Fara í innihald

Markmið 4: Sterkari Norðurlönd í alþjóðlegu orkumála­samstarfi

Eitt af helstu markmiðum norræns orkumálasamstarfs á tímabilinu 2025–2030 er að efla Norðurlönd í alþjóðlegu samstarfi. Hagur getur verið í því fyrir Norðurlönd á alþjóðavettvangi að taka höndum saman þegar um sameiginlega hagsmuni er að ræða. Vilji er til þess að nýta styrk norræns samstarfs með markvissum hætti bæði á formlegum og óformlegum vettvangi. Sérstaklega á þetta við um ESB/EES en einnig á öðrum vettvangi þar sem norrænu löndin taka þátt.
Áfram verður áhersla lögð á vinnuna við að styðja norrænar hnattrænar orkulausnir. Náið norrænt samstarf tryggir ekki einungis gestgjafahlutverk á leiðtogafundum og ráðstefnum síðar heldur einnig hlutverk Norðurlanda sem mikilvægs aðila í grænum umskiptum á heimsvísu.
hans_berggren-renewable_energy-8408.jpg

Undirmarkmið 4.1: Markviss umfjöllun um evrópsk málefni til þess að kanna möguleika á samstarfi.

Ýmis evrópsk verkefni hafa áhrif á uppfyllingu hinnar norrænu framtíðarsýnar í orkumálum til ársins 2030. Þetta eykur enn vægi öflugs norræns svæðasamstarfs á milli stjórnvalda, aðila markaðarins, fræðasamfélagsins og borgarasamfélagsins.
Á samstarfstímabilinu 2025–2030 munu norrænu löndin einkum fylgjast með endurskoðun orkureglugerða og vinnunni að nýjum markmiðum fyrir árið 2030 samkvæmt European Green Deal (EGD) og „fit for 55“. Samkvæmt EGD munu norrænu löndin geta stofnað til og aðlagað núverandi svæðasamstarf á sviðum á borð við endurnýjanlega orku (þar með talið vindorku á hafi), orkunýtni (þar með talið „energy efficiency first“), visthönnun (þar með talið Nordsyn-samstarfið), tilskipunina um orkunýtni (EED), orkunýtni í byggingariðnaði, samstarf í vetnismálum, samstarf um snjallvæðingu kerfa, landsáætlanir um orku- og loftslagsmál (NECP) og þróun raforkumarkaðar og innviða. Rannsóknir, þróun og nýsköpun munu styðja lárétt við vegvísa á mikilvægum sviðum á borð við vetnismál, föngun, nýtingu og bindingu koldíoxíðs og vindorku á hafi.

Undirmarkmið 4.2: Samstarf um innleiðingu regluverks ESB/EES.

Mikilvægt verður fyrir norrænu löndin að vega og meta ávinninginn af samstarfi við innleiðingu lagagerða í samstarfsáætlun 2025–2030. Margar lagagerðir um orkumál frá ESB/EES verða innleiddar á þessu tímabili.

Undirmarkmið 4.3: Samstarf um vinnu annars staðar á alþjóðlegum vettvangi.

Samkvæmt Framtíðarsýn okkar fyrir 2030 stendur vilji til þess að nýta styrk norræns samstarfs með markvissum hætti alþjóðlega, bæði á formlegum og óformlegum vettvangi. Þetta á sérstaklega við á vettvangi ESB/EES en einnig annars staðar þar sem norrænu löndin taka þátt, svo sem á vettvangi BEMIP-verkefnisins og þar sem rekstraraðilar flutningskerfa og óháð eftirlitsyfirvöld taka þátt í margvíslegu svæðisbundnu samstarfi. Einnig á vettvangi Evrópunets raforkuflutningskerfisstjóra (ENTSO-E) og Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði ESB (ACER). Norrænu löndin taka einnig þátt í öðru, hnattrænna orkumálasamstarfi, svo sem á vettvangi Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA) og International Renewable Energy Agency (IRENA).