sýnileg á götum danskra borga, bæði með fræðslu og mótmæli. Sem grasrótarhreyfing hefur Bedsteforældrenes Klimaaktion hvorki stjórn né formann. Það eru því hinir virku félagar sem ákveða og fá að móta hvað hreyfingin stendur fyrir og hvaða frumkvæði er tekið. Samtökin reyna að laða til sín fólk með því að aðlaga samskiptaleiðir að persónulegum gildum fólks og benda á möguleikana til að skapa betri framtíð, í stað þess að leggja áherslu á það neikvæða og erfiða. Samtökin leggja áherslu á að vera sýnileg og halda uppi mótmælum og bjóða fræðslu í miðbæjum borga þar sem von er til að margir eigi leið fram hjá og taki eftir þeim. Þau eru einnig mjög virk á samfélagsmiðlum og í góðum samskiptum við fjölmiðla þegar þau bjóða upp á viðburði. Samtökin hafa í sjálfu sér ekki unnið markvisst að því að bæta við sig mörgum meðlimum, enda skiptir að þeirra mati meira máli að fá rétta fólkið en að fá marga nýja í hópinn.

4.2.11 Hjálmar W. Árnason, Friends of Icelandic Nature

Titill erindis:
Older People in Nature Conservation
Eins og fram hefur komið eru engir starfandi hópar eða samtök eldra fólks á Íslandi sérstaklega helguð loftslagsmálum. Hins vegar er margt eldra fólk virkt í náttúruvernd, m.a. innan samtakanna Vinir íslenskrar náttúru (VÍN) (e. Friends of Icelandic Nature). Hlutverk VÍN er að auka vitund almennings um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi. Upphaflega voru félagar í samtökunum 41 talsins, en eru nú um 80 tveimur árum síðar. VÍN hafa frá upphafi lagt megináherslu á skógrækt, nánar tiltekið mikilvægi þess að hún sé stunduð af ábyrgð þannig að hún skerði ekki líffræðilega fjölbreytni. Að vissu leyti standa þau í stríði við tré, ekki þó þannig að VÍN hafi eitthvað á móti trjám, heldur leggja samtökin áherslu á að Íslendingar setji sér stefnu þar sem ákveðið land er tekið frá og verndað fyrir komandi kynslóðir. Bændur um allt land eru nú farnir að planta trjám hvar sem er vegna fjárhagslegs stuðnings frá stjórnvöldum og skógrækt er að verða atvinnurekstur vegna meintra möguleika á tekjum af sölu kolefniseininga. Fyrirtæki eru farin að hvetja til og borga fyrir gróðursetningu trjáa, án þess að skoða hvort viðkomandi trjátegundir falli að þeirri náttúru sem fyrir er. Jafnvel er verið að nota ágengar tegundir. VÍN bendir á að þessi stefnulausa skógrækt geti gengið gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, þ.m.t. skuldbindingum um vernd mó- og mýrlendis sem eru búsvæði fugla. Með vaxandi skógrækt sé nú víða gengið á þessi svæði og fuglastofnar, sem Ísland beri sérstaka ábyrgð á, séu á undanhaldi af þeim sökum. Fram kom að margir félagar í samtökunum væru „gamlir“, en þau hefðu „ungan anda, baráttuanda vegna þess að við höfum skyldur við framtíðina og börn okkar og barnabörn“.

4.2.12 Ólavur Poulsen, Føroya Náttúru- og Umhvørvisfelag

Titill erindis:
Older people and the Climate on the Faroe Islands
Føroya Náttúru- og Umhvørvisfelag var stofnað árið 1978. Færeyjar eru nú, að sögn Ólavs, efst á lista yfir lönd með mesta losun Co2 á hvern íbúa. Einkum væri losun frá fiskiskipaflotanum mjög mikil, en einnig vegna upphitunar heimila. Í Færeyjum hefðu orkuskipti gengið mjög hægt. Þar hefði verið notast við olíu mjög lengi, en hlutdeild umhverfisvænni orku frá vatnsaflsvirkjunum og vindmyllum færi smám saman vaxandi. Vegna smæðar eyjanna væri þó erfitt að geyma orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Ólavur nefndi í erindi sínu að á tímum Covid hefði komið í ljós að mannkynið gæti staðið saman og gert miklar breytingar á stuttum tíma. Eldra fólk gæti gert mjög margt til að sporna gegn loftslagsbreytingum, svo sem að draga úr neyslu, velja notaða hluti og nota vörur eins lengi og mögulegt væri, vera forvitin og auka þekkingu sína á því sem að gagni mætti koma í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Mikilvægt væri að mótmæla áður en stjórnvöld taka rangar ákvarðanir, svo og að upplýsa um og spyrja um „ranga“/„furðulega“ hluti sem við sjáum. Fólk ætti að taka þátt í loftslagssamtökum og kjósa stjórnmálamenn sem berjast í raun gegn loftslagsbreytingum.

4.2.13 Bente Bakke, Besteforeldrenes klimaaksjon (BKA)

Titill erindis:
The Work Locally
Bente Bakke er fyrrverandi þingkona á norska Stórþinginu og situr nú í stjórn BKA. Hún er 80 ára og var eftir því sem næst verður komist elsti þátttakandinn á málstofunni. Í máli hennar kom fram að félagar í BKA notist við einkennisfatnað til að fanga athygli fólks og skera sig úr fjöldanum. Þau ganga um með rauða hatta og veggspjöld utan á sér og syngja „loftslagslög“. Samtökin voru upphaflega stofnuð 2006, en þegar Bente gekk í þau árið 2010 keypti hún einn hlut í norska olíufélaginu Statoil, nú Equinor. Þetta veitti henni rétt til að taka þátt í aðalfundi félagsins og leggja þar fram tillögur. Í ár lögðu fjórir félagar í BKA fram tillögur á aðalfundi Equinor, en fulltrúar ríkisins, sem fer með 67% atkvæða á aðalfundi, hafa jafnan séð til þess að tillögur þeirra væru felldar. Í máli Bente kom fram að ríkisstjórn Noregs hefði á þessu ári tilkynnt um 139 ný svæði til olíu- og gasleitar, flest í Barentshafi, sem sé í andstöðu við hvatningu Antônio Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sem hefur sagt að öll lönd verði að hætta olíuleit.
Í máli Bente Bakke kom fram að BKA hefði alltaf innheimt félagsgjöld, sem hún kvaðst sannfærð um að væri þeirra mikli styrkur. Ómögulegt væri að fjármagna alla starfsemi án félagsgjaldanna, hvort sem horft er til starfsins á landsvísu eða staðbundið, auk þess sem hægt væri að láta gera úttektir og skrifa skýrslur um mikilvæg málefni. Eins og fram hefði komið fengju umhverfisverndarsamtök í Noregi með fleiri en 5.000 greiðandi félagsmenn efnahagslegan stuðning frá stjórnvöldum. Á þessu ári næmi þessi upphæð samtals 2.056.000 NOK.
20230928_112937.jpg
Mynd 4. Bente Bakke, fyrrv. þingkona og núverandi stjórnarmaður í BKA í Noregi. (Ljósm. Stefán Gíslason).

4.2.14 Pallborðsumræður

Efnt var til pallborðsumræðna á málstofunni eftir þriðja hvern fyrirlestur með þátttöku þriggja hlutaðeigandi fyrirlesara. Spurningum var bæði safnað með smáforritinu Slido og teknar beint úr sal.
Margar spurningar og stór hluti umræðna í pallborðunum snerist um stofnun samtaka/hópa eldri loftslagssinna á Norðurlöndunum, forsendur stofnunar, stærð samtaka, viðfangsefni og markhópa slíkra hópa. Fram kom að til þess að hægt væri að stofna samtök í landi þar sem engin slík væru fyrir, þyrfti áhugi að vera til staðar. Ákveðinn fjölda fólks þyrfti til að hægt væri að skipta verkum – og allir hópar þyrftu að hafa tilgang og markmið. Undirbúningur að stofnun samtaka af þessu tagi tæki oft langan tíma, áður en hægt væri að fara að beita sér í aðgerðum. Nú sé eldra fólk í heiminum hlutfallslega fleira en áður, í þessum hópi væri mikið af menntuðu fólki sem enn væri við fulla heilsu og vildi leggja eitthvað af mörkum, auk þess sem fólk væri almennt orðið meðvitaðra en áður um umhverfismál. Fram kom að mismunandi fjöldi einstaklinga í samtökum af þessu tagi byði upp á ólík tækifæri. Stór samtök væru mikilvæg til að hægt væri að vinna með umfangsmikil mál, en einnig væri mikilvægt að hafa minni hópa í nærumhverfi fólks sem gætu beitt sér á sýnilegri hátt hver á sínum stað. Báðar stærðir þjóni mikilvægum tilgangi. Þátttakendur voru beðnir að velta því fyrir sér hvort einhverjir ókostir fylgdu því að svona afmarkaður aldurshópur væri að beita sér í loftslagsmálum. Í því sambandi kom fram að mikill styrkur gæti falist í að vinna með fólki á sama aldri, fólk ætti þá meira sameiginlegt en ella og væri því e.t.v. líklegra til að vera virkt en vera myndi í blandaðri hópi. Einnig ætti eldra fólk það yfirleitt sameiginlegt að hafa rúman tíma. Þessi tími væri auðlind sem yngra fólk á vinnumarkaði hefði ekki.
Rætt var um viðfangsefni samtaka eins og þeirra sem hér um ræðir, þ.e. hvort betra væri að einbeita sér að mjög afmörkuðu viðfangsefni, eins og t.d. Vinir íslenskrar náttúru sem einbeita sér eingöngu að skógrækt á Íslandi, eða hvort breiðari nálgun væru heppilegri? Flest reyndust þeirrar skoðunar að sterkast væri að hafa fá meginmarkmið en að hægt væri að spanna víðara svið með minni undirhópum eða starfsstöðvum. Þegar markmiðin væru fá væru skilaboðin skýrari. „Ef þú ferð í mörg stríð á sama tíma muntu tapa þeim öllum. Þess vegna er mikilvægt að skerpa fókusinn, því að ef þú ert lítill her geturðu ekki farið í öll stríð“, eins og einhver þátttakandi orðaði það.
Rætt var um kosti og galla norrænnar samvinnu á umræddu sviði. Þátttakendur voru sammála um að samvinna væri mikilvæg í öllu umhverfisstarfi. Þetta mætti sjá á þróun loftslagsmála en allt frá því í Ríó 1992, og á öllum loftslagsráðstefnum síðan þá, hefði verið lögð mikil áhersla á að fá fólk saman og mynda alþjóðleg samstarfsnet. Sé hægt að segja að tiltekin samtök séu hluti af norrænni hreyfingu eða samstarfsneti geti það hljómað sterkara en samtök sem standa stök. Á sama hátt leiði þátttaka í slíku samstarfi væntanlega til þess að samtökin fái meiri athygli en ella, bæði almennt og í fjölmiðlum.
Þátttakendur lögðu mikla áherslu á mikilvægi fjölmiðla og ábyrgð þeirra og möguleika til að vekja athygli á málefnum og miðla til almennings. Af þessum sökum skipti máli að fara í aðgerðir sem fanga athygli fjölmiðla, svo og að eiga í góðum samskiptum við fjölmiðla til að auðvelda aðgengið.
Í pallborðsumræðunum kom upp spurning um áhrif flokkspólitíkur á sjálfboðavinnu á borð við þá sem hér um ræðir, þ.e. hvort hægt væri að starfa saman í samtökum eða hópum um loftslagsmál en vera ósammála um stjórnmál. Flest samtök sem áttu fulltrúa í málstofunni starfa óháð stjórnmálaöflum. Að margra mati eru samtök af þessu tagi oft talin frekar vinstrisinnuð, en þátttakendur bentu á að mikill styrkur gæti verið fólginn í að hafa hægrisinnaða einstaklinga með sér í liði vegna þess að það gæti gefið af sér önnur sjónarmið og aðra nálgun á sömu viðfangsefni. Fjölbreytni í stjórnmálaskoðunum innan hópsins gæti líka gert það að verkum að einstaklingar innan hópsins geti viðrað mál og fengið áheyrna hjá fulltrúum ólíkra stjórnmálaafla. Svipuð umræða kom upp varðandi það hvort eldra fólk með bakgrunn í umhverfismálum væri líklegra til að taka þátt í sjálfboðavinnu á þessu sviði en fólk með engan slíkan bakgrunn. Fram kom að alltaf væri til bóta að hafa góð tök á staðreyndum og að þannig geti vinnan orðið hnitmiðaðri og árangursríki en ella, en að sama skapi fælist líka styrkur í því að hafa ólíkan bakgrunn. Einnig væri mikilvægt að vinna saman þvert á kynslóðir.

4.3 Hópavinna

Í lok beggja málstofudaganna var efnt til hópvinnu til að fást við tiltekin viðfangsefni og svara tilteknum spurningum. Leitast var við að skipta þátttakendum þannig í hópa að fjölbreytni innan hvers hóps yrði sem mest, bæði með tilliti til þjóðernis og kyns. Hóparnir voru sex talsins og var þeim endurraðað milli daga, þannig að sama fólkið sæti ekki saman báða dagana. Einn hópstjóri var fenginn til að leiða vinnuna í hverjum hópi og reynt að haga málum þannig að enginn hópstjóri fengi til sín sömu einstaklinga báða dagana. Hópaskiptinguna má sjá í viðauka.
Hóparnir unnu eftir fyrir fram ákveðnu skipulagi, sem var eins fyrir báða dagana. Þar sem dagskrá málstofunnar var þétt gáfust ekki nema 30–45 mínútur til hópvinnu hvorn dag og því höfðu hópstjórar krefjandi verkefni með höndum við tímastjórnun. Í hópvinnunni fyrri daginn var lögð áhersla á samvinnu eldra fólks á Norðurlöndunum í loftslagsmálum og seinni daginn voru lögð drög að ráðleggingum til stjórnvalda um það hvernig styðja bæri við eldra fólk á Norðurlöndunum sem beitir sér gegn loftslagsbreytingum. Eftir að þátttakendur í hópvinnunni höfðu skrifað hjá sér eigin hugmyndir um viðfangsefnin hver fyrir sig, var reynt að ná samstöðu innan hvers hóps um það hverjar væru þrjár bestu hugmyndir hópsins. Meginniðurstaða hvers hóps fólst í þriggja atriða lista.
20230927_153354.jpg
Mynd 5. Allir þátttakendur í málstofunni saman komnir fyrir utan fundarstaðinn í Reykjavík. (Ljósm. Nauthóll).

4.3.1 Samvinna eldra fólks á Norðurlöndunum í loftslagsmálum

Helstu hugmyndir og niðurstöður hópanna fara hér á eftir.
  1. Koma þarf á samstarfsneti samtaka og hópa eldra fólks á Norðurlöndunum sem helga sig loftslagsmálum, jafnvel þótt starfshættir hópanna séu mjög mismunandi. Hópar og samtök standa alltaf sterkari saman.
  2. Með samstarfsneti opnast möguleikar á virkum tölvupóstsamskiptum og fjarfundum til að halda sambandi. Þannig er líka hægt að bjóða upp á sameiginleg vefnámskeið.
  3. Einn styrkur samstarfsnets liggur í því að ef teknar verða upp samræmdar verklagsreglur geta allir sagt að „svona sé fyrirkomulagið á öllum Norðurlöndunum“.
  4. Samstarfsnet felur í sér tækifæri fyrir Norðurlöndin að vera frumkvöðlar á heimsvísu, þar sem ekki eru önnur dæmi um slíkt samstarf.
  5. Samvinna í sameiginlegu samstarfsneti geta falið í sér hvatningu fyrir aðra hópa og samtök.
  6. Í samstarfsneti er m.a. hægt að þróa sameiginlegar samnorrænar yfirlýsingar til þingmanna í einstökum löndum.
  7. Hægt er að útvíkka hugmyndina um samstarfsnet enn frekar og láta það í framtíðinni ná til annarra landa, svo sem til Bandaríkjanna. Þannig geta myndast tengsl fyrir samvinnu í framtíðinni, auk þess sem þetta getur skilað sér til fjölmiðla.
  8. Samstarfsnet getur verið grunnur fyrir sameiginlegar aðgerðir sem eru tímasettar á sama tíma í öllum löndunum. Slík verkefni eru til þess fallin að fanga athygli fjölmiðla og geta þannig haft meiri áhrif á pólitískar ákvarðanir en stakar aðgerðir.
  9. Æskilegt er að hafa sameiginlega norræna vefsíðu (eða „samnorrænan þekkingarbanka“ eins og þetta var nefnt í einum hópanna). Þar er hægt að setja inn upplýsingar um verkefni og skapa vettvang til að miðla reynslu, þekkingu og hugmyndum úr starfi einstakra hópa og samtaka. Ekki þurfa allir að finna upp hjólið.
  10. Á sameiginlegri vefsíðu er einnig hægt að birta og deila útgefnu efni frá hópum og samtökum á Norðurlöndunum, svo sem skýrslum og tillögum til stjórnvalda.
  11. Samnorrænt fréttabréf sem birt er á vefsíðunni getur virkað sem hvatning til annarra samtaka og hópa. Þar má líka halda skrá yfir tengiliði og samtök, þannig að einfaldara sé að ná sambandi við aðila.
  12. Norræna ráðherranefndin gæti e.t.v. haldið úti sérstöku vefsvæði sem helgað væri þessum málaflokki.
  13. Norræna ráðherranefndin ætti að styðja fjárhagslega við sameiginlegan fund eldri loftslagssinna á Norðurlöndunum og í Evrópu allri í Osló að ári liðnu.
  14. Halda mætti norrænt loftslagsþing reglulega, jafnvel árlega, með sérstakri áherslu á aðkomu aldraðra.
  15. Halda mætti reglulegar málstofur í streymi um afmörkuð verkefni til að miðla upplýsingum.
  16. Halda mætti norrænan umhverfisdag með skipulögðum skoðunarferðum, útilegum eða náttúruupplifunum með eða án þátttöku barna. Þetta væri til til þess fallið að efla samstöðu og liðsanda og gefa eldra fólki tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttri umhverfisstarfsemi.

4.3.2 Ráðleggingar til norrænna stjórnvalda

Eftirfarandi ráðleggingar til stjórnvalda á Norðurlöndunum eru unnar út frá niðurstöðum hópanna.
  1. Ráðleggingar til stjórnvalda á landsvísu:
    1. Veita loftslagstengdum hópum eldra fólks fjárhagslegan stuðning, á borð við þann sem BKA í Noregi hafa fengið, til að auðvelda þeim að samræma störf sín á landsvísu og gera þeim kleift að eiga samstarf við kollega sína á öðrum Norðurlöndum og utan Norðurlandanna.
    2. Bjóða þessum hópum til samræðna/samráðs, svo sem við gerð opinberrar loftslagsstefnu, loftslagsáætlana, laga og reglugerða.
    3. Efla menntun til sjálfbærni fyrir allar kynslóðir með því að efla og styðja við tengsl milli kynslóða, einkum milli eldra fólks og ungmenna.
    4. Skapa eða útvega vettvang fyrir athafnir, fundi og mótmæli á vegum loftslagstengdra hópa eldra fólks.
  2. Ráðleggingar til Norrænu ráðherranefndarinnar:
    1. Bjóða loftslagstengdum hópum aldraðra á norræna fundi og námskeið til að njóta góðs af þekkingu þeirra og reynslu og gefa þeim rödd í umræðunni.
    2. Skipuleggja árlegar norrænar loftslagsráðstefnur í því skyni að skapa vettvang fyrir ný tengsl og útbreiðslu þekkingar og hugmynda.
    3. Veita fjárhagsaðstoð til að byggja upp grunn fyrir samræmda miðlun upplýsinga, svo sem í gegnum norræna vefsíðu, vefnámskeið o.s.frv.
    4. Styðja samhæfingu verkefna á norrænum vettvangi með þátttöku loftslagstengdra hópa aldraðra á öllum Norðurlöndunum.
    5. Greina tækifæri til gera loftslagsstarf norrænna hópa eldra fólks sýnilegt utan Norðurlandanna til að styrkja og varðveita stöðu Norðurlandanna sem frumkvöðla á þessu sviði.
    6. Íhuga stofnun „Norðurlandaráðs fyrir aldraða og loftslagsmál“.