Fara í innihald

Markmið 1: Traust afhendingar­öryggi orku til norrænna notenda og fyrirtækja

Öruggt aðgengi að orku á viðráðanlegu verði skiptir sköpum fyrir norrænu löndin sem jafnframt hafa markað sér metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Norrænu löndin búa yfir mismunandi náttúruauðlindum og tryggja afhendingaröryggi með ólíkum hætti en þessar ólíku náttúruauðlindir bæta hver aðra vel upp og stuðla að auknu afhendingaröryggi á Norðurlöndum.
Atburðir síðustu ára, m.a. með aukinni spennu í heimsmálunum, hafa reynt á kerfin með tilliti til afhendingaröryggis og orkuverðs. Norrænt samstarf um afhendingaröryggi getur stuðlað að því að treysta kerfin og styrkja gagnvart framtíðaráskorunum.
michael-held-4VxfEw8my-I-unsplash.jpg

Undirmarkmið 1.1: Aukið samstarf og miðlun reynslu um rammaskilyrði varðandi endur­nýjanlega og jarð­efnaeldsneytislausa orku.

Nægileg orkuframleiðsla, einkum raforkuframleiðsla, er forsenda þess að viðhalda hinu mikla afhendingaröryggi sem Norðurlönd búa við. Samhliða rafvæðingu samfélagsins og aukinni eftirspurn eftir raforku vegna nýrrar tækni (t.d. vetnisframleiðslu) mun verða þörf á því að auka framleiðslugetu okkar á raforku verulega. Norrænu löndin standa andspænis mörgum sömu viðfangsefnanna þegar kemur að því að skapa rammaskilyrði sem geta tryggt nægilega getu, og munu efla samstarfið á þessu sviði.

Undirmarkmið 1.2: Samstarf um að haga orku­skiptunum með slíkum hætti að þau séu félagslega, efnahagsleg og umhverfislega ásættanlegri.

Þau umskipti sem nauðsynleg eru á sviði orkumála snerta margt fólk. Mikilvægt er að þau fari fram með slíkum hætti að fólkið sem þau snerta sætti sig við þau. Miðlun þekkingar á milli norrænu landanna, þróun inngildandi ferla og aukin þekking og skilningur geta stuðlað að árangursríkri framkvæmd. Þetta á jafnt við með tilliti til mannvirkja og innviða sem skiptingar kostnaðar við umskiptin.