Go to content

Aðgang og réttindi fyrir erfðaauðlindir 2023
Kalmaryfirlýsing II

Líffræðileg fjölbreytni er nauðsynleg lífi manna á jörðu. Erfðafjölbreytni er mikilvægur hluti af líffræðilegri fjölbreytni. Erfðaauðlindir eru erfðaefni sem hafa raunverulegt og mögulegt virði sem gæti verið mikilvægt mönnum og lífi á jörðu. Fjölbreyttar erfðaauðlindir eru forsenda náttúruvals, aðlögunar og þróunar. Aðgangur að erfðaauðlindum heimsins og sanngjörn og réttlát hlutdeild í þeim ávinningi sem hlýst af notkun þeirra eru þess vegna mikilvæg málefni sem reglur hafa verið settar um í ýmsum löndum og á alþjóðavettvangi.
Árið 2003 samþykktu Norðurlönd Kalmaryfirlýsinguna, sem inniheldur ýmsar ráðleggingar um landsbundna innleiðingu alþjóðlegra skuldbindinga um frekara samstarf um erfðaauðlindir á norrænum vettvangi. Alþjóðlega regluverkið kveður á um fullveldisrétt ríkja á erfðaauðlindum sínum. Í Kalmaryfirlýsingunni er því lýst yfir að erfðaauðlindir í vörslu Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar (NordGen) séu í sameiginlegri norrænni umsjá með frjálsum aðgangi án höfundarréttar.
Norðurlönd sér eiga langa sögu meira en 50 ára samstarfs um varðveislu og sjálfbæra notkun erfðaauðlinda og var stofnun samnorræns erfðabanka fræja árið 1979 stór áfangi. Norræna auðlindastofnunin (NordGen) var stofnuð árið 2008 sem þekkingarmiðstöð erfðaauðlinda og geymir hún norræna frægenabankann. Kalmaryfirlýsingin setur mikilvægan ramma utan um aðgang og réttindi fyrir erfðaauðlindir sem geymdar eru hjá NordGen.
Tæknileg og pólitísk þróun frá samþykkt Kalmaryfirlýsingarinnar fyrir tuttugu árum hefur leitt í ljós að þörf er á nýrri norrænni nálgun. Það var í þeim tilgangi sem verkefnið „Access and Rights to Genetic Resources: A Nordic Approach (II)“ var sett á laggirnar með norrænum sérfræðingum um erfðaauðlindir. Afrakstur verkefnisins er skýrslan „Access and Rights to genetic resources: A Nordic Approach (II)“.

Aðgangur og réttindi fyrir erfðaauðlindir á Norðurlöndum

Norræna ráðherranefndin um fiskveiðar, landbúnað, skógrækt og matvæli og Norræna ráðherranefndin um umhverfis- og loftlagsmál hafa komist að samkomulagi um eftirfarandi:    

Norræna ráðherranefndin

1. undirstrikar mikilvægi erfðaauðlinda fyrir sjálfbæra þróun og að vernd og sjálfbær nýting erfðaauðlinda eru þess vegna í miklum forgangi hjá Norðurlöndunum,
2. áréttir meginefni Kalmaryfirlýsingarinnar 2003 og gerir sér grein fyrir þeim mikilvægu áhrifum sem hún hefur haft á Norðurlöndum, ekki síst með stofnun NordGen,
3. veitir athygli þeirri mikilvægu þróun sem hefur orðið á alþjóðavettvangi frá Kalmaryfirlýsingunni að því er varðar aðgang og réttindi fyrir erfðaauðlindir,
4. undirstrikar mikilvægi þess að deila ávinningi af nýtingu erfðaauðlinda á sanngjarnan og réttlátan hátt samkvæmt skyldum Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, Nagoya-bókunar hans og Alþjóðasamningi um erfðaauðlindir plantna (Alþjóðaplöntusáttmálanum, e. International Plant Treaty) og öðrum viðeigandi samþykktum gerningum um aðgang og sameiginlegan ávinning,
5. viðurkennir þörf þess að deila í auknum mæli þeim ávinningi sem hlýst af marghliða kerfi aðgangs og ávinnings samkvæmt Alþjóðaplöntusáttmálanum, bæði fjárhagslegum og öðrum, og styður eflingu marghliða kerfisins,
6. fagnar Kunming-Montreal-alþjóðarammanum um líffræðilega fjölbreytni og ákvörðuninni um að koma á marghliða kerfi um sameiginlegan ávinning af notkun stafrænna raðgreiningarupplýsinga um erfðaauðlindir sem samþykkt var á 15. ráðstefnu aðilanna að Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og hvetur Norðurlönd til að taka þátt í að tryggja vel heppnaða eftirfylgni hennar,
7. viðurkennir að í samræmi við landslög skuli hvert og eitt Norðurlandanna grípa til aðgerða, eftir því sem við á, með það sem markmið að tryggja að hefðbundin þekking í tengslum við erfðaauðlindir sem frumbyggjar og staðbundin samfélög búa yfir verði metin með fyrirfram og upplýstu samþykki og þátttöku þeirra, og að samkomulag sé gert um skilmála,
8. veitir athygli skorti á þekkingu á og vitund um alþjóðlegan lagaramma um aðgang og réttindi erfðaauðlinda meðal norrænna veitenda og notenda erfðaauðlinda,
9. fagnar skýrslu verkefnisins „Access and Rights to Genetic Resources: a Nordic Approach (II)“.

Mælir með því að Norðurlönd

10. staðfesti aftur að öll fræsöfn sem geymd eru í NordGen, að undanskildum öryggissöfnum sem NordGen geymir fyrir aðra genabanka, séu í sameiginlegri norrænni umsjá og án höfundarréttar,
11. haldi áfram að taka þátt í alþjóðlegri stefnumótun um erfðaauðlindir fyrir matvæli og landbúnað, þar á meðal verndun og sjálfbæra notkun þeirra,
12. hvetji til framlaga til sjóðs sameiginlegs ávinnings (e. benefit-sharing fund) Alþjóðaplöntusáttmálans, þ. á m. matvælavinnsluiðnaðarins,
13. styðji við eflingu marghliða kerfis um aðgang og ávinning samkvæmt Alþjóðaplöntusáttmálanum,
14. greiði fyrir aðgangi að erfðaauðlindum fyrir matvæli og landbúnað og tengdum stafrænum raðgreiningarupplýsingum í samræmi við samþykkta alþjóðlega gerninga um sameiginlegan ávinning,
15. viðurkenni mismunandi sjónarhorn og nálganir norrænu landanna um þörf þess að ákvarða lagalega stöðu villtra erfðaauðlinda, skrá söfnun þeirra og setja reglur um aðgang,
16. hvetji til þess að aflað verði aukinnar þekkingar á verndun og sjálfbærri notkun erfðaauðlinda frá hryggleysingjum og örverum og tengdum málefnum um aðgang og réttindi fyrir slíkar erfðaauðlindir,
17. haldi áfram að halda úti úrræðum í notkunarlöndum til að reglum um aðgang sé fylgt og upplýsa lönd, rannsakendur og aðra viðeigandi aðila sem nota erfðaauðlindir frá öðrum löndum um þessi úrræði,
18. stuðli að vitundarvakningu meðal norrænna veitenda og notenda erfðaauðlinda um alþjóðlega þróun, þar á meðal um skyldur og markmið um aðgang og sameiginlegan ávinning,
19. haldi áfram að vinna saman á norrænum vettvangi að því að miðla reynslu af aðgangi og réttindum fyrir erfðaauðlindir, t.d. í gegnum viðeigandi samnorræn verkefni. 

Mælir með því að NordGen

20. haldi áfram að vera mikilvæg samnorræn stofnun um innleiðingu Alþjóðaplöntusáttmálans og að viðeigandi efni sem er í umsjá NordGen verði hluti af marghliða kerfinu um aðgang og ávinning samkvæmt Alþjóðaplöntusáttmálanum,
21. veiti greiðan aðgang að öllum plöntuerfðasöfnum sínum í hvaða tilgangi sem er og ekki aðeins til notkunar á sviði matvæla og landbúnaðar,
22. haldi áfram að gera söfn aðgengileg með einni tegund samnings; stöðluðum efnisflutningssamningi Alþjóðaplöntusáttmálans,
23. greiði fyrir aðgangi að stafrænum raðgreiningarupplýsingum í tengslum við plöntuerfðaauðlindir sem genabankinn geymir,
24. hvetji þá sem gefa „flutt efni“ (e. material in transition) að gera það aðgengilegt öllum, eftir við sem við á, og skrái það í marghliða kerfi Alþjóðaplöntusáttmálans,
25. styðji að greiður aðgangur sé veittur að villtum skyldum tegundum nytjaplantna sem eru í umsjá NordGen og að efnið sé í sameiginlegri norrænni umsjá og án höfundarréttar,
26. leitist við að gera formlegan samning við til þess bær færeysk og grænlensk yfirvöld um hvernig NordGen skuli afla, hafa umsjón með og dreifa fræsöfnum frá Færeyjum og Grænlandi, helst með sömu skilyrðum og gilda um önnur söfn sem NordGen geymir,
27. tryggi að lagalegt eignarhald erfðaauðlinda húsdýra verði áfram hjá landsbundnum eiganda í þeim tilfellum þegar NordGen varðveitir erfðaauðlindir dýra á athafnasvæði sínu. Aðgangur skal vera með samkomulagi við og í samræmi við viðeigandi landsbundna áætlun og/eða aðila,
28. tryggi að lagalegt eignarhald erfðaauðlinda skógartrjáa sem geymd eru hjá NordGen verði áfram hjá landsbundnum eiganda. Ef þessar auðlindir skulu vera í umsjá NordGen skulu þær helst vera samkvæmt sömu skilyrðum og gilda um önnur fræsöfn NordGen,
29. efli samskipti um aðgang og réttindi erfðaauðlinda á Norðurlöndum,
30. haldi áfram að hafa umsjón með og reka Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða í samvinnu við norska landbúnaðar- og matvælaráðuneytið og Crop Trust og í samræmi við þríhliða samning þessara aðila.