Fara í innihald

Pólitískar áherslur í orkumálum

Almennt séð búa norrænu löndin við stöðugt og öruggt orkuframboð og eru vel á veg komin með umskipti orkugeirans í átt til sjálfbærni. Að hluta til má þakka hinu nána samstarfi norrænu landanna þessa styrku stöðu en ekki er þó sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Enn eiga norrænu löndin fyrir höndum úrlausnarefni á sviði orkumála og frekari umskipta er þörf ef okkur á að takast að standa undir háleitum loftslagsmarkmiðum okkar og markmiðum um afhendingaröryggi. Um leið beinum við sjónum okkar að tækifærum norrænna fyrirtækja til þess að vinna með styrkleika Norðurlanda á tímum þegar öll ríki heimsins standa frammi fyrir kröfu um orkuskipti.
Norðurlönd eru sterkari ef við stöndum saman. Það á einnig við út á við en staðan í heimsmálum hefur enn á ný sýnt gildi þess fyrir norrænu löndin að standa þétt saman. Það á ekki síst við þegar kemur að norrænum orkukerfum sem í flestum norrænu ríkjunum eru nátengd. Það þýðir að aðgerðir í orkumálum í einu landanna hafa einnig þýðingu í hinum löndunum. Af því leiðir að samstarf um aðgerðir mun leiða til orkuskipta sem eru bæði efnahagslega og félagslega sjálfbærari en ef löndin uppfylltu markmið sín hvert fyrir sig.
Í norrænu orkumálasamstarfi er unnið jafnt með hinn þríþætta vanda í orkumálum. Unnið er að því að tryggja umskipti í orkukerfinu þar sem tekið er tillit til umhverfis- og loftslagmála, að traustu afhendingaröryggi norrænu landanna sé viðhaldið og að orkan sé á viðráðanlegu verði fyrir bæði almenning og fyrirtæki.
Í öllum norrænu löndunum er rafvæðing samfélagsins í fullum gangi sem hluti af umskiptum í átt til sjálfbærni. Skipuleggja þarf, fjármagna og ýta í framkvæmd stóraukningu á framleiðslugetu orkukerfa landanna á jarðefnaeldsneytislausri orku, þar með talið endurnýjanlegri orku, og stækkun raforkuflutningskerfisins, sem er nauðsynlegt vegna aukinnar rafvæðingar. Um leið verður að tryggja að árið 2030 búi Norðurlönd enn að samkeppnishæfasta, mest nýskapandi og notendamiðaða raforkumarkaði í heimi.
Hægt er að taka í auknum mæli tillit til náttúrunnar og líffræðilegrar fjölbreytni í tengslum við sjálfbæra orku og mannvirki og innviði sem henni tengjast, til dæmis vindmyllur. Jafnframt verður að haga orkuskiptum með þeim hætti að sátt almennings og velvild sé tryggð gagnvart mikilli uppbyggingu orkumannvirkja, þar á meðal vindmylla og flutningslína. Auknar aðgerðir sem ýta undir orkusparnað og -nýtni, ásamt sveigjanleika í orkunotkun, munu jafnframt treysta afhendingaröryggi.
Samstarf um aðgerðir mun leiða til orkuskipta sem eru bæði efnahagslega og félagslega sjálfbærari en ef löndin uppfylltu markmið sín hvert fyrir sig.
Norrænu löndin og norræn fyrirtæki búa að einstakri hæfni þegar litið er til orkutækni og útflutningur á orkutækni er töluverður. Norrænt samstarf styður við vinnu landanna við að byggja upp nýjar orkuvirðiskeðjur á svæðinu. Norðurlönd hafa því góð tækifæri til þess að verða miðstöð sem laðar til sín fyrirtæki og flytur út jarðefnaeldsneytislausa orku, þar á meðal endurnýjanlega, og sjálfbæra tækni. Þetta er hægt að gera með markvissri sameiginlegri atvinnuuppbyggingu þar sem Norðurlönd byggja í sameiningu upp orkulausnir framtíðarinnar. Það mun jafnframt stuðla að því að gera svæðið, fyrirtæki okkar, menntastofnanir og rannsóknarumhverfi svo eftirsóknarvert að norrænu löndin mennti ekki einungis sjálf fagfólk og vinnuafl heldur laði einnig til sín hæft fólk alls staðar að úr heiminum.
Allt frá upphafi opinbers norræns samstarfs á sviði orkumála hafa málefni sem varða ESB/EES og önnur alþjóðleg orkumál verið ofarlega á baugi. Norrænt samstarf og samhæfing getur á mörgum sviðum orkumála stuðlað að því að bæta framkvæmd ferla innan ESB og EES. Tengingu norrænu landanna við evrópskt samstarf er misjafnlega háttað en engu að síður geta þau haft mikið gagn af samstarfi um sameiginleg málefni í tengslum við ESB og EES. Á undanförnum 8–10 árum hefur umfjöllun ESB um orkumál aukist. Því hafa fylgt bæði nýjar áskoranir og tækifæri í norrænu orkumálasamstarfi.
Norrænu löndin og norræn fyrirtæki búa að einstakri hæfni þegar litið er til orkutækni og útflutningur á orkutækni er töluverður.

Samstarf þvert á fagsvið

Vinna skal þvert á fagsvið eftir því sem við á. Fyrir orkumálasvið getur það til að mynda átt við um fagsvið umhverfis- og loftslagsmála, sem einnig vinnur með jarðefnaeldsneytislausa orku, þar með talið endurnýjanlega, föngun, nýtingu og bindingu koldíoxíðs, vetni o.fl., og svið atvinnumála, sem vinnur með samkeppnishæfni, og önnur fagsvið sem vinna með orkutengd úrlausnarefni.

Norrænn virðisauki orkumálasamstarfsins

Norrænn virðisauki er mikilvægt viðmið þegar meta á mikilvægi og skilvirkni norræns samstarfs. Norrænn virðisauki er sá sem skapast af aðgerðum sem koma til viðbótar við virði sem hefði skapast í löndunum sjálfum. Norrænn virðisauki getur meðal annars falist í aðgerðum sem skapa norrænt samstarf og tengsl, draga úr hindrunum og sundrung, safna saman starfskrafti og færni, raungera ónýtt tækifæri og skapa samlegðaráhrif.
Þótt löndin séu ólík og geti lagt áherslu á ólíka hluta orkumálasamstarfsins felur norrænt samstarf á sviði orkumála í sér ótvíræðan virðisauka fyrir öll norrænu löndin og styður við starf landanna á innlendum vettvangi og vettvangi ESB. Til þess að auka virðisauka norræns samstarfs eiga norrænu löndin að leggja áherslu aukinn skilning og samstarf á sviðum þar sem styrkleikastöður landanna geta bætt hver aðra betur upp í virðiskeðjum og vistkerfum þvert á landamæri og svið
Norrænu löndin búa yfir sameiginlegum verðmætagrunni og orkukerfum sem bæta hvert annað upp, sem veitir góð skilyrði til að koma á fót sterkum klösum og sjálfbærum og öruggum virðiskeðjum sem stuðla að norrænum virðisauka. Með norrænu samstarfi geta umskiptin orðið hraðari og skilvirkari þegar sameiginleg viðfangsefni eru leyst með sameiginlegum aðgerðum.
Norrænu löndin búa yfir sameiginlegum verðmætagrunni og orkukerfum sem bæta hvert annað upp, sem veitir góð skilyrði til að koma á fót sterkum klösum og sjálfbærum og öruggum virðiskeðjum.

Markmið og undirmarkmið

Ráðherranefndin um orkumál hefur ákveðið eftirfarandi markmið og undirmarkmið fyrir starfið á tímabilinu 2025–2030. Allt norrænt samstarf á þessu málefnasviði er unnið með hinar pólitísku áherslur að leiðarljósi.
Markmiðin fjögur og undirmarkmiðin sem þeim tilheyra falla öll undir hina grænu vídd stefnumörkunarinnar því vinnan mun stuðla að því að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Markmiðin falla þó ekki síður undir hina stefnumarkandi áherslu á samkeppnishæfni því vinnan eykur bæði kostnaðarhagkvæmni fyrirtækja í orkumálum og möguleika þeirra á að styrkja stöðu sína. Loks skal tekið fram að undirmarkmið 1.3 fellur undir hina stefnumarkandi áherslu um félagslega sjálfbærni.