Fara í innihald

Pólitískar áherslur

Í samstarfinu er sérstök áhersla lögð á grundvallarforsendur þess að viðhalda lýðræði, trausti og samheldni á Norðurlöndum. Öflugt og virkt réttarríki er forsenda trausts og samheldni í löndunum og þarf þess vegna að vera í brennidepli eins og áður. 
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að grundvallarréttindum, gildum og réttaröryggi er ógnað í sumum nágrannaríkjum Norðurlanda. Norrænu löndin geta sameiginlega spyrnt fótum við þessari þróun. Reglur réttarríkisins og virkt lýðræðisfyrirkomulag, þar sem menn beita sér m.a. gegn mismunun og í þágu grundvallarréttinda, eru grunnurinn að þróttmiklu samfélagi sem stuðlar að frjálsu og blómlegu mannlífi. 
Norrænu löndin standa framarlega í stafvæðingu. Opinber stjórnsýsla og dómstólar geta orðið aðgengilegri og skilvirkari að tilstuðlan tölvutækninnar en böggull fylgir skammrifi því að stafvæðing hins opinbera hefur einnig áhrif á réttaröryggi fólks og fyrirtækja. Löndin myndu því ótvírætt njóta góðs af því að miðla sín á milli þekkingu og upplýsingum um reynslu sína á þessu sviði. 
Þá leggur svið dómsmála sitt af mörkum til þess að efla starf gegn mismunun og standa vörð um mannréttindi, þar á meðal jafnrétti kynjanna, réttindi barna og ungmenna, réttindi fatlaðs fólks og hinsegin fólks. 
Glæpamennska virðir engin landamæri, hvorki í stafrænum heimi né raunheimi. Brotastarfsemi sem teygir anga sína yfir landamæri er sameiginlegt úrlausnarefni norrænu landanna. Aukið lögreglusamstarf til að hindra og vinna bug á slíkum afbrotum er því forgangsmál í norrænu samstarfi á sviði dómsmála. 
Mörg norrænu landanna eiga við skipulagða glæpastarfsemi að stríða, klíkuglæpi og kynferðisbrot. Sama á við um mansal. 
Í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi og klíkuglæpum skiptir miklu að koma í veg fyrir alvarlegt ofbeldi, veikja fjárhagslegan grundvöll undirheimanna og búa svo um hnútana að glæpahópum takist ekki að vinna börn og ungmenni á sitt band. Auk þess er mikilvægt að varast flugumenn sem hreiðra um sig innan stjórnsýslunnar og þess konar tilraunir til að njósna og hafa óeðlileg áhrif á stjórnvöld eða þá sem fara með opinbert vald. 
Öfgahyggja og ofstæki eru sömuleiðis sameiginlegt úrlausnarefni enda kann lýðræði og samstöðu á Norðurlöndum að stafa ógn af slíku. Enn fremur eru gyðingahatur og gyðingaofsóknir mikið vandamál sem birtist í heimsmynd og ofbeldisfullri öfgahyggju nútímans.   Til að auka þekkinguna um forvarnir og baráttu gegn framangreindum fyrirbærum er vilji fyrir því á sviði dómsmála að samstarfinu og þekkingarmiðluninni sem af því leiðir verði haldið áfram. 
Með aukinni stafrænni þróun eykst þörfin á að fylgjast með glæpum sem framdir eru með aðstoð netins. Það á ekki síst við um kynferðisbrot gegn börnum en þó einnig um annað stafrænt ofbeldi og efnahagsbrot. En stafvæðingin gerir löndunum einnig kleift að þróa nýjar og nýstárlegar rannsóknaraðferðir. Þau hafa mikið gagn af samvinnu um nýja þekkingu á þessu sviði og hefur starfshópum á vegum dómsmálasamstarfsins verið komið á laggirnar til að skipuleggja slíkt samráð, m.a. að því er varðar baráttu gegn mansali og netglæpum. 
Ofbeldi í nánum samböndum er samfélagsmein alls staðar á Norðurlöndum og verður einnig til athugunar á sviði dómsmála. Fái ofbeldi í nánum samböndum þrifist er ekki hægt að halda því fram að jafnrétti ríki í löndunum og að konur og börn geti treyst því að fá notið réttar síns. 
Mismunur á löggjöf landanna veldur stjórnsýsluhindrunum sem hafa slæm áhrif á hreyfanleika fjölskyldna og atvinnulífs á Norðurlöndum. Þess vegna leitast dómsmálasviðið við að ná fram réttareiningu á Norðurlöndum. Fast ákveðnir fundir á sviði dómsmálanna milli dómsmálaráðherranna annars vegar og í embættismannanefndunum hins vegar, þar sem reglulegt samráð landanna fer fram, ráða úrslitum um hvernig til tekst. Sama er að segja um reglulega fundi í sérfræðingahópum um sifjarétt og refsirétt sem skipa sinn fasta sess í samstarfinu. 
Eftir því sem ESB/EES-réttur þróast verður þörfin á norrænu samstarfi um innleiðingu og framkvæmd ESB/EES-gerða og -dóma æ ríkari, rétt eins og við á um önnur málefni á alþjóðasviðinu, eins og þeim sem tengjast Mannréttindasáttmála Evrópu og öðrum milliríkjasamningum. Dómsmálaráðherrarnir eru þessu til viðbótar ábyrgir fyrir samstarfi um mál sem almennt heyra undir dómsmálaráðuneytin í norrænu ríkjunum. 
Samstarfið um dómsmál fer fram á árvissum ráðherrafundum og fundum í embættismannanefndunum og föstum starfshópum. Dómsmálasviðið fjármagnar einnig málþing og tengslanet á ýmsum sviðum þar sem sérfræðingar og annað fagfólk getur borið saman bækur sínar. Enn fremur veitir það styrki til rannsókna og úttekta sem geta myndað grunn að frekari þróunarvinnu í norrænu löndunum. Þá taka þessar rannsóknir oft til nágrannalandanna eins og Eistlands, Lettlands og Litáens og hefur verið skipaður starfshópur (Nordic Baltic Contact Group) með norrænum og baltneskum embættismönnum sem kemur saman á ári hverju samkvæmt verklýsingu hans og umboði. Dómsmálaráðherrarnir á Norðurlöndum hitta dómsmálaráðherra Eystrasaltsríkjanna á fundi annað hvert ár. 
Ráðherranefndin um dómsmál hefur komið sér saman um eftirtalin markmið og undirmarkmið fyrir starfsemina árin 2025–2030. Allt norrænt samstarf á þessu málefnasviði er unnið með hinar pólitísku áherslur að leiðarljósi.