Fara í innihald

Markmið 3: Uppbygging enn skilvirkari og meira nýskapandi norræns orkumarkaðar

Vel virkur raforkumarkaður er lykillinn að árangursríkum umskiptum í átt til sjálfbærni. Umskiptin fela í sér stórfellda rafvæðingu norrænna samfélaga. Gert er ráð fyrir miklum breytingum á bæði raforkuframleiðslu, með aukinni framleiðslu á vind-, sólar og kjarnorku og annarri jarðefnaeldsneytislausri orkuframleiðslu, og raforkunotkun þar sem notkun eykst hjá endanotendum og nýjum stórnotendum í iðnaði, svo sem við framleiðslu á vetni og rafeldsneyti. Nauðsynlegt er að þróa áfram norrænan raforkumarkað til þess að mæta þessari þróun.
sofia_sabel-electricity-8439.jpg

Undirmarkmið 3.1: Raforkumarkaðurinn á að styðja við aukna rafvæðingu samfélagsins.

Þróa á raforkumarkaðinn frekar þannig að til verði hvati til fjárfestinga í nýrri raforkuframleiðslu á réttum stað og um leið tryggja að ný raforkunotkun verði skilvirk. Raforkumarkaðurinn á að stuðla að bættu jafnvægi á milli aukinnar framleiðslu og aukinnar notkunar.

Undirmarkmið 3.2: Sveigjanleg þátttaka notenda og framleiðenda

Þar sem aukin raforkuframleiðsla verður að miklu leyti háð veðri og vindum skiptir sköpum að bæði notendur og framleiðendur hafi hvata og tækifæri til þess að bregðast við sveiflum í raforkuframleiðslu. Sveigjanleg notkun og aukin og fyrirsjáanleg raforkuframleiðsla dregur úr kostnaði við grænu umskiptin og stuðlar að auknu afhendingaröryggi.

Undirmarkmið 3.3: Aukin áhersla á að koma upp raforkuinnviðum.

Árstíðabundnar sveiflur í orkuverði í mismunandi hlutum Norðurlanda hafa leitt í ljós veikleika í afkastagetunni, einkum á milli norðurs og suðurs. Samfara aukinni rafvæðingu og hærra hlutfalli sveiflukenndra endurnýjanlegra orkugjafa eykst þörfin á norrænu samstarfi um styrkari innviði til þess að tryggja að auðlindir séu nýttar með eins skilvirkum hætti og kostur er og að kostnaður raforkunotenda haldist lágur.