Almennt séð búa norrænu löndin við stöðugt og öruggt orkuframboð og eru vel á veg komin með umskipti orkugeirans í átt til sjálfbærni. Að hluta til má þakka hinu nána samstarfi norrænu landanna þessa styrku stöðu en ekki er þó sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Enn eiga norrænu löndin fyrir höndum úrlausnarefni á sviði orkumála og frekari umskipta er þörf ef okkur á að takast að standa undir háleitum loftslagsmarkmiðum okkar og markmiðum um afhendingaröryggi. Um leið beinum við sjónum okkar að tækifærum norrænna fyrirtækja til þess að vinna með styrkleika Norðurlanda á tímum þegar öll ríki heimsins standa frammi fyrir kröfu um orkuskipti.
Norðurlönd eru sterkari ef við stöndum saman. Það á einnig við út á við en staðan í heimsmálum hefur enn á ný sýnt gildi þess fyrir norrænu löndin að standa þétt saman. Það á ekki síst við þegar kemur að norrænum orkukerfum sem í flestum norrænu ríkjunum eru nátengd. Það þýðir að aðgerðir í orkumálum í einu landanna hafa einnig þýðingu í hinum löndunum. Af því leiðir að samstarf um aðgerðir mun leiða til orkuskipta sem eru bæði efnahagslega og félagslega sjálfbærari en ef löndin uppfylltu markmið sín hvert fyrir sig.
Í norrænu orkumálasamstarfi er unnið jafnt með hinn þríþætta vanda í orkumálum. Unnið er að því að tryggja umskipti í orkukerfinu þar sem tekið er tillit til umhverfis- og loftslagmála, að traustu afhendingaröryggi norrænu landanna sé viðhaldið og að orkan sé á viðráðanlegu verði fyrir bæði almenning og fyrirtæki.
Í öllum norrænu löndunum er rafvæðing samfélagsins í fullum gangi sem hluti af umskiptum í átt til sjálfbærni. Skipuleggja þarf, fjármagna og ýta í framkvæmd stóraukningu á framleiðslugetu orkukerfa landanna á jarðefnaeldsneytislausri orku, þar með talið endurnýjanlegri orku, og stækkun raforkuflutningskerfisins, sem er nauðsynlegt vegna aukinnar rafvæðingar. Um leið verður að tryggja að árið 2030 búi Norðurlönd enn að samkeppnishæfasta, mest nýskapandi og notendamiðaða raforkumarkaði í heimi.
Hægt er að taka í auknum mæli tillit til náttúrunnar og líffræðilegrar fjölbreytni í tengslum við sjálfbæra orku og mannvirki og innviði sem henni tengjast, til dæmis vindmyllur. Jafnframt verður að haga orkuskiptum með þeim hætti að sátt almennings og velvild sé tryggð gagnvart mikilli uppbyggingu orkumannvirkja, þar á meðal vindmylla og flutningslína. Auknar aðgerðir sem ýta undir orkusparnað og -nýtni, ásamt sveigjanleika í orkunotkun, munu jafnframt treysta afhendingaröryggi.