Framtíðarsýnin og stefnumótandi áherslurnar þrjár
Hinn 20. ágúst 2019 ákváðu forsætisráðherrar norrænu landanna að Norðurlönd skyldu verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030, sbr. Framtíðarsýn okkar 2030. Öll starfsemi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar á að stuðla að framgangi þessarar framtíðarsýnar og hinna stefnumótandi áherslna sem eru nánar tiltekið græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd.
Réttarsamstarfið snýst einkum um þrjú stefnumótandi verkefnasvið: „Norræna réttareiningu“, „réttaröryggi á Norðurlöndum“ og „forvirkar aðgerðir og baráttu gegn afbrotum“. Það er á grundvelli þessara verkefnasviða sem samstarfið á sviði dómsmála leitast við að uppfylla markmið áherslumálanna „samkeppnishæf Norðurlönd“ og „félagslega sjálfbær Norðurlönd“ í „Framtíðarsýn okkar 2030“ fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar.
Dómsmálasamstarfið vinnur að norrænni réttareiningu í samræmi við ákvæði Helsingforssamningsins um norrænt samstarf, spornar gegn nýjum og óþörfum stjórnsýsluhindrunum á Norðurlöndum og beitir sér fyrir samþættingu á öllu svæðinu. Verkefnasviðið rennir stoðum undir bæði hin stefnumótandi áherslusvið framtíðarsýnarinnar „félagslega sjálfbær Norðurlönd“ og „samkeppnishæf Norðurlönd“.
Verkefnasviðinu réttaröryggi á Norðurlöndum er ætlað að tryggja og viðhalda grundvallarreglum réttarríkisins, bæði í löndunum og nærsvæðum þeirra, og þannig stuðla að því að þau verði öll sem eitt félagslega sjálfbær.
Forvirkar aðgerðir og barátta gegn afbrotum, þar á meðal skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum, skipa sérstakan sess í samstarfinu á sviði dómsmála. Þess vegna hefur dómsmálasviðið m.a. sett á fót starfshópa til að skipuleggja aðgerðir gegn mansali og netglæpum. Það á þátt í að uppfylla markmiðið um félagslega sjálfbær Norðurlönd.
Samstarfsáætlunin
Pólitískum forgangsmálum og markmiðum tímabilsins 2025–2030 er lýst í samstarfsáætluninni á sviði dómsmála.
Forgangsmál sviðsins eru samstarf á verkefnasviðunum „norræn réttareining“, „réttaröryggi á Norðurlöndum“ og „forvirkar aðgerðir og barátta gegn afbrotum“.
Norðurlandaráð hefur ásamt öðrum viðkomandi aðilum tekið þátt í undirbúningi samstarfsáætlunarinnar.
Samstarfsáætlunin er stjórntæki fyrir alla starfsemi ráðherranefndarinnar um dómsmál. Ráðherranefndin samþykkti samstarfsáætlunina hinn 20. september 2024 og gildir hún til 31. desember 2030.
Samstarfsáætlunin tekur mið af því keppikefli Norrænu ráðherranefndarinnar að vinna að framgangi framtíðarsýnarinnar svo að Norðurlönd megi verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Allar ráðherranefndir Norrænu ráðherranefndarinnar vinna að því að uppfylla framtíðarsýnina með hinum þremur stefnumótandi áherslum.